Úr pokahorninu

Sannleikur í rannsóknum og sannleikur í skrifum etnógrafíunnar (þjóðlýsing) getur aldrei orðið meiri eða minni en mannfræðingurinn (rannsakandinn) leyfir; ef ekkert er gert og skrifað verður enginn sannleikur né lygi. Lífið fjallar einfaldlega um sjálft sig endalaust því ef við höldum ekki áfram að karpa, skoða og skrifa óháð sjónarhornum þá verður ekkert til. Enginn heilagur sannleikur hefur nokkurn tímann verið til og mun aldrei verða því sannleikurinn verður aldrei sannur á meðan samfélög hafa eins ólíkar skoðanir og nálganir á viðfangsefni og raunin er. Við getum skrifað um fólk eins og við sjáum það en fingraför okkar munu seint hverfa því öll mannfræði er lituð af upplifun rannsakandans. Allt er samhangandi; eins og líkaminn getur ekki án sálarinnar verið til að virka vel og hið sama á við um sálina sem þarf líkama til að keyra sig áfram. Til að líkamar og sálir geti þrifist þarf umhverfi og verund þar sem eitt leiðir af öðru á þróunarbrautinni.  Við höfum skoðanir og setjum þær fram til þess að þroska okkur sem manneskjur og samfélög. Lífið snýst einfaldlega um að vera til og vera meðvitaður um tilvist sína á einhvern hátt og hafa fullan rétt til þess hvernig sem maður er fæddur á þessa jörð.

Magri


Brot úr B.Ed-ritgerðinni minni

Ísland hefur á skömmum tíma breyst úr einsleitu samfélagi í fjölmenningarlegt samfélag þar sem fólk af ólíkum uppruna býr saman. Fordómar leynast víða og verða gjarnan til af þekkingarleysi. Börn með opinn huga og skilning geta breytt heiminum í umburðarlyndan og fallegan heim þar sem hver og einn getur notið sín óháð uppruna og menningu. Við þurfum að gera börn meðvituð um hvað fordómar eru, hvað fjölmenning er og hvernig við getum upprætt eigin fordóma og miðlað þekkingu sem leiðir til betri heims. Samfélag manna eins og við þekkjum það hér á Íslandi er byggt upp samkvæmt lögum sem byggð eru á siðviti sem maðurinn hefur þróað með sér. Við settum í lög að hvert barn skyldi hljóta menntun á þann hátt sem best hæfir hverjum einstaklingi. Samfélagið, skólinn og heimilið þurfa að mínu mati að vera samstíga um almenna menntun barnanna okkar svo þau fái öðlast þroska og siðvit sem dugir þeim til að vera sátt við sjálf sig og aðra menn og málleysingja.

 

Almenn menntun er að mínu mati ein leið til að koma í veg fyrir fordóma. Menntaður maður hefur meiri möguleika til þess að verða umburðarlyndur fyrir hinu óþekkta en ómenntaður vegna þess að á menntaveginum kynnist hann ólíkum siðum, gildum og leiðum til að meðtaka nýja þekkingu á hinu óþekkta á jákvæðan hátt. Almenn menntun á að styrkja einstaklinga til þess að gera þá færa um að skoða sjálfa sig í samfélaginu og nýta þá þekkingu sem þeir öðlast á skólagöngunni í daglegu lífi. Námsgreinin lífsleikni fjallar um hvernig mögulegt er að búa nemendur undir líf og störf í lýðræðislegu samfélagi. Hún fjallar um þau réttindi og skyldur sem fylgja nemendum er þeir ljúka grunnskóla og verða almennt menntaðir einstaklingar í samfélagi. Með lífsleikninni er farvegur til að efla félagsþroska barna, efla siðvit og virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum. Markmið tíma í lífsleikni gæti til dæmis verið að skilja hugtökin jafnrétti og fordómar og að kynnast hugmyndum hvers annars og setja sig í spor þeirra sem litið er framhjá eða afneitað (Aðalnámskrá grunnskóla, almennur hluti, 2007: 9-11).

 

            Árið 1684 skrifaði John Locke bréf til vinar síns Edward Clarke þar sem hann ráðlagði honum um uppeldi og menntun barnsins hans. Clarke bað Locke vin sinn um ráðleggingar því hann var ekki viss um hvort hann ætti að senda barnið í skóla eða mennta það heima. Locke gerði ítarlega grein fyrir öllum mögulegum leiðum, fjallaði meðal annars um fæðuhring barnsins, hvernig væri best að borða svo líkami og sál þrifust sem best, hvernig klæði væru heppilegust og svo framvegis. Aðalatriðin í sendibréfum Locke voru þó leiðir hans til að gera góða manneskju betri, styrkja einstaklinginn og rækta einkenni hans sem koma sér vel við að framleiða góða manneskju. Locke ráðlagði Clarke að mennta barnið heima enda væri það eina örugga leiðin til að komast hjá öllum prakkarastrikum stráka í skólum. Réttlæti, örlæti og fleiri dyggðir lærast ekki milli stráka sem kunna ekki að hegða sér og því væri ekki gott að senda barn í skóla sagði Locke. Clarke ákvað að mennta barnið sitt í einangrun heima og fara að ráðum Locke (Fullinwider, 2007: 498).

 

            Nú er öldin önnur og í dag kemur ekki annað til greina en að börnin okkar hljóti menntun í skóla lögum samkvæmt. Locke og félagar höfðu val á sínum tíma, þeir þurftu að spyrja sig siðferðislegra spurninga og Locke treysti skólanum greinilega ekki til að efla siðvit. Í dag eru strákar og stelpur í flestum tilfellum saman í skóla, saman í tímum og því er mikilvægt að þau fái eðlilega leiðsögn um samskipti sem samfélagið telur til góðra siða. Samfélagið hefur ákveðið að allir séu saman, líka þeir sem haga sér illa og þeir sem teljast illa mótaðir siðferðislega (illa upp aldir heitir það á góðri íslensku), og því er viss áhætta fólgin í því að senda siðprúð börn í skóla af hættu við að þau spillist eins og Locke hefði kannski sagt. Við vitum hins vegar að þó börn geti átt erfitt með að stilla sig þegar leikur þeirra nær hámarki þá læra þau gjarnan undirstöðuatriði um rétt og rangt gegnum leik sín á milli.

 

            Siðferðisuppeldi og menntun fer fram með samskiptum barna og foreldra í skóla, á heimilinu og í samfélaginu. Í lífinu læra þau um sársauka, svik, vanþakklæti, kvíða, sekt og hégóma. Þau öðlast líka ást, virðingu, kærleika, heiðarleika og í samskiptum við annað fólk læra börn að tileinka sér og nota þessi tilbrigði mannlegs eðlis. Siðferðisuppeldi snýst um að skilja grundvallaratriði í samskiptum manna þar sem hvert tilvik hefur ólík viðmið og gildi. Við byggjum upp hugmyndir almennt um siðferði sem geta kollvarpast í lífinu sjálfu, í raunveruleikanum. Aðalnámskrá grunnskóla og skólanámskrár hvers skóla, til dæmis í lífsleikni, geta bætt við þá þekkingu á grundvallaratriðum sem börnin hafa öðlast í samskiptum sínum við fólk. Hvernig við metum okkur sjálf er samofið við mat okkar á öðrum, hvernig við metum stolt, mont, hégóma, hroka, ást eða virðingu í fari annarra er lykilatriði í átt til eigin siðferðisþroska. Með því að vekja siðferðisvitund með börnum á fjölbreyttan hátt ætti að vera fær leið, til að þau temji sér í gegnum reynslu að virða menningu og gildi annarra í takt við sín eigin, með það að leiðarljósi að einstaklingar og samfélagið allt fái notið sín (Fullinwider, 2007: 498-501).

 

            Samfélagið er mótað af einstaklingunum sem í því búa með öllu því sem snertir líf manneskju. Skólinn er stofnun sem hefur þá stefnu innan laga að rækta börn svo þau megi gera sem mest úr hæfileikum sínum í þá átt að verða góðir og gildir samfélagsþegnar. Okkur er nauðsynlegt að hafa reglur um flesta hluti því samfélag sem er óreiðukennt bitnar alltaf á einstaklingunum sjálfum sem eru samfélagið og því verður það veikt. Samfélagið hefur getið af sér skóla sem á að mennta börn til þess að vera þátttakendur í samfélagi sem forverar þeirra mótuðu og því verða þau að taka sjálf við keflinu. Heimakennsla eins og Locke mældi með er tæki sem nýtist þeim sem ekki hafa möguleika á að menntast á annan hátt. Bílpróf er skilyrði til að keyra bíl rétt eins og almenn menntun er skylda grunnskólabarna. Við viljum flest ekki að hver sem er geti keyrt bíl án þess að hafa lært undirstöðuatriðin með bílprófi og eins mætti segja að við viljum ekki að börnin okkar þekki ekki grundvallargildi lífsins þegar þau ljúka grunnskóla. Samfélagið þarfnast þekkingar sem lærist í gegnum nám og leik í skóla samhliða öðrum börnum. Samfélagið þarfnast þess að fólkið sem það hýsir sé sammála um að menntun sé undirbúningur fyrir börn að axla ábyrgð á þeim skyldum sem það krefst af þeim og að sá undirbúningur sé leið til góðs lífs fyrir einstaklinginn sem tekur tillit til manns og umhverfis og gerir þar með samfélagið gott (Goodlad, 1996: 95-96).

Magri

Afkvæmin

100_4900.jpg

 Ása Eyfjörð verður tveggja ára í sumar. Hún er afar ákveðin og mjög skemmtileg stelpa. Eftir bað sem henni finnst frábær athöfn er gott að fara í náttföt og slopp yfir.

100_4917.jpg

 Ægir Eyfjörð braggast vel, bráðum tveggja mánaða gamall, hann er í öruggri umsjá systur sinnar:)

100_4940_804776.jpg

Stundum er Ása full harðhent og klórar bróður sinn stundum en bætir það upp með kossum og knúsi. Ægir er ljúfur og góður, farinn að brosa og hjala svolítið. 

100_4966_804790.jpg

Börnin eru dásamleg.

100_4995.jpg100_5007.jpg

Ægir Eyfjörð er rólegur ungur maður, duglegur að drekka og hvílir sig vel á milli. Það má ekki vanmeta hvíldina í þessu lífi! Litli prinsinn okkar.

100_5008.jpg

Litla prinsessan okkar.

Tíminn líður og Ása Eyfjörð bætir stöðugt í orðaforðann, hún kann að fara með penna og verður eflaust mjög listræn eins og foreldrarnir! Fjölbreytt verkefni er lykill að alhliða þroska.

 Annars erum við bara hress. Vorum í Reykjavík frá miðvikudegi til sunnudags liðinnar viku þar sem ég var í vetrarfríi. Þar nutum við "hótels" tengdamömmu og hennar manns, hittum vini, versluðum lítið eitt, kíktum á Gunna mág og Dóru í Reykjanesbæ og ýmislegt fleira. Góð tilbreyting með góðu fólki. Ása er enn að leita að ömmu sinni og síðast í morgunn var amma amma amma það fyrsta sem hún sagði er hún vaknaði. Hún var líka glöð að hitta dagmömmurnar nunnurnar og krakkana.

Við þurfum ekki að kvarta.

Magri

 


Uppeldi og menntun

Ég er búinn að skrifa heil ósköp um uppeldi og menntun í námi mínu, mannfræði- og kennaranámi og því ætla ég framvegis að draga fram glefsur af skrifum mínum og setja hér í dagbókina mína sem fjallar um mig og mína, uppeldi mitt og menntun, um mig í lífinu.

 .....Það er erfitt að kenna gömlum hundi að sitja, það er erfitt að sannfæra fullorðið fólk um að það eigi að hegða sér öðruvísi og hafa annað gildismat en það sem það ólst upp við og ávann sér í lífinu. Þær stoðir sem fólk byggir mat sitt á, á réttu og röngu, eru ekki auðhreyfðar því það er búið að styrkja þær allt sitt líf. Alveg það sama gildir um börn. Ef við komum til þeirra með einhver lögmál sem virðast fjarlæg og furðuleg þá eru minni líkur á að þau tileinki sér þau. Ef við hugum að aldri og hugarfari barnsins þá höfum við alla möguleika til þess að eiga við það rökræður um gildi og mat á réttu og röngu. Ef við komum fram á jafnréttisgrundvelli þá eigum við möguleika á að sannfæra barnið um að ígrunda þarfir sínar og annarra í framtíðinni og í barnæsku til þess að vega og meta gildi góðrar hegðunar. Það eru meiri líkur á að barni vegni vel í lífinu ef það fær sanngjarna og skýra leiðsögn.......

Magri


Leyfisbréfin í höfn...

Það besta við sjómennskuna var að koma í höfn. Í dag var ég að hlaupa á hlaupabretti og staldraði við mynd sem var á skjánum sem sýndi háseta á togara "taka trollið" og hleypa spriklandi fiski niður í móttöku þar sem þeirra beið vinnsla til manneldis. Ég hugsaði um margar góðar stundir á sjónum, hvað mér leið vel þegar vel fiskaðist, hvað það var gott að vera kokkur inni í hlýjunni þegar úti var haugabræla og nístingskuldi. Ég minntist líka tímanna þegar mér leið illa og gat ekki komist heim. Sjómennskan gerði mér gott og mér þykir væntum hafið, Ægir Eyfjörð sonur minn er sterk tenging mín og forfeðra til hafs.

Ég horfi glaður og sáttur til baka og minnist sjómennskunnar, sjópokinn er í geymslunni, reynslan er til staðar og ef á þarf að halda er ég sjóklár með stuttum fyrirvara.

Það eru lítil börn og kona sem búa með mér, konan er gift mér og börnin eru mín. Ég hefði aldrei höndlað að vera áfram sjóari með fjölskylduna heima þó svo að fríin séu góð á milli túra, ekki fyrir mig. Þess vegna ákvað ég að bæta við mig menntun. Kláraði mannfræðina, kláraði svo grunnskólakennarafræðina og með þetta tvennt gaf hæstvirtur menntamálaráðherra út fyrir mig leyfisbréf til þess að nota starfsheitið framhaldsskólakennari þar sem ég má kenna félagsfræðigreinar.

Leyfisbréfin komu í höfn í dag og sú höfn er heimilið mitt þar sem mér líður best. Það skipti mig miklu máli að fá framhalsskólaréttindin auk grunnskólaréttindanna einfaldlega vegna þess að ég hef þá meiri möguleika til þess að starfa sem kennari, ekki bundinn við grunnskólann.

Á sjónum lærði ég að vinna með höndunum og að vinna náið með einstaklingum í lokuðu samfélagi. Sem kokkur á togara eldaði ég ofaní 24 karla, spjallaði, drakk kaffi og deildi gleði og sorg. Ég á marga góða félaga af sjónum. 

Nú er ég kominn í skólann, ég er svo heppinn að hafa vinnu, ég er svo heppinn að hafa vinnu sem ég menntaði mig til, ég er svo heppinn að vinna í frábærum Lundarskóla með frábæru fólki. Það er stundum svipað að vera á frystitogara og kennari í skólastofu því báðir pólar eru lítil samfélög. Togarinn inniheldur um það bil 24 menn og skólastofan er gjarnan með 20-25 manneskjur í áhöfn, skipstjórinn stjórnar um borð og kennarinn í skólastofunni; alltaf þarf mikla samvinnu og samheldni allra innan samfélagsins til þess að andi og árangur sé góður.

Þegar ég var kokkur fannst mér frábært að vera minn eiginn herra, ég þurfti að sjá mönnum fyrir mat, þrífa og ýmislegt fleira innan ákveðins ramma sem um gilda reglur sem ber að fylgja. Ég gat skipulagt hvað var í matinn og gat unnið mér inn rýmri frítíma með því að undirbúa tvær máltíðir á sama tíma og svo framvegis. Ein af ástæðunum fyrir því að ég menntaði mig til kennara var einmitt þessi pæling um að vera minn eiginn herra innan ramma.

Ég get skipulagt hvað er gert í minni kennslustofu en þarf að fylgja ákveðinni uppskrift frá ráðuneyti og skóla, ég get kryddað með minni reynslu og mínum hugmyndum. Ég klára tímann og drekk kaffi með öðrum hásetum innan skólans og yfirmönnum, ég er minn eiginn herra en alltaf í samvinnu með öðrum þar sem ég fæ ný sjónarhorn á hlutina. Ég fæ góð frí á milli túra.

Ég er ánægður að vera kennari.

Magri


Hressandi 10 km hlaup!

hlaup_785969.jpg

Á laugardaginn 31. janúar tók ég (keppandi númer 98 næst lengst til vinstri)  þátt í enn einu 10 km hlaupinu og telst sennilega vanur hlaupari! Færðin var mjög erfið og er þetta erfiðasta hlaup sem ég hef hlaupið, vindur, úrkoma og færðin dásamleg með hálku undir snjónum! En mikið andskoti er þetta hressandi!

Það verður gaman þegar vorar og ég reyni fyrir alvöru að ná markmiði ársins að komast undir 45 mínútur, metið mitt er 46:36 mínútur.  

Annars eru allir hressir hér á heimilinu, Ægir braggast vel og Ása er dugleg að hjálpa til:)

Klöppum fyrir nýju ríkisstjórninni!

Magri


Ása Eyfjörð og Ægir Eyfjörð-myndir

100_4638.jpg

 Hún Ása er mjög ákveðin stelpa, mjög lífsglöð og þarfnast athygli. Henni finnst gaman að dansa og dilla sér, vera innan um fólk og hafa fjör. Henni finnst ís mjög góður enda dóttir foreldra sinna:)

100_4651.jpg

 Ásu finnst frábært að vera úti að leika. Garðurinn okkar hýsir stundum snjó og við nýttum gott tækifæri og gerðum snjókarl, einn barna og annan fullorðins, þið megið geta hvor snjókarlinn þessi er! Ásu finnst snjór frábær til átu og stundum fer hún með pabba sinn út á pall og sækir snjó/klaka í skál. 

100_4800.jpg

Ása er mjög ánægð með bróður sinn hann Ægi. Hún vill og fær að aðstoða eins og mögulegt er. Bara krúttlegt.

100_4819_778173.jpg

Ægir Eyfjörð er frískur, stilltur og prúður, hann fær alla okkar hlýju og ást eins og systir hans og þau munu eflaust verða góðir vinir.

100_4826.jpg

Ása Eyfjörð er nú bara lítil stelpa ennþá, rétt að verða 18 mánaða 24. janúar. Hún er voða góð og áhugasöm, Ægir á eflaust eftir að fá að sitja í dúkkukerrunni hennar enda er hún stjórnandi númer eitt! Hann var líka búinn að hlusta á hana skipa fyrir er hann var í móðurkvið og virðist ekki kippa sér mikið upp við systur sína:)

Við erum þakklát, glöð og ánægð að eiga þessi dásamlegu börn.

Magri


Ægir Eyfjörð

Við komum á fæðingardeild FSA kl. 1645 og ætluðum að láta skoða Kristbjörgu þar sem hún var búin að vera með verki um nóttina en þeir entust ekki. Þegar við mættum höfðu tveir samdrættir, öflugir, átt sér stað í bílnum og þegar við komum í skoðun var sóttin orðin afar öflug, tvær mínútur á milli. Ása fór til Hermínu systur og fjölskyldu og ætlunin var að sækja hana eftir "skoðun". Jæja, skoðunin leiddi í ljós fimm í útvíkkun, Kristbjörg settist á bolta og tók blíðlega á móti hverjum samdrættinum á fætur öðrum, ég hringdi í mömmu sem kom og fór með Ásu heim og gisti hjá henni. Ég brunaði heim og sótti "fæðingarsettið" sem er föt og tannburstar og myndavélar og beint á sjúkrahúsið.

Kristbjörg stóð sig eins og hetja og sleppti deyfingu í þetta sinn; leghálsinn þandist út, vatnið fór og hún byrjaði að rembast. Kl. 1911 kom Ægir Eyfjörð í fangið á mömmu sinni, sæll og glaður og móðirin í sæluvímu eftir mikil átök en einnig með mikla reynslu af fyrri fæðingu. Pabbinn klippti á naflastrenginn og við brostum. Hrafnhildur Ævarsdóttir tók á móti drengnum og þvílík dásemdar kona sem það er, mjög gott fólk upp til hópa á fæðingardeildinni. Við upplifðum þessa fæðingu á mjög jákvæðan hátt, okkur fannst við örugg og okkur leið vel, allavega milli verkja! Við erum þakklát.

Ása Eyfjörð hitti bróður sinn í dag og henni fannst þessi "dúkka" spennandi og enn meira spennandi þegar hún fór að hjala, væla og horfa á hana. Ása gaf honum bangsa og stóð sig vel, vildi helst bara hlaupa um gangana og kíkja í herbergin. Það er gaman að eiga tvö börn.

Hér kemur sýnishorn af Ægi Eyfjörð Gunnþórssyni 100_4661.jpg100_4673.jpg100_4694.jpg100_4710.jpg100_4725.jpg100_4734.jpg100_4728.jpg100_4737.jpg

Lífið er gott:)

Magri


Drengur

12. janúar kl. 1911 fæddist Ægir Eyfjörð Gunnþórsson. Hann var 14 merkur (3570g) og 51 cm. Fallegur og prúður drengur, öllum heilsast vel. Myndir koma í kvöld. HeartSmileSmile

Magri


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson
Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson

Dalvíkingur, giftur Kristbjörgu, faðir Ásu Eyfjörð, Ægis Eyfjörð og Kára Eyfjörð.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband