Færsluflokkur: Dægurmál

Góð skipti

100_5510.jpg

Þegar Ása Eyfjörð átti 1 árs afmæli var ég á sjó, Kristbjörg heima með Ægi í maganum. Ég hef alltaf sagt að sjómennskan gerði mér margt gott og sú reynsla er dýrmæt. Ég vildi verða kennari, ég vildi vinna vinnu sem gerði mér kleift að vera heima þegar börnin væru heima, svo við Kristbjörg gætum eytt flestum stundum saman með þeim.  Nú er ég orðinn kennari, finnst gaman að kenna og er ánægður með kjörin og vinnutíminn er einmitt þannig að ég er heima þegar börnin mín eru heima. Þetta kalla ég góð skipti.

100_5554.jpg

Stundirnar sem við eigum saman, ættu ekki að mínu mati, að byggjast á sjónvarpsglápi eða á rándýrum leikföngum. Ása Eyfjörð dýrkar að vera úti, leika í sandinum, róla, rölta og hitta kisur og hunda eða gefa fuglum brauð. Að ganga á brú yfir læk með dóttur minni er frábær minning. Að svara eilífum spurningum dóttur minnar er frábært.

100_5494_866268.jpg

Að vera í sveitaferð og sýna syni mínum heiminn er frábært. Að kitla Ægi og knúsa, horfa og hlusta á hann hlæja er mjög gaman og gott. Að eiga góða konu sem gerir skyrdrykk handa mér er dásamlegt.

Ég er sáttur, hvorki of né van, hinn gullni meðalvegur lætur mér líða vel.

Annars erum við hress og kát. Ég útskrifaðist formlega 13. júní sem kennari frá Háskólanum á Akureyri en þar er bara útskrifað einu sinni á ári, ég kláraði námið í lok október. Ég er búinn að sækja um meistaranám í menntunarfræði með áherslu á stjórnun skólastofnana nú í haust og tek það með vinnu í Naustaskóla. Áætla að það taki mig 3-4 ár ef allt gengur upp.

Varðandi Icesave. Það er undarleg staða að þurfa að berjast fyrir því að fá að vera með sem þjóð meðal þjóða! Jón Sigurðsson og félagar eyddu drjúgum hluta ævinnar í baráttu sem fólst í því að standa ein og sér! Nú er okkur stillt upp við vegg og hótað að fá ekki að vera með sem þjóð vegna  Björgólfs og félaga í Landsbankanum, maðurinn gengur ennþá laus!

Stöndum við þennan samning, smölum öllum þeim sem bera ábyrgð á tilkomu hans saman og látum þá vinna samfélagsþjónustu svo lengi sem samningurinn er virkur, það er sanngjarnt.

Það fór eins og ég óttaðist með stjórnmálamennina. Þeir eru búnir að gleyma hver stóð vaktina í undanfara hrunsins og stjórnarandstaðan kennir nú þeim sem stjórna um hvernig komið er fyrir okkur ræflunum. Flokkarnir halda sínum döpru vinnuaðferðum, þeir sem stjórna hlusta ekki einu sinni á góðar hugmyndir andstöðunnar og þeir sem eru á móti telja allt vitlaust sem stjórnin gerir. Nýtt Ísland verður ekki til með þessum hætti. 

Mín tillaga og þá sammælis ég Davíð Oddssyni um að við þessar aðstæður á að vera þjóðstjórn, hver þingmaður stendur fyrir sitt atkvæði og meirihlutinn ræður. Fagmenn verða ráðherrar og framkvæma hlutina í umboði alþingismanna.

Ég veit að Ísland mun hrista þennan skuldabagga af sér og brosa í sátt og samlyndi með öðrum þjóðum. Ég ætla að segja börnunum sannleikann um manneskjuna, kenna þeim að forðast græðgi og spillingu og benda sem flestum að rata hinn gullna meðalveg.

Það er gott að vera í sumarfríi, heima með fjölskyldunni, heima á góðum stað á góðu landi sem fór of geyst, en á alla möguleika á að kenna börnum framtíðarinnar, að haga sér eins og við viljum að fólk sé flest!

Magri


Kreppuljóð

 Sá þetta ljóð hjá fyrrum samstarfskonu og finnst það fyndið en sorglegt

2007

Ég á minnsta húsið í götunni,
húsið sem stendur hjá Lödunni.
Þegar granninn rennir í pottinn hjá sér
kólna allir ofnarnir hjá mér.

Eftir að granninn gerði upp garðinn hjá sér
skín ekki sólin lengur í garðinn hjá mér.
Granninn fær ráðherrana í grillið til sín
og bræluna leggur svo yfir til mín.

Granninn á jeppa af flottustu sort,
en ég á bara ljóta Lödu Sport.
Ég fer í vinnuna með rútunni,
en hann með einkaþyrlunni.

2008

Konan hans eldist ekki hætings hót,
en mín er alltaf bæði feit og ljót.
Granninn er stæltur og með hárið ljóst,
En ég er bæði með ístru og lafandi brjóst.

Þegar granninn er með veislu hjá sér,
býður hann öllum, öllum - nema mér.
Elton John skemmti lýðnum í afmælinu,
en ég hafði bara efni á Breiðbandinu.

Óþolandi er oft, vel stæði granninn minn,
Það trúa því fáir, að hann sé sonur minn.

2009

Nú er hann kominn á heimilið mitt
og fluttur í gamla herbergið sitt.
Í kreppunni hann missti allt sitt fé.
Og nú á hann minni pening en ég.

Það kviknaði í báðum jeppunum,
og konan er farin frá honum.
Nú hangir hann heima rosa down,
og bölvar og ragnar Gordon Brown.

Höfundur ókunnur

Magri


Fjölskyldumyndir

100_5308.jpg

Fjölskyldan nýtti tæknina og tók fjölskyldumynd á tíma! Í dag þarf ekki að spara filmuna eða að hafa áhyggjur af því að gleyma að setja eina í. Við verjum góðum gæðatíma saman, það var einmitt ein af ástæðum þess að ég gerðist kennari, gera það sem mér finnst gaman og gefandi og vera heima þegar börnin og konan eru heima. Kristbjörg, Ægir, Ása, Gunnþór.


100_5356.jpg

Prinsessan Ása Eyfjörð í Reykjavík á leið í brúðkaup. Mikið dásamleg stúlka hún er. Ása er sem fyrr mjög ákveðin stúlka, hennar helsta áhugamál er íslensk tunga! Hún er sólgin í að læra ný orð, spyr og fær svar,hermir eftir, hlær og grallarast. 

100_5359.jpg

Mér hefur vegnað vel í lífinu. Ég á frábæra fjölskyldu og vini og vinn við það sem mig langaði að vinna við. Framundan er lífið og ég er stöðugt að reyna að bæta mig sem manneskju. Ég er óhræddur við að viðurkenna mistök í samskiptum, ef ég breyti rangt vil ég fá tækifæri til að gera betur. Ég vil að mér og öllum í kringum mig líði vel. Mér líður best með fjölskyldunni og börnin okkar Kristbjargar hafa veitt mér meiri hamingju og gleði en ég hefði getað ímyndað mér. Samveran er lykill að hamingju minni.

100_5391.jpg

 Ása Eyfjörð og Ægir Eyfjörð. Ása er mjög góð við bróður sinn. Hún leggst hjá honum og leyfir honum að leika með dótið sitt. Ægir er byrjaður að hlæja að systur sinni þegar hún er að grallarast og þau eiga eflaust eftir að vera dugleg að leika sér saman.

100_5412.jpg

Prinsinn á heimilinu Ægir Eyfjörð er fæddur í kreppu og lærði strax að safna forða á alla mögulega staði! Hann er mjög duglegur að drekka mjólk og er byrjaður að fá graut. Á þessari mynd er hann 4 mánaða. Hann er þéttur á velli en farinn að vinda aðeins uppá sig á gólfinu og þá er stutt í snúning á magann. Hann er farinn að þenja raddböndin og kann til dæmis að "væla" þegar við setjumst að snæðingi og þá veit hann (ef hann vælir nógu mikið) að hann fær að sitja í Búmbó uppi á borði eða í fanginu á okkur. Skynsamur drengur:)

100_5421.jpg

Ása Eyfjörð getur dundað sér með skó og föt og finnst ákaflega gaman að sýna okkur hvað hún er dugleg að klæða sig. Henni finnst líka eðlilegt að setja Ægi í föt eins og hún gerir við dúkkurnar sínar enda er hann skemmtilegasta dúkkan. 

Já já þannig er nú það. 

Magri


Lífið er dásamlegt!

eit5prom_prev

Sólin er frábær!

Magri


Veðrið

Það er kominn maí og grasið tekið að grænka. Meðalhitinn á Akureyri í síðasta mánuði var 3,5 stig , sem er 1,9 stigum fyrir ofan meðallag. Úrkoman mældist 27 millimetrar , sem er fimmtungi undir meðallagi. Alhvítir dagar voru fimm og er það sex dögum færri en í meðalári. Sólskinsstundirnar voru 82 , sem er 48 klukkutímum undir meðallagi. Svo lítið sólskin hefur ekki mælst á Akureyri í apríl síðan 1992 (Tekið af vef RÚV).

 

Veðrið heldur áfram að spila stóran þátt í lífi okkar Íslendinga og þar er engin kreppa né samdráttur, það er áfram nóg framboð af fjölbreyttu veðurfari. Við fjölskyldan dvöldum í Reykjavík síðasta fimmtudag og til þriðjudags þar sem við hittum fjölskyldu og vini, fórum í brúðkaup, ég var í skólaheimsóknum vegna undirbúnings Naustaskóla og svo skoðuðum við í verslanir og röltum um bæinn. Þann 1. maí fórum við og röltum Laugaveginn í ausandi vatnsveðri, hálftíma síðar stytti upp og dásamleg sólin hélt okkur brosandi og heitum er við gengum um borgina og nutum mannlífs. Klukkutíma síðar kom aftur hellirigning og þannig má segja að veðrið hafi verið það sem eftir lifði ferðar að mestu. Veðrið er gjarnan í aðalhlutverki.

 

Börnin dafna vel. Ása Eyfjörð grípur hvert orðið á fætur öðru, setur saman þrjú orð í setningarhluta, spyr og spyr og fær alltaf svar, það er mikilvægt. Ása hættir hjá nunnunum í dagvistun í júlí og byrjar á leikskólanum Hólmasól í ágúst, hann er 70 metra sunnar í götunni. Ægir Eyfjörð er duglegur strákur, hjalar og hlær, grípur um hluti og fær ómælda athygli frá okkur og systur sinni. Ægir fer svo til nunnanna í haust sem er mjög jákvætt því umönnun og ást þeirra á börnum er uppvexti þeirra í hag.

 

 Í sumar ætlum við að hafa það gott hér heima og njóta þeirrar ómældu veðurblíðu sem framundan er!

 

Magri


Fínt páskafrí og 15 km hlaup

Þá er páskafríið á enda og vinnan byrjar aftur á morgun. Við áttum góða daga með fjölskyldu og vinum. Vorum töluvert á Dalvík á skíðum, sleða og göngu og snæðingur með fjölskyldunni. Hittum allar ömmur og afa, lékum okkur og borðuðum páskaegg. Dagarnir voru ljúfir og góðir.

Ég lokaði páskafríinu í dag með hlaupi frá Þelamörk og hingað heim að hlaði sem eru 15 kílómetrar og tíminn var 80 mínútur. Þetta er það lengsta sem ég hef hlaupið án þess að stoppa á minni ævi. Framundan er hálfmaraþon 21 km við Mývatn 30. maí og ef líkaminn verður áfram sterkur þá ætti ég að klára það.

Börnin eru hress og kát, dafna vel. Kristbjörg er hress. 

100_5237.jpg

 Ása Eyfjörð er fjörkálfur, dugleg stelpa sem lætur okkur líða vel.

100_5189.jpg

 Alltaf eitthvað að brasa og gera skemmtilegt. Tveggja ára í sumar:)

100_5227.jpg

 Ægir Eyfjörð er 3 mánaða og er mjög duglegur að drekka og sofa á nóttunni:)

100_5209.jpg

Feðgar. Ægir brosir mikið og hjalar.

Það þarf ekki að kvarta.

Ég er orðinn frekar spenntur að byrja í nýju vinnunni við Naustaskóla. Fyrsti kennarafundur var haldinn skömmu fyrir páska þar sem við kynntumst og skoðuðum skólann sem enn er verið að byggja. Á næstu dögum hittumst við aftur og kynnum okkur skóla syðra sem er svipað uppbyggður og Naustaskóli er fyrirhugaður. Við ætlum líka að hafa vinnuhelgi og byrja að skipuleggja starfið enda þarf að mörgu að hyggja við opnun nýs skóla. Svo fer allt á fullt í byrjun ágúst.

Munum svo að kjósa 25. apríl og nýta atkvæðið okkar í þágu samfélagsins alls. Ég ætla að kjósa og hef gert upp hug minn sem hefur þróast, breyst og vonandi batnað:)

Magri


Þjóðarsátt

Hvað sem öðru líður þá þurfum við Íslendingar þjóðarsátt. Við þurfum í sameiningu að borga skuldir ógæfumanna sem leiddu okkur í fjárhagslegt þrot, við þurfum jafnvel að taka á okkur launalækkun svo sveitarfélagið okkar geti greitt skuldirnar og þurfi ekki að taka lán og segja upp fólki.

Akureyrarbær kom með þá tillögu að allir 1400 starfsmenn bæjarins taki sér einn launalausan frídag í mánuði til loka árs 2010. Skólaárið þyrfti þá að stytta um 10 daga ( með lagabreytingum)  og kennarar fái þá greidd 95% laun yfir árið og vinnudögum fækkar. Annars þarf að segja upp 70 manns!

Hvað gerist svo ef ekki tekst að stoppa í gatið? Lækka þá launin enn meira, hafa börnin lengur heima, foreldrar taka þá meira frí frá vinnu til að vera heima og atvinnulífið kulnar frekar, segja upp fólki? Ég veit ekki.

Ég veit að hér á landi þarf að strika yfir nokkur núll hjá heimilum og fyrirtækjum, gera menn ábyrga sem klúðruðu efnahagslífinu, senda alla eldri en 18 ára á siðfræðinámskeið, borga skuldirnar, súpa seiðið, fyrirgefa og byggja upp á heilbrigðari hátt.

Ég er þakklátur fyrir að hafa vinnu og skal glaður samþykkja lægri laun fyrir minni vinnu, tímabundið. Ég bíð spenntur eftir að sjá til hvaða úrræða verður gripið eftir kosningar fyrir heimilin, fyrirtækin og stofnanir.

Eitt er víst að við verðum að sættast við orðinn hlut og vinna okkur saman út úr ástandinu með þjóðarsátt á næstu árum.

Magri


Vetrarhlaupum lokið-vor framundan:)

Sumarið kemur formlega 23. apríl svo núna hlýtur að vera vor! Veðurspáin varar við stormi í dag og einhverjum skít á morgun, veturinn er að sýna sig fyrir vorinu en verður að lokum að játa sig sigraðan.

Í gær var sjötta af sex vetrahlaupum UFA hlaupið hér um götur Akureyrar í nokkru frosti, golu og snjóþekju yfir öllu. Það var fámennt en góðmennt og greinilegt að aðeins þeir hörðustu mættu í frostið:) Ég kláraði hlaupið sem fyrr án þess að finna fyrir nárameiðslum og hljóp 10 km á 47:58 mínútum sem ég er ánægður með miðað við aðstæður. Ég náði að hlaupa fimm þessara hlaupa en var syðra í febrúar.

Markmiðið í vetur var að hlaupa 10 km á >45mínútum en það var áður en ég setti mér nýtt markmið um að hlaupa hálfmaraþon. Ægir Eyfjörð kom í heiminn, Ása Eyfjörð þarf tíma, Kristbjörg er farin að æfa eftir barneign og ég hef minni tíma til að hlaupa en meiri með fjölskyldunni sem er gott. Fjölskyldan er í forgangi en hreyfinguna þarf ég til þess að vera hress og hraustur til þess að vera með fjölskyldunni:). 

Ég náði besta tímanum í vetur á gamlársdag er ég fór 10 km á 46:36 mínútum og ég get vel við unað og er sáttur við þann tíma. Framundan er 1. maí hlaup UFA og ef malbikið verður snjólaust og veður hagstætt þá gæti ég með góðu hlaupi komist undir 45 mínútur.

Þar sem fæturnir eru sterkir, lungun sterk og hjartað í formi þá hef ég sett markmið um að hlaupa hálft maraþon sem telst 21 km. Ég ætla að reyna það í Mývatnshlaupinu 30. maí og ef það gengur upp þá ætla ég að reyna aftur á landsmóti UMFÍ hér á Akureyri 11. júlí og setja mér þá markmið um tíma. Ég hlakka til. Vorið má koma.

Annars erum við hress, börnin dafna vel. Ása fór til Dalvíkur til ömmu og afa um síðustu helgi og var alla helgina, tvær nætur og skemmti sér konunglega. Henni finnst amma og afi á Dalvík og amma í Reykjavík dásamlegt fólk og okkur finnst dásamlegt að eiga svo frábæra foreldra. Ása og Ægir eru líka svo heppin að eiga þrjár langömmur og einn langafa og þau hittum við mjög reglulega.

Við hjónin og Ægir fórum til góðra vina, þeirra Jóns Inga og Hugrúnar og barna þar sem við elduðum saman dýrindis mat og áttum  gott spjall. Lífið snýst um að eiga góðan dag og við reynum stöðugt að hafa þá alla góða.

Kosningar framundan, ég mun ekki kjósa það sama og ég hef gert. Ég vil sjá jafnari kjör, ég vil afnám verðtryggingar og kosningar um niðurstöður aðildarviðræðna við ESB. Ég vil hærri skatta á stóreignafólk án þess að þeir hefti einstaklingsframtak. Ég vil bætt kjör öryrkja og eldri borgara, ég vil halda áfram að styrkja menntakerfið með bættum kjörum kennara. Kjósum breyttar áherslur annars er ekkert að marka okkur!

Framundan er vorið. Það verður gaman í sumar:)

Magri


Ráðinn kennari í Naustaskóla

Í dag var ég einn af 11 kennurum sem var ráðinn til starfa sem kennari við Naustaskóla á Akureyri, 68 sóttu um störfin. Ég er ráðinn frá 1. ágúst 2009 en samningurinn í Lundarskóla rennur út 31. júlí í sumar.

Naustaskóli er í byggingu og stefnan er að fyrsti áfangi verði tilbúinn í júlí svo fyrsta starfsár geti hafist í lok ágúst. Það er gríðarlega spennandi verkefni að fá að skapa skóla frá grunni. Að taka þátt í mótun umgjarðar um börn, starfsfólk, foreldra og samfélagið í kring er heillandi fyrir mann sem hefur lengi haft mikinn áhuga á uppbyggingu samfélaga og uppeldis- og menntamálum og ekki spillir fyrir að ég hef menntað mig í mannfræði og grunnskólafræðum.

Ég kannast við örfá nöfn þeirra kennara sem einnig voru ráðnir og það eitt að byrja á nýjum stað með nýju fólki er spennandi.  Alls verða 10 aðrir starfsmenn ráðnir en búið er að ráða deildarstjóra og í fyrra var skólastjórinn ráðinn. Fyrsta árið verða um 120 nemendur í 1-7. bekk. Meira síðar um hvað ég mun kenna og með hverjum.

Mjög spennandi starf framundan og krefjandi.

Ég mun sakna allra í Lundarskóla þar sem mér hefur liðið ákaflega vel og fengið tækifæri til að móta fyrstu skrefin sem kennari.

Kíkið endilega á þennan frábæra skóla: Naustaskóli

Magri


Þessu ber að fagna:)

Nýr framhaldsskóli við Eyjafjörð

Í dag var undirritað samkomulag um uppbyggingu framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð. Gert er ráð fyrir að kennsla hefjist næsta haust og undirbúningur að byggingu allt að 1300 fermetra skólahúss í Ólafsfirði á þessu ári.. Menntamálaráðherra segir spennandi verkefni í vændum.

 

 

Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra, Svanfríður Jónasdóttir oddviti Héraðsnefndar Eyjafjarðar og bæjarstjóri í Dalvíkurbyggð og Þórir Kr. Þórisson bæjarstjóri Fjallabyggðar, undirrituðu samninginn. Undirritunin fór fram í Tjarnarborg á Ólafsfirði að viðstöddum 10. bekkingum frá Dalvík, Ólafsfirði og Siglufirði ásamt bæjarstjórum, bæjarfulltrúum og íbúum af Eyjafjarðarsvæðinu.

Búið er að skipa bygginganefnd og er áætlað að framkvæmdir við skólabyggingu í Ólafsfirði hefjist þegar á þessu ári. Þar sem byggingu skólans verður ekki lokið fyrr en árið 2010, er gert ráð fyrir að skólahald hefjist í bráðabirgðakennsluaðstöðu haustið 2009. Fyrirhugað er að kennt verði á Dalvík, Siglufirði og í Ólafsfirði, í samstarfi við aðra framhaldsskóla í Eyjafirði. Skólanefnd verður skipuð fljótlega og auglýst verður eftir skólameistara í byrjun árs 2010.

frettir@ruv.is
Tekið af vef RÚV
Magri

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson
Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson

Dalvíkingur, giftur Kristbjörgu, faðir Ásu Eyfjörð, Ægis Eyfjörð og Kára Eyfjörð.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband