Leyfisbréfin í höfn...

Það besta við sjómennskuna var að koma í höfn. Í dag var ég að hlaupa á hlaupabretti og staldraði við mynd sem var á skjánum sem sýndi háseta á togara "taka trollið" og hleypa spriklandi fiski niður í móttöku þar sem þeirra beið vinnsla til manneldis. Ég hugsaði um margar góðar stundir á sjónum, hvað mér leið vel þegar vel fiskaðist, hvað það var gott að vera kokkur inni í hlýjunni þegar úti var haugabræla og nístingskuldi. Ég minntist líka tímanna þegar mér leið illa og gat ekki komist heim. Sjómennskan gerði mér gott og mér þykir væntum hafið, Ægir Eyfjörð sonur minn er sterk tenging mín og forfeðra til hafs.

Ég horfi glaður og sáttur til baka og minnist sjómennskunnar, sjópokinn er í geymslunni, reynslan er til staðar og ef á þarf að halda er ég sjóklár með stuttum fyrirvara.

Það eru lítil börn og kona sem búa með mér, konan er gift mér og börnin eru mín. Ég hefði aldrei höndlað að vera áfram sjóari með fjölskylduna heima þó svo að fríin séu góð á milli túra, ekki fyrir mig. Þess vegna ákvað ég að bæta við mig menntun. Kláraði mannfræðina, kláraði svo grunnskólakennarafræðina og með þetta tvennt gaf hæstvirtur menntamálaráðherra út fyrir mig leyfisbréf til þess að nota starfsheitið framhaldsskólakennari þar sem ég má kenna félagsfræðigreinar.

Leyfisbréfin komu í höfn í dag og sú höfn er heimilið mitt þar sem mér líður best. Það skipti mig miklu máli að fá framhalsskólaréttindin auk grunnskólaréttindanna einfaldlega vegna þess að ég hef þá meiri möguleika til þess að starfa sem kennari, ekki bundinn við grunnskólann.

Á sjónum lærði ég að vinna með höndunum og að vinna náið með einstaklingum í lokuðu samfélagi. Sem kokkur á togara eldaði ég ofaní 24 karla, spjallaði, drakk kaffi og deildi gleði og sorg. Ég á marga góða félaga af sjónum. 

Nú er ég kominn í skólann, ég er svo heppinn að hafa vinnu, ég er svo heppinn að hafa vinnu sem ég menntaði mig til, ég er svo heppinn að vinna í frábærum Lundarskóla með frábæru fólki. Það er stundum svipað að vera á frystitogara og kennari í skólastofu því báðir pólar eru lítil samfélög. Togarinn inniheldur um það bil 24 menn og skólastofan er gjarnan með 20-25 manneskjur í áhöfn, skipstjórinn stjórnar um borð og kennarinn í skólastofunni; alltaf þarf mikla samvinnu og samheldni allra innan samfélagsins til þess að andi og árangur sé góður.

Þegar ég var kokkur fannst mér frábært að vera minn eiginn herra, ég þurfti að sjá mönnum fyrir mat, þrífa og ýmislegt fleira innan ákveðins ramma sem um gilda reglur sem ber að fylgja. Ég gat skipulagt hvað var í matinn og gat unnið mér inn rýmri frítíma með því að undirbúa tvær máltíðir á sama tíma og svo framvegis. Ein af ástæðunum fyrir því að ég menntaði mig til kennara var einmitt þessi pæling um að vera minn eiginn herra innan ramma.

Ég get skipulagt hvað er gert í minni kennslustofu en þarf að fylgja ákveðinni uppskrift frá ráðuneyti og skóla, ég get kryddað með minni reynslu og mínum hugmyndum. Ég klára tímann og drekk kaffi með öðrum hásetum innan skólans og yfirmönnum, ég er minn eiginn herra en alltaf í samvinnu með öðrum þar sem ég fæ ný sjónarhorn á hlutina. Ég fæ góð frí á milli túra.

Ég er ánægður að vera kennari.

Magri


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson
Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson

Dalvíkingur, giftur Kristbjörgu, faðir Ásu Eyfjörð, Ægis Eyfjörð og Kára Eyfjörð.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband