Þjóðarsátt

Hvað sem öðru líður þá þurfum við Íslendingar þjóðarsátt. Við þurfum í sameiningu að borga skuldir ógæfumanna sem leiddu okkur í fjárhagslegt þrot, við þurfum jafnvel að taka á okkur launalækkun svo sveitarfélagið okkar geti greitt skuldirnar og þurfi ekki að taka lán og segja upp fólki.

Akureyrarbær kom með þá tillögu að allir 1400 starfsmenn bæjarins taki sér einn launalausan frídag í mánuði til loka árs 2010. Skólaárið þyrfti þá að stytta um 10 daga ( með lagabreytingum)  og kennarar fái þá greidd 95% laun yfir árið og vinnudögum fækkar. Annars þarf að segja upp 70 manns!

Hvað gerist svo ef ekki tekst að stoppa í gatið? Lækka þá launin enn meira, hafa börnin lengur heima, foreldrar taka þá meira frí frá vinnu til að vera heima og atvinnulífið kulnar frekar, segja upp fólki? Ég veit ekki.

Ég veit að hér á landi þarf að strika yfir nokkur núll hjá heimilum og fyrirtækjum, gera menn ábyrga sem klúðruðu efnahagslífinu, senda alla eldri en 18 ára á siðfræðinámskeið, borga skuldirnar, súpa seiðið, fyrirgefa og byggja upp á heilbrigðari hátt.

Ég er þakklátur fyrir að hafa vinnu og skal glaður samþykkja lægri laun fyrir minni vinnu, tímabundið. Ég bíð spenntur eftir að sjá til hvaða úrræða verður gripið eftir kosningar fyrir heimilin, fyrirtækin og stofnanir.

Eitt er víst að við verðum að sættast við orðinn hlut og vinna okkur saman út úr ástandinu með þjóðarsátt á næstu árum.

Magri


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Látið bara ekki plata ykkur eins og gert er í öllum svona samningum, ef á að semja um eitthvað tímabundið þá á að hafa tímabilið hart skilgreint í samningnum og eins um launabreytingarnar, bæði niður og upp og hafa samninginn óframlengjanlegan. Það má semja upp á nýtt eftir samningslok en ekki framlengja þann sem gerður eru upphaflega.

Gulli (IP-tala skráð) 3.4.2009 kl. 16:08

2 identicon

Sammála Gulla. En það er samt klárt mál að sveitarfélögin - sem hafa allt of lengi verið svelt af Sjálfstæðisflokknum eiga um sárt að binda og munu eiga mjög erfitt með niðurskurð á velferðarþjónustunni sem þau veita. Nú er bara stóra samviskuspurningin, er þér stætt á að kjósa D einu sinni enn?

Ívar Örn (IP-tala skráð) 9.4.2009 kl. 20:37

3 identicon

Sæll Ívar. Það er laukrétt að ríkið hefur gjarnan verið nískt á peningalínur til sveitarfélaga og það þarf að ríkja jafnvægi þegar flutt er á milli þessara póla, að aðgangur að aurum fylgi með þegar eitthvað er flutt á milli.

Hvað varðar kosningar þá er ég búinn að standa utan flokka um nokkuð skeið og mun ekki kjósa D 25. apríl, það er klárt. Sem mig minnir að ég hafi kosið 5 sinnum til alþingis og alltaf kosið D vegna þess að ég var virkur í flokksstarfi og taldi þá stefnu henta mér og samfélaginu. Stefnan er ekki svo slæm (allar ágætar með misjöfnum áherslum) en mennirnir sem stjórnuðu rústuðu möguleikum hennar til góðra verka. Ég hallast þó í aðra átt núna enda kominn á önnur mið. Við þurfum að hvíla D í nokkurn tíma.

Gunnþór (IP-tala skráð) 10.4.2009 kl. 09:48

4 identicon

Gaman að heyra og Sigrún sendir þér sérstakar hamingjuóskir með að vera laus úr flokknum. Það er alveg rétt, allar stefnurnar eru góðar en mannskepnan virðist ansi gjörn á að klúðra þeim. Við þurfum að skapa kerfi sem treystir ekki fólki í valdastöðum. Hér eiga lýðræðislega kjörnir fulltrúar að vera fullkomlega fyrir opnum tjöldum með allt sem þeir gera. Fjölmiðlarnir hafa nú mikilvægara hlutverki að gegna en nokkru sinni fyrr og þeir þurfa að standa sig mun betur en hingað til. Ég treysti á að þú kjósir rétt í komandi kosningum, þér og fjölskyldunni til heilla. Til hamingju líka með nýja djobbið, það er frábært að fá að taka þátt í að móta skóla.

kveðjur frá Ferjubakka, Ívar Örn

Ívar Örn (IP-tala skráð) 13.4.2009 kl. 21:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson
Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson

Dalvíkingur, giftur Kristbjörgu, faðir Ásu Eyfjörð, Ægis Eyfjörð og Kára Eyfjörð.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband