Færsluflokkur: Dægurmál

Góð ferð að baki

Ljómandi góðri ferð syðra er lokið. Sluppum gegnum Holtavörðuheiðina með herkjum enda var þar blindbylur og 10 bíla árekstur og allt í hnút. Við drógum andann djúpt og sluppum í gegn eftir 20 mínútna töf en þegar við komum niður kom tilkynning í útvarpinu að þar yrði lokað í 3-4 tíma! Ívar, Sigrún og Ernir biðu svo með mat og skjól í Borgarfirðinum þar sem við höfðum næturstað.

Laugardagur fór í kerruleiðangra og fleira sem þarf að sinna í slíkri ferð. Í stuttu máli sagt náðist mikill árangur þessa helgi og keyptum við Brio faraskjóta fyrir erfingjann, óléttuföt, fatahengi og skóhillu og sitthvað fleira sem var á listanum. Við fórum út að borða á Domo með Bjarna, Steingrími, Degi og Bryndísi og var það alveg ljómandi skemmtilegt og góður matur þar sem kvöldið endaði á B5 bar sem er flottur reyklaus staður. Sunnudagurinn fór í IKEA þar sem mikill árangur náðist, við fórum til Grindavíkur í heimsókn til Einars, Ernu, Braga og barns í bumbu, gott fólk þar á ferð. Fórum í kvöldmat til tengdamömmu og Josephs og enduðum á kaffi og köku hjá Heiðdísi og Bigga, allt ljómandi fínt.

Það er ekkert grín að fara í svona ferð þar sem maður reynir að uppfylla heimsóknaþörfina og verslunarþörfina, oft kemur maður þreyttur heim en ánægður að hafa hitt fólk sem maður sér ekki oft en eru sannir vinir og fjölskylda. Við erum mjög ánægð enda höfðum við ekki farið frá Akureyri lengra en til Dalvíkur síðan í ágúst svo þetta var bæði slakandi, skemmtilegt og gefandi fyrir VISA Ísland! 

Meðgangan gengur vel og eru 25 vikur liðnar næsta föstudag, keyptum aðeins á krílið og nú förum við virkilega að sjá raunveruleikann þegar vagninn er mættur og fleira dót sem tekur nú áður ófyllt pláss hér í Helgamagrastræti, jákvætt og gaman.

Nú ætla ég að setja saman skóhillur, þvo þvott og koma mér  aftur af stað í verkefnavinnu.

Passið ykkur á páskaungunum

Magri 


Rólegt á miðunum, góð stefna þó.

Ég er á góðri siglingu með verkefni þau sem skila þarf í lok apríl, mjög jákvætt skref í mínu lífi og námi að vinna verkefnin jafnóðum. Með kennaranáminu hef ég dundað við fyrri syndir sem í þessu tilviki er BA-ritgerð í mannfræði. Á tímabili mannfræðinámsins var ég ekki tilbúinn í að taka lífinu alvarlega, kannski var ekki of mikil ástæða til. Í dag hef ég fundið tilganginn við að skrifa þessa ritgerð og það er ljóst að ég skila þeirri vinnu 11. maí. Stór górilla hefur setið á bakinu á mér og oft hef ég haldið að hún myndi hafa mig niður, fólkið mitt barði mig áfram og ég sé fram á að losna við górilluna og held að ég verði betri maður á eftir.

Það er svo mikilvægt að maður hafi gaman af því sem maður er að læra, mér gengur mjög vel í skólanum og það er vegna þess að ég hef gaman að þessu, veit ég er á réttri braut. Það skemmtilega við þetta líka er að BA ritgerðin varð skemmtileg í kjölfarið og ég fann nýjar víddir sem nýtast á báðum pólum. Ég mun sigra górilluna, geri mitt besta.

Við fórum til Dalvíkur á laugardaginn, maraþonheimsóknir, fyrst kaffi hjá ömmu og afa, dásamlegur kvöldmatur hjá mömmu og pabba þar sem við snæddum lambahrygg, við kíktum til Freys og Silju og enduðum í Garðshorni þar sem við hittum Bjarna sem var þar hjá systur sinni. Við kíktum á Bakaríið sem er barinn á Dalvík, gríðarleg stemming þar eða hitt þó heldur svo við kíktum á bari Akureyrar. Fínn dagur með fínu fólki.

Það er stutt í kosningar. Ég hef velt fyrir mér stöðu mála, mörgu leyti sammála Steingrími J. en forsjárhyggja og þvingandi jafnaðarhugmyndir hans eru mér ekki að skapi, ég vil sjá græna umhverfisskán á Sjálfstæðisflokkinn og ég vil að atvinnulífið fái að jafna sig í einhvern tíma, hætta stórframkvæmdum og eindregið hætta álvitleysunni. Ekki sé ég nokkra glóru í að kjósa Samfylkinguna og er það aðallega vegna lélegrar stjórnunar Ingibjargar. Frjálslyndir eru með Kidda sleggju og fleiri snillinga sem ég vil ekki sjá á þingi. Ef Guð er til eins og skoðanakönnun Magra bendir til þá er hann sá eini sem getur bjargað Framsóknarflokknum, Jón Sigurðsson er ein sorglegasta sending sem Alþingi og Stjórnarráðið hafa fengið og það alveg án þess að hafa fólkið í landinu á bakvið sig. Burt með Framsókn og ég vil sjá Vinstri græna í stjórn ásamt Sjálfstæðisflokknum, það væri landinu til góðs, ég trúi að það sé hægt. 

Lifið heil

Magri 


13. mars árið 1975 kl. 1755

Gott fólk.

Þann 13. mars árið 1975 kl. 1755 fæddist drengur á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri. Hann er yngsta barn foreldra sinna og má segja að þessi lokatilraun Ásgerðar og Gunnþórs til að eignast strák hafi heppnast með eindæmum vel.

Drengurinn hefur alla tíð þótt ágætur, dugað vel í vinnu og skóla og verið góður vinur vina sinna og eftirlæti ættingja sinna. Hann hefur fengist við eitt og annað gegnum tíðina og ekki alltaf farið troðnar slóðir. Margir eru sammála honum í lífsskoðun en hafa ekki kjark til að fylgja henni eftir, aðrir eru honum ósammála og láta hann vita af því, það er gott að segja það sem manni finnst og enn betra að gera það sem manni langar til.

Í dag er drengurinn giftur maður, fann góða konu eftir 27 ára leit enda vildi hann vanda vel til verka, hann fann Kristbjörgu sem einungis hefur gert líf hans betra og eiga þau von á sínu fyrsta barni. Drengurinn er á góðri leið með að gerast kennari og kann vel við þá ákvörðun, hann er hamingjusamur og ákaflega ánægður með að eiga góða fjölskyldu og vini.

Hann verður að heiman á afmælisdaginn.

Til hamingju með afmælið Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson, megi gæfan fylgja þér í framtíðinni og mundu að lífið sem þú lifir núna er ekki sjálfgefið, þú þarft að rækta sjálfan þig til að lifa með öðrum. Þú ert ágætur maður sem vill stöðugt gera betur. Bestu kveðjur frá sjálfum þér.

Magri 


50 ára lýðveldisafmæli Ghana

Fréttamynd 422741

Frá hátíðahöldum í Ghana í dag. AP

Erlent | AFP | 6.3.2007 | 11:33

Haldið upp á 50 ára lýðveldisafmæli Ghana

Ghanverjar héldu í dag upp á 50 ára sjálfstæðisafmæli ríkisins og var mikið um dýrðir, en Ghana heyrði áður undir Bretaveldi. Í borginni Accra kveikti forseti landsins, John Kufour, á kyndli sem tákna á sjálfstæðisanda þjóðarinnar og var honum ákaft fagnað. Athöfnin fór fram á Sjálfstæðistorginu og stigu menn dans í þjóðbúningum.

Þá virti Kufour fyrir sér herfylkingar en í þeim voru einnig breskir hermenn sem sendir voru sérstaklega til að vera viðstaddir afmælið. Um 20.000 manns fylgdust með þeirri athöfn. Ghanverjar brutust til sjálfstæðis frá Bretum eftir að vera nýlenduþjóð þeirra í 80 ár. Það varð öðrum þjóðum sunnan Sahara hvatning til þess að krefjast sjálfstæðis. Árið 1965 höfðu 17 Afríkuþjóðir losnað undan nýlenduherrum sínum. Tekið af mbl.is

Eins og alþjóð veit var ég sendiherra Íslands í Ghana í eitt ár frá júlí 1995-júní 1996 en þar var ég sem sjálfboðaliði á vegum Alþjóðlegra ungmennaskipta www.aus.is, ég bjó hjá stórri fjölskyldu og starfaði sem bókasafnsliði í grunnskóla . Árið 2000 fór ég aftur til Ghana í mánuð og tók fjóra vini mína með mér. Næst ætla ég að fara með fjölskylduna mína og sýna henni þetta dásamlega land sem breytti lífi mínu og viðhorfum, ég sé alltaf betur og betur hvað þessi reynsla er dýrmæt, að geta hugsað út frá einhverju öðru en því samfélagi sem ég bý í núna er mér sérstaklega mikilvægt núna í kennaranáminu.

Í dag var ég í starfskynningu í Lundarskóla og á morgun líka, fólkið þar tók afskaplega vel á móti okkur og skipulag og dagskrá til fyrirmyndar. Góður andi og umhverfi, ekki laust við að mig langi að byrja núna að kenna en ég þarf að bíða örlítið lengur. Við kynntumst innviðum skólans, stefnu og fólkinu sem starfar við ýmis störf önnur en beina kennslu. Á morgun verðum við í bekkjum að fylgjast með kennslu, ég fer í samfélagsfræði hjá 5. bekk og 8. bekk, íslensku hjá 9. bekk og ensku hjá 10. bekk, spennandi dagur á morgun.

Magri


Allt í fína

Kæru vinir, hér í Magrastræti er allt í fína. Meðgangan gengur vel og er nú ríflega hálfnuð, við vitum ekki hvort kynið er á ferð svo það verður enn skemmtilegra þegar barnið kemur í heiminn kringum 13. júlí.

Við erum byrjuð að skipuleggja hluti og aðstæður sem þarf til að taka á móti barni, skiptiborð, vagga, bílstóll og fleira er klárt en það verður sótt og safnað saman í sumar. Einu fötin sem við höfum keypt er rauð Liverpool-samfella sem við keyptum á Anfield 1. nóvember 2005 og þá var ákveðið að fyrsta barnið fengi samfelluna sem sitt fyrsta "dress" hehe... svo færði Kristbjörg í hús ljósa samfellu sem stendur á: pabbi minn er lang lang bestur:) mjög gott. Það er gott að eiga góða að þegar huga þarf að öllum þessum búnaði og munar miklu að fá hluti frá ættingjum og vinum. Við ætlum fljótlega til Reykjavíkur að velja okkur vagn/kerru og ljóst að margt er í boði og mun fleiri hugmyndir fólks um hvað sé best og hentugast. Gaman að þessu.

Annars gengur vinnan vel hjá Kristbjörgu og ég er á kafi í verkefnum í skólanum og þau ganga mjög vel, þau sem búin eru marka bilið 8,0-9,7 sem er ljómandi. Í næstu viku fer ég ásamt þrem stúlkum í tveggja daga heimsókn í Lundarskóla þar sem við kynnumst innviðum skólans og kennslu í bekk, einnig munum við í framhaldi taka fræðilegt viðtal við kennara. Margt spennandi að gerast og ég er bara hamingjusamur.

Það er ánægjulegt að matarinnkaupin muni lækka og nú þurfum við neytendur að fylgja þessu eftir og athuga vel hvað lækkar og hvað ekki, sniðganga helst hátt verðsettar vörur og benda kaupmönnum á hvað sé vel gert og hvað megi betur fara... við fórum í Hagkaup í dag og keyptum meðal annars 2L Coke light á 191 kr, þegar ég kom heim fattaði ég að ég sá í blaði í morgunn tilboð á Coke light 2L á 79 kr í Bónus, við verslum 99% í Bónus! Mjög slæmt af mér og ég lofa að gera betur næst. 

Spakmæli dagsins er í boði Óskars Árna Óskarssonar:

Stundum ætlar allt um koll að keyra, þá er ráð að sækja gömlu sundhettuna upp á háaloft.

Magri 


Maður eins og ég eða þú

Ég fór í jarðarför í gær, eldri maður var jarðsettur, maður sem ég umgekkst á hátíðisdögum, fermingum, jarðarförum og fleiri tilfallandi ættarmótum ef svo má segja. Maður sem vann til sjós og svo í landi það sem kallast í dag slor eða erfiðisvinna, maður sem skilur eftir sig mikinn og góðan hóp barna og afkomenda þeirra. Þetta var góður maður. Presturinn ræddi um lífið og tilveruna, tilurð og návist guðs og fleira sem er þægilegt og gott að hlusta á við slíkar aðstæður. Það er á slíkum stundum er ég finn fyrir trúarhjali innra með mér, að einhver góður guð sé til sem verndar og gefur. Því miður er þetta svo fljótt að breytast þegar athöfnum lýkur, fréttir af hörmungum milli hópa í trúarstríði, viðurkenna ekki þetta ríki því þar er önnur trú, börn deyja sem aldrei fyrr þrátt fyrir að góður guð sé alls staðar, er það mjög góður guð sem fórnar saklausum börnum á hverri sekúndu? Eða eru það bara vondir menn? Maður spyr sig.

Presturinn benti okkur líka á að við þyrftum ekki alltaf að líta langt í burtu til að finna það góða, að vakna með makanum, með börnunum og njóta þess að horfa út um gluggann vitandi það að þar er hreint loft sem þú getur andað að þér án allra skoðana og hættu á að vera drepinn. Það eru litlar líkur á að ég verði drepinn á Akureyri fyrir að halda með Þór í knattspyrnu en búa í KA-hverfi! Mögulegt þó því heiftin í manninum fer stöðugt versnandi. Fólk flokkar enn frekar manneskjur eftir stjórnmálaskoðunum, litarhætti og nú í dag helst eftir trúarskoðunum því ákveðnir hópar eru hættulegri en aðrir! Hryðjuverkamenn eru ekki kristnir, þeir eru brúnir og tilbiðja Allah, segja þeir blindustu!

Blindasta þjóð í heimi er besta þjóð í heimi sem á fallegustu konurnar, sterkustu mennina sem nota mest af sterum, feitustu börnin, leiðinlegasta og frekasta gamla fólkið, auk þess að öryrkjar eru uppáþrengjandi, vextir eru hæstir fyrir utan Zimbabwe, við eigum mest af fiski en borðum lítið því hann er svo dýr miðað við nýjan flatskjá, kennarar eru plága sem vilja sambærileg laun og annað háskólamenntað fólk, kennarar á Íslandi nenna ekki að vinna og taka því starfsdaga tvisvar á ári þar sem stundað er fjárhættuspil úr samningasjóði, sjómenn hafa aldrei fengið hærra verð fyrir fiskinn en skulda mest í yfirdráttarlán,  kaupsýslumenn stunda fjárglæfrastarfsemi sem kallast útrás en er í raun í boði öxulvelda hins illa því allir vita að peningarnir eru illa fengnir, ný námskrá grunnskóla tók gildi 1. janúar og er samin af Björgólfi Thor og Pútín Rússlandsforseta.

Ég held að Íslendingar séu hryðjuverkamenn, gildi samfélagsins eru hraði og frami á þeim grunni að skammtímagróði sé mun betri en fjárfesting í uppeldi og alhliða þroska barna, við höfum gleymt okkur í samtímatryllingi sem gefur af sér vindgang og viðbjóð í formi slitinna mannlegra tengsla og samlyndis. Fólk giftist frammi fyrir guði en skilur jafnharðan því guð fyrirgefur allt, guð fyrirgefur barnaníðingum og jafnvel dómurum sem sleppa þeim á göturnar án aðstoðar. Guð fyrirgefur Ólafi Ragnari fyrir að taka sæti í þróunarráði Indlands, Halldór Blöndal gerir það ekki því þeir eru gamlir óvinir úr pólitík! Vondir menn eða valdalaus guð?

Rugl og vitleysa, ég hef aldrei verið nær því að segja mig flokknum, ekki að ég hafi fundið betri flokk en mér verður alltaf ljósara að fólk vinnur ekki að sannfæringu, fólk vinnur ekki samkvæmt því ferli sem þarf til að sem flestir njóti góðs. Fólk þorir ekki almennt að standa upp og segja hvað því raunverulega finnst því það er hrætt við að missa stöðu sína, þannig gerist ekkert sem orðið getur til góðs.

Ég ákvað að læra til kennara því mig langar að koma mínum hugmyndum um betri heim beint til barnanna, til foreldra og til allra sem enn hafa í sér huggulegt eðli um heim sem er í jafnvægi. Ég ætla ekki að standa fyrir framan börnin og reyna að halda því fram að guð sé ekki til, kannski er guð til. Ég vil benda krökkum á hver raunveruleikinn er, staðreyndir lífsins og benda þeim á að þau hafa raunverulegt val um hvernig þau andlega og efnislega lifa lífinu og ég skal aðstoða hvern þann sem um hjálp biður.

Ég veit að jöfnuður verður seint algjör og ég leita ekki eftir því í dag, ég trúi á að fólk megi og geti skarað framúr af eigin verðleikum, ég vil að fólk fái sín tækifæri til að lifa fullnægðu lífi, ef eitthvað klikkar þá eigum við að fá hjálp, við eigum að hafa það í okkur að aðstoða og veita hjálp, ég sá það í gær að eitt faðmlag frá mér gerði mikið gagn á erfiðum tíma einstaklinga sem misstu föður, afa og eiginmann. Vandamál og erfiðleikar eru og verða til staðar en við getum og eigum að tala saman, finna sameiginlega lausn sem hentar sem flestum vel.

Aristóteles lifði 384-322 fyrir fæðingu Jesú. Hann sagði að menn myndu vaxa af viðfangsefnunum og til þess að manneskja verði hamingjusöm, geti þroskast í sátt við sig og aðra þá þarf hver og einn að skapa sjálfan sig. Dygð okkar manna í dag mætti vera að mínu mati meira í takt við Aristóteles, að rata rétt meðalhóf milli tveggja öfga, að hver og einn fái tækifæri til að klífa fjallið á eigin forsendum og ná sínum hátindi þó ekki tróni hann efst á fjallinu, þessar hugmyndir mun ég hafa í öndvegi er ég byrja að leiðbeina krökkum á vandrötuðum vegi.

Þetta hljómar klisjukennt og mörgum finnst vonlaust að snúa til baka frá taumlausri efnishyggju, mér finnst það ekki og mér líður vel með þá skoðun, vonandi koma fleiri með mér.

Annars gengur allt vel, kostir og gallar en almennt erum við sátt.

Magri 


Ekki er öll vitleysan eins

Vísir, 13. feb. 2007 10:00

"Hoppa svo"

Nær einn af hverjum þrem Bretum heldur að konur geti forðast þungun eftir kynmök með því að hoppa upp og niður, strax að þeim loknum. Þetta kom fram í nýrri könnun bresku fjölskylduráðgjafarinnar, sem telur að nauðsynlegt sé að auka kynfræðslu í skólum. Duh !


Magri

Skírnin

Með skírninni erum við tekin inn í kirkju Krists. Oftast er það gert meðan við erum ómálga börn. Samkvæmt fyrirmælum Jesú Krists er barn skírt í nafni föður, sonar og heilags anda. Barnið er helgað Guði með orði hans og bæn og ausið vatni. Gömul hefð er fyrir því að barnið sé klætt í hvítan skírnarkjól sem er tákn fyrirgefningar syndanna. Kjóllinn er síður sem táknar að barnið eigi að vaxa í trú, von og kærleika.

Foreldrar velja barninu skírnarvotta. Þau heita guðfeðgin og eru aldrei færri en tvö, karl og kona (eins og felst í orðinu) og aldrei fleiri en fimm. Foreldrar og guðfeðgin játa trúna fyrir hönd barnsins og skuldbinda sig til að ala það upp í kristinni trú. Ef þess er kostur ættu báðir foreldrar og guðfeðginin að fylgja barninu að skírnarfontinum. Við skírnarathöfnina fara þau með trúarjátningu og Faðir vorið ásamt prestinum. Þau mega leggja hönd á höfuð barnsins þegar beðið er Faðir vor. Í mörgum kirkjum tíðkast að afhenda sérstök skírnarkerti. Eftir skírnina er ljós tendrað á kertinu og það afhent foreldrum til varðveislu. Foreldrar geta notað kertið til að minnast skírnardagsins í framtíðinni og þegar þau biðja fyrir barninu eða með því.

Upplýsingar frá Grafarvogskirkju:
grafarvogskirkja.is

Það er rétt að geta þess að þegar börn eru skírð þá er ekki verið að gefa nafn. Skírn er trúarleg athöfn þar sem einstaklingur er tekinn inn í samfélag kirkjunnar og samfélag trúaðra, þetta kemur í raun nafni eða nafngift ekkert við nema að barnið verður að heita eitthvað til þess að hægt sé að færa nafn þess inn í kirkjubækur. Hins vegar halda flestir að skírn sé það sama að gefa nafn, en það er ekki rétt. Þess vegna eru dýr, götur, skip, flugvélar o.s.fr. ekki skírð heldur er þeim gefið nafn. Í frumkristninni varð það venja að fólk sem tók skírn það tók einnig upp nýtt nafn í stað þess gamla. Og var það við skírnarathöfnina sem nýja nafnið heyrðist fyrst sem var vissulega táknrænt þar sem fókið var dýft svokölluðum niðurdýfingarskírnum þar sem skírnarþeginn fór alveg á kaf í vatnið og vatnið lokaðist fyrir ofan hann. Svo steig hann að nýju upp úr vatninu og þá var nýja nafnið nefnt og viðkomandi klæddist hvítum kufli. Þannig má segja að skírnarþeginn hafi dáið sínum gamla (og heiðna) manni og fæðst á ný til lífs með Kristi. Svo færðist þetta yfir í kirkjurnar með öldunum og ungbarnaskírnir urðu almennar þar sem nafn barnsins var nefnt í fyrsta sinn (arfleifð gömlu niðurdýfingarskírnanna úr frumkristninni). Þannig er skírn því í huga okkar nátendg skírninni og ekki nema von að margir haldi að skírn sé það að gefa barninu nafn. En skírn er gömul íslensk sögn sem merkir ,,að þvo" (sbr. skíragull) og er skírnin því táknrænn þvottur þar sem barnið er hreint og ómengað af syndum heimsins frammi fyrir Guði.

Gunnar Einar Steingrímsson guðfræðinemi tók saman.

Held að það sé ljóst að okkar börnum verði gefið nafn, ekki skírð.

Góða helgi magri


Varðturninn, súrmatur og Svartur köttur

Í liðinni viku komu tveir Danir og hringdu dyrabjöllunni, uppáklæddir með skjalatösku og Varðturinn í hendinni. Ég var á kafi í verkefni en drattaðist til dyra enda vill maður ekki missa af stóra vinningnum, gæti hafa verið dyrabjölluhappdrætti þar sem aðalvinningurinn væri ferð til Íraks eða á einhvern annan fallegan stað!

Nei, þetta voru trúboðar að reyna að troða (nánast tróðu blaðinu framan í mig)  uppá mig Varðturninum sem er rit Votta Jehóva. Ég nennti ekki að hlusta á ræðuna og var samkvæmur sjálfum mér, ekkert xxx trúarraus núna, takk og veriði blessaðir! Ekki veit ég hvort Danirnir skyldu mig en þeir fóru er ég lokaði hurðinni góðfúslega á þá og án þess að taka við blaðinu. Mér finnst að þetta fólk ætti að beita kröftum sínum og velvilja í eitthvað annað en að ganga í hús á Akureyri, mér sýnist trúarárekstrar vera það algengir í Danmörku og þeir gætu reynt að koma vitinu eða vitleysunni að í sínum heimagarði. Trúboð er ekki inn í dag, allavega ekki höfðar það til mín.

Það gengur vel í skólanum, áhugavert efni um skóla og samfélag, tengsl foreldra og kennara og fleira sem stöðugt er í gangi. Við erum að læra hvernig kenna megi bókmenntir og ljóð, til dæmis hvernig vinna megi með smásögur í grunnskóla. Við erum að læra um tónlist, hreyfi- og myndlist og hvernig þessir þættir geta nýst í skólastarfi, við lærum um þroskaferil barns í móðurkviði og fram undir 20 ára aldur og sitthvað fleira vinnum við með. Kennaranám er skemmtilegt, krefjandi og gefandi nám sem tekst á við efni og anda, manneksju og samfélag svona svipað og var í mannfræðinni.

Í gær fórum við hjónin á þorrablót til ömmu Kristbjargar þar sem fjöldi ættingja mættu og snæddu saman þorramat eins og; hákarl, hval, sviðasultu, svínasultu, magál, hangikjöt, hrútspunga og margt fleira gott. Ég borðaði mjög mikið og fannst súr hvalur með rengi mjög góður auk alls annars sem boðið var uppá enda finnst mér þessi matur mjög góður einu sinni á ári. Kristbjörg sat hjá en fékk sér kjúkling heima:)

Í gærkvöldi bauð Flugfélag Íslands okkur og mörgu öðru góðu fólki uppá afmælissýningu Leikfélags Akureyrar, Svartur köttur. Mjög skemmtilegt leikrit sem hélt manni vakandi allan tímann, frekar blóðugt en slapp til, ekki fyrir hjartveika eða viðkvæma. Í hléi var boðið uppá freyðivín og jarðaber auk alls kyns varnings. Ljómandi gott.

Sumarið er komið á Akureyri, 10°C í plús í morgunn. Framundan er lærdómur og viðtal hjá fjármálaráðgjafa sem Glitnir býður uppá, þar er farið yfir fjármálin og bent á vannýttar leiðir og ávinninga. Það verður gaman að sjá hvar hægt er að gera betur til að hámarka kaupmáttinn. 

Magri 


Lífskortið

Samkvæmt lífskorti mínu er dagurinn í dag fyrsti raunverulegi bóndadagurinn, fyrsta skipti sem ég upplifi þennan upphafsdag þorra sem giftur maður.Tilfinningin er góð og mín ástkæra eiginkona færði mér hina gullnu þrennu: bjór, harðfisk og súkkulaði... dásamleg tilfinning að eiga slíkan varning og vita að ég muni sporðrenna honum!

Við ætlum að elda grís í kvöld og jafnvel grípa í spil, ef einhver nennir að spila þá hafið samband.

Skólinn er kominn á fulla keyrslu, spennandi nám framundan og mér líst vel á önnina. Spenna fylgir einnig meðgöngunni sem spannar nú bráðum 17 vikur og stutt í næsta sónartíma, mögulega sjáum við hvort kynið er á ferð og viljum við vita það. Kristbjörg er bara hress og tekur móðurlegum breytingum, ég held að þetta verði ljómandi fínt hlutverk að vera pabbi og kvíði engu í þeim efnum heldur hlakka til að takast á við hugmyndir mínar um uppeldi. Mér finnst gott að hafa markmið og línur þó alltaf muni sveiflast fram og aftur. Þannig er lífskortið, við fáum það í hendur sem óskrifað blað og í það verður krotað af okkur og öðrum sem eru til í umhverfinu. Lífið felst í fæðingu og dauða og því um að gera að hafa gaman ef það er mögulegt, allavega ættum við að leitast við að leika okkur sem mest en hafa gott net undir ef við dettum.

Lífskortið ætti að vera eigulegt fyrir þá sem okkur lifa ekki síður en fyrir okkur sem fyllum það út jafnóðum, ekki einhver ólguský heldur birta og hamingja (peningar, jeppar og flatskjáir eru ekki lykilorð að hamingju). Ég stefni stöðugt á fallegra kort, ég vil ná markmiðum mínum, verða gamall og deyja sáttur við sjálfan mig og aðra. Ef kortið er fullt af skít er ekkert annað að gera en að byrja að moka, moka svo aðeins meira þar til sést í birtu og reyna þá að virkja hana eftir megni, stundum þurfum við hjálp og það á enginn að skammast sín fyrir að sækja hana.

Munið eftir smáfuglunum

Magri 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson
Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson

Dalvíkingur, giftur Kristbjörgu, faðir Ásu Eyfjörð, Ægis Eyfjörð og Kára Eyfjörð.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband