Vetrarhlaupum lokið-vor framundan:)

Sumarið kemur formlega 23. apríl svo núna hlýtur að vera vor! Veðurspáin varar við stormi í dag og einhverjum skít á morgun, veturinn er að sýna sig fyrir vorinu en verður að lokum að játa sig sigraðan.

Í gær var sjötta af sex vetrahlaupum UFA hlaupið hér um götur Akureyrar í nokkru frosti, golu og snjóþekju yfir öllu. Það var fámennt en góðmennt og greinilegt að aðeins þeir hörðustu mættu í frostið:) Ég kláraði hlaupið sem fyrr án þess að finna fyrir nárameiðslum og hljóp 10 km á 47:58 mínútum sem ég er ánægður með miðað við aðstæður. Ég náði að hlaupa fimm þessara hlaupa en var syðra í febrúar.

Markmiðið í vetur var að hlaupa 10 km á >45mínútum en það var áður en ég setti mér nýtt markmið um að hlaupa hálfmaraþon. Ægir Eyfjörð kom í heiminn, Ása Eyfjörð þarf tíma, Kristbjörg er farin að æfa eftir barneign og ég hef minni tíma til að hlaupa en meiri með fjölskyldunni sem er gott. Fjölskyldan er í forgangi en hreyfinguna þarf ég til þess að vera hress og hraustur til þess að vera með fjölskyldunni:). 

Ég náði besta tímanum í vetur á gamlársdag er ég fór 10 km á 46:36 mínútum og ég get vel við unað og er sáttur við þann tíma. Framundan er 1. maí hlaup UFA og ef malbikið verður snjólaust og veður hagstætt þá gæti ég með góðu hlaupi komist undir 45 mínútur.

Þar sem fæturnir eru sterkir, lungun sterk og hjartað í formi þá hef ég sett markmið um að hlaupa hálft maraþon sem telst 21 km. Ég ætla að reyna það í Mývatnshlaupinu 30. maí og ef það gengur upp þá ætla ég að reyna aftur á landsmóti UMFÍ hér á Akureyri 11. júlí og setja mér þá markmið um tíma. Ég hlakka til. Vorið má koma.

Annars erum við hress, börnin dafna vel. Ása fór til Dalvíkur til ömmu og afa um síðustu helgi og var alla helgina, tvær nætur og skemmti sér konunglega. Henni finnst amma og afi á Dalvík og amma í Reykjavík dásamlegt fólk og okkur finnst dásamlegt að eiga svo frábæra foreldra. Ása og Ægir eru líka svo heppin að eiga þrjár langömmur og einn langafa og þau hittum við mjög reglulega.

Við hjónin og Ægir fórum til góðra vina, þeirra Jóns Inga og Hugrúnar og barna þar sem við elduðum saman dýrindis mat og áttum  gott spjall. Lífið snýst um að eiga góðan dag og við reynum stöðugt að hafa þá alla góða.

Kosningar framundan, ég mun ekki kjósa það sama og ég hef gert. Ég vil sjá jafnari kjör, ég vil afnám verðtryggingar og kosningar um niðurstöður aðildarviðræðna við ESB. Ég vil hærri skatta á stóreignafólk án þess að þeir hefti einstaklingsframtak. Ég vil bætt kjör öryrkja og eldri borgara, ég vil halda áfram að styrkja menntakerfið með bættum kjörum kennara. Kjósum breyttar áherslur annars er ekkert að marka okkur!

Framundan er vorið. Það verður gaman í sumar:)

Magri


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég hef hlaupið hálfmaraþon... - in my mind!

Gulli (IP-tala skráð) 29.3.2009 kl. 19:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson
Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson

Dalvíkingur, giftur Kristbjörgu, faðir Ásu Eyfjörð, Ægis Eyfjörð og Kára Eyfjörð.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband