Færsluflokkur: Dægurmál

Gleðilegt nýtt ár 2007

Jólin fóru vel í okkur hér í Magrastræti, matur á Dalvík, Hauganesi og Akureyri, spilakvöld og almenn gleði að venju. Hátíðin fór vel fram og sömu kristnu tuggurnar bornar fram, boðskapur um betri heim og rótin af þeim heimi skal vera umburðarlyndi. Ég hef enn trú á því góða í manneskjunni og vona að árið 2007 verði farsælla umhverfinu og okkur mönnunum.

Árið sem er að líða var ósköp hefðbundið fyrri hluta ársins, ég vann á sjónum og Kristbjörg á skrifstofu Samherja. 30. júní dó Moli, kötturinn okkar sem var okkur mjög kær. Hann lenti fyrir bíl. Lífið heldur áfram og viku seinna eða þann 8. júlí gengum við í hjónaband að heimili okkar að viðstöddum nánustu ættingjum og vinum. Veisla var svo haldin í Frímúrarahúsinu þar sem 120 manneskjur samglöddust okkur í mat, drykk og skemmtun. Dagurinn var frábær í alla staði og við erum þakklát fyrir yndislega fjölskyldu og frábæra vini. Skömmu eftir herlegheitin fórum við til Búlgaríu og lágum þar á sólarströnd í 2 vikur, ljómandi góð ferð.

Ég hætti á sjónum í ágúst og settist á skólabekk eins og sagt er, hóf nám í kennaradeild Háskólans á Akureyri og gengur það ljómandi vel, kostir og gallar eins og í öllu sem birtist okkur. Hermína systir og fjölskylda sem eru búsett í Hamborg og þar áður í Rotterdam eru á heimleið næsta sumar eftir 7 ára dvöl. Skemmtilegt að þau eru að flytja til Akureyrar í Helgamagrastræti, fjölskyldan safnast saman á lítið svæði. Það sem stendur þó uppúr þessu ári er að von er á erfingja í Magrastræti og er barnið skráð í heiminn 4. júlí. Miklar æfingar báru þennan árangur og seint verður efast um að æfingin skapar meistarann! 

Árið mun svo enda með fjölskyldumáltíð hér á bæ, áramótaskaup og flugeldar.

Óska öllum velfarnaðar á nýju ári og vona að fólk líti í eigin barm og reyni að gera heiminn betri með því að hugsa fallega og framkvæma í takt við þarfir. Þið þurfið ekki að kaupa allt sem auglýsingar setja fram. Hamingjan felst í jafnvægi milli þarfa og nautna, dygðin er hvorki of eða van heldur hinn gullni meðalvegur og flestir ættu að geta fetað þann veg ef hver og einn er sanngjarn gagnvart sjálfum sér og öðrum.

Munum að brosa

Gleðilegt nýtt ár

Magri 


Mannaskítur í helvíti!

Kannski er mannfólkið í helvíti, kannski erum við bara óhreinindi eða hreinlega skítaskán í þessum heimi og mun okkur þá væntanlega verða skolað í burtu af stað sem við eigum ekki heima á! Er Jörðin kannski hið eina sanna helvíti þar sem mannfólkið nærist á ójöfnuði ef það nærist á annað borð!

10% jarðarbúa eiga 85% eigna Jarðarinnar sem leiðir þá af sér að 90% mannfólks eða um það bil 5,400,000,000 eiga 15% eigna og auðæfa þessarar kúlu. Þessar tölur enduspegla það sem ég skrifaði í síðasta pistli og segja okkur að siðferðisvandi mannfólks er skortur á réttlæti.

Að börn þurfi að deyja svo tugþúsundum skiptir á hverjum einasta degi sökum hungurs og sjúkdóma á meðan aðrir eru að kafna í efnishyggju, segir mér að eitthvað sé verulega brenglað. Að Bush gat orðið forseti með minnihluta atkvæða segir mér að eitthvað sé rotið, að hæstiréttur lækki dóm undirrétts yfir nauðgara sökum aldurs úr 24 mánuðum í 18 mánuði segir mér að eitthvað sé rotið, að jólin sé mesta efnishyggjuhátið veraldar á meðan við minnumst fæðingu Jesú, sem síðar dó negldur á viðarkrossi fyrir framtíðina, segir mér að eitthvað hafi stórkostlega farið úrskeiðis.

Siðvit okkar mannanna er rotið, um leið og við eignumst eitthvað, finnum meðbyr efnislega séð, er eins og fólk dragi að sér höndum og loki munninum vegna hræðslu við að missa auðinn. Flestir sem lenda í slíku og sofa ekki vært yfir vísitölum og öðru eiga erfitt í sálinni.

Ef Jesús kæmi í dag myndi hann eflaust vilja deila öllum þessum auði og rétta hag þeirra sem minna mega sín. Ég veit að það er ekki hægt að taka af fólki það sem það hefur réttilega unnið sér inn en það er hægt að biðla til fólks um að gefa öðrum möguleika á að bjarga sér sjálfir. Ég vil byggja til dæmis Afríku upp þannig að fólk geti bjargað sér sjálft, að fólk hafi sömu möguleika og aðrir. 

Offita, blóðþrýstingur, kvíði, þunglyndi, krabbamein, streita, vöðvabólga, gigt, blóðtappi og síþreyta. Þessir sjúkdómar eru margir hverjir áunnir, við höfum nefnilega gleymt því að við erum efnisleg dýr með ofvirkan siðspilltan heila! Dýr þurfa að hreyfa sig. Þriðji hver Íslendingur fær krabbamein og margir deyja sökum þess, einn á dag deyr sökum reykinga og stöðugt fleiri drepast vegna áunnar sykursýki og sjúkdómum tengdum spiki. Umhverfisþættir í munaði og matargerð eru stórir orsakavaldar í mörgum þessara sjúkdóma.

Ef það er einhver höfundur af þessum heimi þá skal ég aldrei trúa því að það hafi séð heiminn fyrir sér útlítandi eins og hann er í dag, illa innrættar mannverur sem gætu talist sökum siðspillingar vera mannaskítur í helvíti, ef Guð skapaði þennan heim þá er samkvæmt honum ekkert verra en mannaskítur í helvíti. Úrgangur úrhrakanna!

Því miður held ég að það sé enginn höfundur af þessu lífi okkar, enginn sem getur ýtt við okkur. Við sköpum okkur þetta allt saman sjálf með athöfnum okkar.  Ef það er einhver tilgangur með þessu lífi þá skal ég ekki trúa því að það sé hlutverk tugþúsunda barna að leika hungurvofur með alnæmi!!! Ef Guð sem alltaf er talinn algóður hefur skapað þetta líf þá er hann löngu stokkinn frá sökkvandi skipi. Ef Guð skapaði heiminn skal ég ekki trúa því að hann hafi gert ráð fyrir hlutverki illskunnar og viðbjóðsins.

Ég trúi enn á það góða í manninum, ég þarf mikið að vinna með sjálfan mig til að vera góður og réttsýnn, réttlátur og að vera samkvæmur sjálfum mér. Ég er enginn undantekning frá mörgum sauðum þessarar jarðar en ég vil halda í vonina. Samkennd og réttlæti er það sem Jörðin þarf á að halda rétt eins og við mennirnir sem erum að mínu mati fæddir "algóðir" en menningin og umhverfið er það sem spillir okkur.

Hreinsunareld, við þurfum hreinsunareld. Ég sé Guð fyrir mér með flísatöng plokka allt það illa af Jörðinni, bölsvandinn er sá að þá væri Guð ekki að leggja áherslu á lítil börn sem það illa!

Trúum á hið góða í manninum.

Góða helgi

Magri 


Fullveldisdagur og samfélagið í dag, villigötur.

Í dag er fullveldisdagurinn. Við Íslendingar urðum frjálsir frá Dönum að mestu þennan dag 1918. Fullveldinu var fylgt eftir með sjálfstæði 17. júní 1944. 

Það er mikilvægt að minnast slíkra daga, heiðra minningu þeirra sem börðust fyrir sjálfstæði þjóðarinnar. Stoðir samfélags eins og Íslands eru tungumálið, menningararfur og kraftur fólksins sem landið býr. Það er nauðsynlegt okkur Íslendingum að minnast baráttu liðinna tíma til að átta okkur á að samfélagið sem við lifum í dag varð ekki til af sjálfu sér. Sterk bein og kjark þurfti til að fá fullveldi  og sjálfstæði og þann munað viljum við ekki missa. 

Jólin nálgast, bæklingar tröllríða bréfalúgum þar sem falskri vitund um lífsnauðsynlegt dót og drasl er komið fyrir í meðvitund okkar. Kapítalisminn er gott tæki til að hver og einn fái notið þess að vera einstaklingur með einstaka hæfileika. Þegar öfgar birtast er tækið orðið afleitt. Auglýsingar og áróður sem oftar en ekki höfðar til barna um "nýjasta æðið" er að mínu mati mjög slæm afleiðing annars ágætrar frjálshyggju. Viljum við ala börnin upp í tryllingi um veraldleg gæði eða kenna þeim að rækta sambönd við fjölskyldu og vini, guð sinn eða hvað annað sem fyrirfinnst? Börnin eru oft þau fyrstu sem taka póstinn og þar er að finna 30 blaðsíðna myndabækling frá Dótakassanum og þessum leikfangabúðum, börnin fara mörg hver á algeran yfirsnúning og "verða" að fá þetta og hitt! 2-3 dögum eftir að pakkarnir hafa verið opnaðir og 3 bílar hafa bæst í safnið er þetta bara hluti af menningunni "éta-skíta-búið-næsta" skilur ekkert eftir sig nema spenning og gleði eitt augnablik.

Ég mæli ekki móti framboði og eftirspurn, það er eðlilegt í okkar samfélagi, ég mæli með að samfélagið finni jafnvægi í eftirspurn og framboði. Það er ástæða fyrir öllu þessu bæklingaflóði, við látum auglýsendur troða uppá okkur hlutum til sölu sem við ómeðvitað förum að telja raunverulegar þarfir. Sannleikurinn er sá að ekkert barn og ekkert foreldri hefur raunverulega þörf fyrir alla skapaða hluti, við höfum þörf fyrir kærleik og gleði við að eignast eitthvað sem skilur eftir sig. Barn sem á 10 dúkkur eða 10 dráttarvélar hefur ekkert með eitt stykki til viðbótar að gera.

Óháð efnahag fólks verður barn ríkra foreldra eða foreldra sem kaupa dýra gjöf á yfirdrætti ekki betra barn en barn sem litla gjöf fær. Barn sem alið er upp í tryllingi efnahags þar sem smjör drýpur af hverju strái á mikla möguleika á að verða leiðinlegt og frekt barn en mögulega ríkt barn í framtíðinni. Fátækt barn verður þá líklega fátækt barn áfram en hugsanlega gott barn með hugsjón um bættan heim. Ég veit að þetta er vandmeðfarið og engin ein lausn á hvernig heimurinn geti verið betri, eða hvað?

Á hverri mínútu deyr rúmlega eitt barn af völdum Malaríu. Ég fékk Malaríu þrisvar sinnum er ég bjó í Ghana. Ég gat farið á sjúkrahús og fengið lyf vegna þess að ég átti pening og í kringum mig var fólk sem bjó við aðstæður sem leiddi mig frá dauða. Börn deyja líka úr alnæmi, þau deyja vegna þess að smitaður maður nauðgar móður þess í þeirri villutrú að þannig losni hann sjálfur við vírusinn. Peningar okkar sem við eyðum í óraunverulegar og ímyndaðar þarfir gætu bjargað þessum óupplýstu mönnum frá óábyrgu kynlífi, þannig er mögulegt að þeir sleppi við smit, þá þurfa þeir ekki að nauðga, konan lifir af og barnið fær að vaxa og dafna. Með auknu fjármagni aukast líkur fólks á menntun og uppfræðslu, fræðslu um að yrkja jörðina, fræðslu til að rækta fyrir sig og sýna svo fjölskyldumynstur geti komist aftur á í fátækustu ríkjum heims.

Í dag er dagur Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, UNICEF. Börn eru ekki litlir fullorðnir og þurfa ekki að vera þátttakendur í lífsgæðakapphlaupi okkar, hlífum þeim við þessu siðspillta samfélagi sem við erum látlaust að kynda undir. Það er engum nema sjálfum okkur um að kenna ef börnin okkar verða þau sem missa endanlega tökin á þessari Jörð með umgengni sinni og líferni. Okkur vantar stöðugleika.

 Fólkið sem barðist fyrir fullveldinu hafði hugsjón, ég mæli með að við höfum líka hugsjón og ýtum undir heilbrigða skynsemi nú í aðdraganda jólanna, kauptu aðeins ódýrari gjöf og gefðu deyjandi barni von með fjárframlagi eða skráðu þig sem heimsforeldri á www.unicef.is 

Ég hlusta ekki lengur á raddir sem segja að það þýði ekkert að berjast gegn straumnum, ef enginn stoppar og hugsar þá er vonin horfin. Við þurfum betri heim og best er að byrja á sjálfum sér.

Magri 


Jólakaka

Jólakaka í boði Hjörleifs

1 bolli vatn
1 bolli sykur
4 stór egg
2 bollar þurrkaðir ávextir
1 teskeið bökunarsódi
1 teskeið salt
1 bolli púðursykur
1 bolli sítrónusafi
1 bolli hnetur
1 FULL flaska af Grand

Smakkið Grandið til að vera viss um að það sé ekki skemmt. Takið stóra
skál. Athugið Grandið aftur til að vera alveg viss um að það sé ekki
skemmt. Hellið í einn bolla og drekkið. Endurtakið. Kveikið á hrærivélinni,
hrærið 1 bolla af smjöri í stóra, mjúka skál. Bætið 1 teskeið útí og hrærið
aftur. Athugið hvort Grandið sé nokkuð farið að skemmast, fáið ykkur annan bolla. 

Slökkvið á hrærivélinni. Brjótið tvær skurnir og bætið í skálina og
hendið út í bollanum af þurrkuðu ávöxtunum. Hrærið á kveikivélinni. Ef
þurrkuðu ávextirnir festast við hrærararrarna losið þá af með
rúfskjárni. Bragðið á Grandinu til að athuga magnið. Næst, sigtið 2 bolla
af salti. Eða einhverju, hverjum er ekki sama. Athugið Grandið. Sigtið
sítrónusafann og teygið hneturnar. Bætið einu borði, skeið af sykri eða
eitthvað, bar það sem er þú finnur nálægt. Smyrjið ofninn. Stillið kökuformið á
250°. Gleymið ekki að hræra í stillaranum. Hendið skálinni út um gluggann.
Athugið, Grandið aftur. Farið að sofa.

Magri


Góður sigur

Kristján Þór er sigurvegari prófkjörsins í gær og það eru mikil gleðitíðindi fyrir flokkinn. Með hann í efsta sæti, Arnbjörgu í öðru, Ólöfu í þriðja og Þorvald í fjórða ættum við að eiga möguleika á að ná fjórum mönnum inn í kjördæminu, allavega þremur. Ég er sáttur við þetta prófkjör og gaman að sjá uppskeru mikillar vinnu stuðningsmanna.

Það versta við þessi úrslit er að við missum besta bæjarstjórann á Íslandi og skarð hans verður vandfyllt, það eru spennandi tímar framundan í stjórnmálum hér nyrða og ekki síst spenningur sem magnast er vora tekur.

Annars allt rólegt.

Magri


Prófkjör á morgun

SjálfstæðisflokkurinnSpennan eykst, enda er prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Norðaustur-kjördæmi á morgun. Okkur félögum í flokknum gefst tækifæri til að stilla upp sterkum lista sem mun leiða flokkinn til sigurs í vor. Halldór Blöndal sem leitt hefur listann lengi stígur nú niður af sviðinu og við þurfum öflugan leiðtoga sem þorir að taka ákvarðanir er varða kjördæmið sem heild sem öflugt mótvægi við höfuðborgarsvæðið. Kjördæmið okkar er eina „hreina“ kjördæmið sem ekki liggur að rótum Suðvesturhornsins og þess vegna er kominn tími á að efla fólkið og berja niður minnimáttarkennd sem kann að blunda gagnvart borginni. Í mínum huga kemur bara einn til greina í fyrsta sætið og það er Kristján Þór Júlíusson.

 

Við fórum í slökunarnudd í gær, algjör unaður, heilnudd og pottur á eftir. Endurnýjun er nauðsynleg, aukin orka og flæði, bara eins og í pólitíkinni. Annars er allt í góðum gír, skólinn að enda og prófin framundan, búinn 14. desember og byrja aftur 9. janúar árið 2007. Verkefnavinna að klárast og þá er bara að rifja upp efnið og gera sig kláran í próf.

Í dag ætlum við til Dalvíkur til að skera út í laufabrauð með mömmu og systur auk fylgifiska sem slæðast kunna með. Eftir skurðinn og listflétturnar sem kunna að myndast á kökunum ætlum við að borða hangikjöt með kartöflum og uppstúf, grænum baunum og rauðkáli og auðvitað laufabrauð með....

......ef ég væri á dauðadeild og það ætti að taka mig af lífi myndi ég velja þennan mat sem síðustu máltíðina! En við Íslendingar dæmum ekki til dauða eins og sum ríki gera. Það mætti samt alveg dæma morðingja í meira en 16 ára fangelsi ef það á að loka þá inni á annað borð, ég vildi nú frekar sjá betrunarlausnir. Núna er ég kominn í ruglið og held að ég fari bara í bæinn, kíki á kosningaskrifstofuna og bruna svo til Dalvíkur þegar Kristbjörg hefur lokið störfum.

Góða helgi magri


Guð, Mugabe og íslenskan.

Í gær var dagur íslenskrar tungu. Af því tilefni fór ég á fyrirlestur Finns Friðrikssonar um slangur og slettur í íslensku nútímamáli(talmáli). Rannsókn leiddi í ljós að íslenskan stendur sterkum stoðum þó svo að í daglegum samskiptum séu orð eins og okei, akkurat, dísus kræst, höstla, djamma, fokk, bæ, bisness, sentral, íslenskuð og notuð með góðri og gildri íslensku. Þessi orðnotkun er töluverð en alls ekki eins mikil og margir halda því uppistaðan er íslenska eins og íslenska er sett fram í lögum sem um hana gilda. Ég held að við ættum ekki að einblína á að laga þessa málnotkun með því að kenna börnum að hætta að sletta, heldur ættum við að efla enn frekar íslenskukennslu og þannig mun tungumálið lifa góðu lífi.

Hvað mig varðar þá tek ég eftir málfari þeirra sem ég tala við. Yngra fólkið notar orð eins ó mæ god, dísus kræst, fokk, eldra fólk ákallar þann í neðra og segir andskotans helvítis djöfulsins. Margir upphrópa jesús minn góður, guð minn góður og svo framvegis.

90% þjóðarinnar er kristinnar trúar og ætti ekki að  hrópa upp nafn Guðs eða Jesú hugsunarlaust. Mín kenning er sú að uppistaða Íslendinga eru hræsnarar gagnvart trúnni því samkvæmt öðru boðorðinu: Þú skalt ekki leggja nafn Drottins, Guðs þíns, við hégóma.

Þetta merkir að það að leggja nafn Guðs við hégóma er að misnota nafn hans. Sá maður sem tilbiður Guð með vörunum, en í hjarta sínu álítur það hégómalegt eða þýðingarlaust, er hræsnari. Þegar við notum Guðs nafn hugsunarlaust þá lítilsvirðum við Guð. Margar gáleysislegar upphrópanir eins og þessar: Guð minn góður! Jesús minn! eru alltof algengar og eru alger misnotkun á nafni Guðs. Nafn Guðs er heilagt og því ber að sýna virðingu.

Ég mæli með því að fólk beri virðingu fyrir trú sinni og velti fyrir sér þessum orðum, noti þau við trúariðkun sem í flestum tilfellum yrði þá um jólin og í jarðarför því ekki eru kirkjurnar troðfullar á sunnudögum og tæplega hefur fólk tíma í kapphlaupi samtímans til að sinna Guði fyrr en allt fer í steik!  Ég held að þetta sé góð leið til að útrýma upphrópunum með Guð og Jesú í fararbroddi og fyrir vikið verður íslenskan enn betri.

 

Ég fylgist með fréttum frá Afríku, flestar fréttir sem ég les eru neikvæðar en sú sorglegasta lengi er um Robert Mugabe og hans kúguðu þegna í Simbabve. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin segir lífslíkur kvenna vera um 30 ár!!! Fyrir áratug var talan 65!!! Í landinu er geðveikur maður sem heitir Robert Mugabe, hann rak alla hvíta bændur úr landi, fólkið sem ræktaði landið og bjó til mat handa þorra landsmanna. Þegar bændurnir hrökkluðust í burtu tók enginn við sem gat ræktað eins og þeir gerðu, af þessu leiddi matvælaskortur, efnahagsvandi sem er einn sá allra versti í heiminum í dag en þarna er 2000% verðbólga. Þegar efnahagurinn hrynur og inn kemur faraldur eins og alnæmi þá er voðinn vís, engir peningar til að fræða fólk um varnir gegn alnæmissmiti, ekkert fé til að hjúkra sjúkum, ekkert fé til að mennta börn. Landið er rjúkandi rúst þar sem helsta vinnuaflið, karlmenn frá 25-35 eru horfnir til annarra landa, kannski skiptir það minna máli því atvinnuleysi er 80% og 85% landsmanna búa við fátækt (byggt á grein á mbl.is).

Þarna er maður sem er einræðisherra. Þetta land er ríkt af auðlindum og var í ágætis standi, allir vita að ástæðan fyrir þessu ástandi er stjórn Mugabes, enginn gerir neitt þrátt fyrir að 3500 manneskjur deyji úr hungri, alnæmi, er drepið og ýmsum öðrum ástæðum í hverri viku!! Þetta er eins og ef Hermann Tómasson myndi skrúfa fyrir allt öryggisnetið á Akureyri, loka útgönguleiðum, sprauta í okkur veiru og láta okkur 17.000 íbúa Akureyrar deyja úr hungri og sjúkdómum á 5 vikum! Það er ekki eðlilegt, að ekkert sé að gert. Alþjóðasamfélagið þarf að grípa inní og koma þessum fávita frá völdum með góðu eða illu, kenna fólki að yrkja jörðina og opna markaði Vesturlanda fyrir afurðum Simbabve og annarra Afríkuríkja.

Ég er orðinn þreyttur á hvað heimurinn er viðbjóðslegur.  Ef við gerum ekkert í sameiningu þá kalla ég eftir ísöld sem hreinsar til og núllstillir Jörðina. Ég fór til Ghana og gerði mitt gagn þar sem sjálfboðaliði, mig langar alltaf að gera meira til að efla samfélagið og kannski get ég frætt börn sem kennari um stöðu mála og ræktað einstaklinga sem vilja gera eitthvað fyrir Jörðina áður en allt fer á kaf!

Góða helgi og ekki tapa ykkur í efnishyggjunni fyrir jólin, auglýsingar blekkja og þið þurfið alls ekki á öllu þessu drasli að halda sem þær halda fram. Eyddu frekar í þróunarhjálp, eða bara eyddu tíma í að rækta þig og fjölskyldu þína. Jólin og aðdragandi þeirra er mikill gleðitími en jafnframt er þessi tími sá hættulegasti sálum manna, fólk deyr vegna þess að það treystir sér ekki í kapphlaupið, munið eftir hamingjunni fyrir jólin. Þó ekki sé nema 17. nóvember í dag þá er jólasalan komin á góðan skrið og vertíðin er hafin.

Góða helgi

Magri 


Afmæli og snjór

Kristín systir mín á afmæli í dag. Talaði við hana í hádeginu í 17 mínútur og hún eldist vel í Svarfaðardalnum. Ég á tvær yndislegar systur og mikilvægt að samband okkar sé gott. Það verður frábært í sumar er hin eldri og fjölskylda flytja frá Þýskalandi, flytja á Akureyri í Helgamagrastræti. Afmælisbarnið systir mín yngri getur þá kíkt í heimsókn og slegið tvær flugur í einu höggi.

Til hamingju með daginn.

Þessi dagur er snjódagur, búið að snjóa mikið og gerir enn. Ég mokaði bílinn upp, mokaði tröppurnar en þær voru fullar á ný er ég kom úr skólanum. Fínt að klæða sig vel og taka þessu hvíta efni fagnandi.

Allir hressir. Farinn að læra enda mikið að gera.

Magri 


Brandari

Nonni litli var aðeins farinn að velta fyrir sér lífinu og tilverunni og
einn daginn fór hann til pabba síns og spurði hann: Hvað eru stjórnmál?


Pabbi hans svaraði: Jú sjáðu til, það er kannski best að ég útskýri það á
þennan hátt: Ég vinn fyrir fjölskyldunni og þess vegna skulum við kalla mig
Auðmagnið. Mamma þín stýrir heimilinu og ræður útgjöldunum og þess vegna
skulum við kalla hana Stjórnvöld. Við erum til þess að sinna þörfum þínum
svo við skulum kalla þig Fólkið. Við getum síðan haldið áfram og kallað
barnfóstruna Öreiga. Litla bróður þinn skulum við kalla Framtíðina.


Farðu nú og veltu þessu fyrir þér og athugaðu hvort þetta kemur ekki heim
og saman. Þannig að Nonni litli fór í háttinn og hugsaði stöðugt um það sem
pabbi hans sagði honum.


Um nóttina vaknar hann upp við grátinn í bróður sínum. Þegar hann kemur inn
í herbergi hans finnur hann fljótt að bleian hans er blaut og mikil fýla af
henni. Hann fer inn í svefnherbergi foreldra sinna og finnur mömmu sína
sofandi. þá fer hann að herbergi barnfóstrunnar og finnur að hurðin er
læst. Hann kíkir inn um skráargatið og sér föður sinn í rúminu með
barnfóstrunni.


Að lokum gafst Nonni litli upp og fór aftur í herbergi sitt og sofnaði.


Næsta morgun segir hann við föður sinn. Pabbi, ég held núna að ég skilji
hvað stjórnmál ganga út á. Gott segir faðirinn, segðu okkur frá því. þá
sagði Nonni litli: Jú sjáðu til, á meðan Auðmagnið riðlast á Öreigunum er
Ríkisstjórnin steinsofandi. Fólkið er hundsað og Framtíðin er í djúpum
skít...

Þetta á vitanlega ekki við Ísland í dag. Kjósum Sjálfstæðisflokkinn x-d

Magri


Kristbjörg 27 ára

Í dag á mín kæra eiginkona afmæli. Hún er 27 ára og eldist afar vel miðað við 4 ár með mérCool. Kristbjörg hefur gert mig betri og ég er ánægður að vera giftur góðri konu.

Mikil gleði ríkti við opnun kosningamiðstöðvar bæjarstjórans og meðbyr er í seglin. Við fórum í afmæli til Balla og Aldísar og í mat til ömmu Kristbjargar. Liverpool unnu sigur og þá er allt betra á mánudegi.

Til hamingju með daginn.

Magri 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson
Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson

Dalvíkingur, giftur Kristbjörgu, faðir Ásu Eyfjörð, Ægis Eyfjörð og Kára Eyfjörð.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband