Færsluflokkur: Dægurmál
25.6.2007 | 12:40
18 dagar í erfingja
Grasið vex og ég þarf að slá fjórða slátt, barnið vex og ég ætla að kaupa nýjan barnabílstól sem er sagður öruggari en þeir sem fyrir eru, engin níska við öryggi barns.
Ákvörðun hefur verið tekin um að mála húsið að utan í sumar, ég er svo mikill snillingur svo auðvitað framkvæmi ég verkið persónulega! Þarf að skrapa fyrst enda er slotið farið að flagna. Gluggar þurfa sína hressingu líka og því er betra að hefja bráðum vinnu handa.
Við fórum til Vals og Þorbjargar á laugardagskvöldið þar sem við snæddum grillmat ásamt Steingrími, Sveini Bryn og Þóru og Skafta og Helgu sem er einnig með bólginn maga sökum barns sem er líka skráð í heiminn í júlí. Gaman saman.
Í gær skruppum við til Dalvíkur þar sem við tókum mömmu með í kaffi á Bakka, þar er verið að heyja-slá, snúa og binda. Pabbi er í Hamborg að mála.
Allt eins og það á að vera, sumargleði!
Magri
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.6.2007 | 13:26
23 dagar
Mikið líður mér vel eftir vel heppnaðar sjóferðir, útskrift úr HÍ, heimkomu og garðslátt! Ég er því kominn í frí um óákveðinn tíma eða þar til skólinn byrjar aftur í lok ágúst. Þeir sem vilja drekka kaffi eða bjór með mér og mínu gengi eru velkomin í Helgamagrastræti, alltaf blíða á pallinum!
Í dag eru 23 dagar þar til erfinginn er skráður í heiminn, það gæti þó orðið á morgun eða eftir 5 vikur, sá rammi er nokkuð öruggur. Við erum tilbúin að taka á móti barni og hlökkum mikið til að skipta um gír í lífinu, bæta það góða líf sem við lifum nú.
Það styttist líka í að systir mín og fjölskylda flytjist búferlum frá Þýskalandi og setjist að í götunni. Mamma, Kristín systir, pabbi og Leifur frændi eru búin að vera úti að passa börnin og mála og pakka, aðstoða við flutninga. Það er að ýmsu að hyggja eftir 7 ára búsetu erlendis. Mamma og pabbi bjuggu úti í Namibíu í 8 ár, Hermína og fj. búin að vera 7 ár í Hollandi og Þýskalandi, Kristín systir og fj. búa, hafa búið og munu búa á Bakka í Svarfaðardal.... ég og mín fjölskylda erum að stækka og það er hugur í okkur að prófa (mögulega ef til vill kannski og jafnvel)að búa erlendis, kannski ekki að toppa árafjölda 7-8 en lífið gæti leitt okkur á aðrar slóðir, núna er gott að vera á Akureyri og engin breyting fyrirhuguð á því.
Lífið framundan snýst um að snyrta í kringum húsið og húsið sjálft og að bíða eftir barni, það er ljúft líf.
Málsháttur dagsins: Að unnu verki er hægt að hvílast.
Magri
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.6.2007 | 09:01
Markmiðum náð, blómlegt
Sumarið hefur tekið völdin og fíflarnir á lóðinni bíða þess að verða slegnir, sorglegt að þurfa að róta við þessum fallegu gulu blómum! Annars er það af mér að frétta að ég var á sjó allan maímánuð, fór fyrst á Björgvin svo 4 túra á Björgúlfi þar sem ég tók tvo sem kokkur. Aflabrögð voru góð. Í dag fer ég aftur um borð í Björgvin sem er mjög jákvætt enda líður mér betur þar, betra skip og betri andi. Ég reyni að fara nokkra stutta túra fram í júní en svo er erfinginn væntanlegur þann 13. júlí, 34 vikur eru því liðnar af meðgöngu og allir eru hressir eins og kostur er,
Við fórum út að borða á Friðrik V. á laugardagskvöldið með Kötu og Stjána, ljómandi fínt, hittum svo Frey og Silju á eftir sem er alltaf gott. Sjómannadagurinn hefur lagst í dvala af mannavöldum hér á Akureyri og því voru engin hátíðahöld. Mér finnst að bærinn gæti sett pening í þennan dag og menningarfulltrúi á launum gæti skipulagt dagskránna. Ég held að næsti sjómannadagur verði Akureyringum og sjómönnum þeirra til sóma, botninum er náð og leiðin hlýtur að liggja uppávið!
Stjáni og Kata gerðu góða veislu í gær í tilefni sjómannadagsins og grilluðu nautalund frá Brasilíu, afar ljúffengt kjöt. Auk okkar voru Gunni mágur og Dóra kærastan hans, vinafólk og nágrannar og par frá Alaska sem verið hafa hér á Akureyri í tengslum við háskólann, mjög gefandi andrúmsloft og góð veisla með góðu fólki. Við Kristbjörg fengum okkur svo ís og horfðum á sjónvarpið.
Markmið vetrarins voru að standa vel skil á kennaranáminu og að klára BA-mannfræði, þessi markmið náðust svo sómi er af og einkunnir hafa skilað sér sem allar eru fullnægjandi og ég er glaður og sáttur.
Jón Ingi vinur minn á afmæli í dag, 31 árs, til hamingju með daginn, hann og Hugrún ætla að eignast barn fyrir jólin. Einar Sveinn og Erna í Grindavík eignuðust fyrir viku annan strák og fleiri ætla að fjölga sér í kringum okkur. Ég er staddur á skemmtilegum stað í lífinu, finnst lífið yndislegt.
Svo lengi lærir sem lifir.
Magri
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.5.2007 | 10:40
Þorskur, ýsa, karfi, ufsi, X-D
Sjómennskan hefur tekið völdin, nú sker ég fiska á háls og ríf úr þeim innyflin og enda á að raða þeim í ker og ísa vel á milli og ofaná. Svona er lífið á ísfisktogara. Kom í land á Eskifirði í gær eftir 6 daga túr á Björgvin EA 311, keyrðum norður og á leiðinni má sjá tignarlegt álver við Reyðarfjörð og iðandi mannlíf í nálægum byggðum, það var frábært framtak að reisa þetta álver! X-D
Á föstudaginn fer ég á sjó á Björgúlfi EA 312 þar sem ég var um páskana enda góð mannasamvinna innan Samherja og ég stekk um borð þar sem vantar mann. X-D
Ég er búinn að kjósa utankjörfundar og setti mitt atkvæði merkt D, ég get ekki séð neinar betri lausnir í atvinnumálum, menntamálum, samgöngumálum og velferðarmálum heldur en hjá Sjálfstæðisflokknum. Ég treysti þorra landsmanna til að kjósa X-D sem fyrr og halda áfram og gera betur þar sem þess þarf. X-D
Meðganga gengur samkvæmt áætlun, barnið búið að snúa sér, og nú eru tveir mánuðir í erfingjann:)
Svo klöppum við fyrir Eiríki Hauks í Júró!
Magri X-D
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 10:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.4.2007 | 13:06
Góð kvöldstund í Ketilhúsinu
Í gærkvöldi fórum við hjónin á menningarvöku Sjálfstæðisflokksins í Ketilhúsinu í Listagilinu. Mjög skemmtileg samkoma þar sem snillingurinn og stórtenórinn Óskar Pétursson (giftur inn í mjög góða fjölskyldu:)) var veislustjóri. Hann söng nokkur lög, fór með vísur og sagði sögur. Halldór Blöndal fór með margar skemmtilegar vísur af ferli sínum í stjórnmálum, Dalvíkingurinn og sigurvegari söngkeppni framhaldsskólanna, Eyþór Ingi og unnusta hans Unnur Birna léku nokkur lög á gítar og fiðlu auk þess sem þau sungu bæði. Vægast sagt frábært tónlistarfólk þar á ferð og eiga svo sannarlega framtíðina fyrir sér, fallegar raddir sem eiga bara eftir að verða betri!
Hópur frá Leikfélagi Akureyrar söng nokkur lög og Geir Haarde forsætisráðherra söng tvísöng með Óskari meðan Kristján Þór dansaði við Ingu Jónu konu Geirs. Menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín var einnig á staðnum og fleira gott sjálfstæðisfólk. Sannkölluð halelújasamkoma af bestu gerð enda öflugasti stjórnmálaflokkur landsins fyrr og eflaust síðar þar á ferð.
Sumarið mætti í morgunn af krafti, styttist í lóðahreinsun og tiltekt, gaman að sumarið sé að koma enda mikil eftirvænting að byggjast upp hvað varðar barneign. Meðgangan gengur áfram vel og nú erum við komin á viku 30, Kristbjörg hress og ég líka. Ég skilaði BA ritgerðinni frægu í mannfræðinni nú í vikunni (andlegur sigur) og síðasta verkefni vetrarins er að enda sem er 15 vikna kennsluáætlun fyrir íslensku í 8. bekk. Þar geri ég rammaáætlun og rökstyð kennsluefni, verkefni og kennsluaðferðir, mjög skemmtilegt og raunverulegt verkefni.
Framundan er sálfræðipróf, þroskaferill einstaklings frá getnaði til unglingsára, skemmtilegt efni sem endar með krossaprófi 2. maí og þá lýkur skólavetrinum. Önnur verkefni vetrar hafa verið leyst og stöðug vinna alla önnina er námsmat annarra áfanga. Þetta hefur gengið vel og mér finnst gaman að læra til kennara.
Magri
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.4.2007 | 08:30
Hoba-loftsteinninn
Hoba-loftsteinninn er þyngsti loftsteinn á jörðinni og stærsti náttúrulegi járnklumpur sem fundist hefur. Loftsteinn þessi er nefndur eftir fundarstað sínum, Hoba West bóndabænum, sem er nálægt Grootfontein í Namibíu. Loftsteinninn fannst árið 1920, og hefur ekki verið fluttur frá lendingarstað sínum, en hann skall á jörðina fyrir 80.000 árum síðan.
Steinninn, sem er um 9 rúmmetrar að stærð, er talinn vera að minnsta kosti 200 milljón ára gamall og jafnvel allt að 400 milljón ára. Hann er talinn vega um 50 - 60 tonn. Hann inniheldur 82% járn, um 16% nikkel og nálægt 1% kóbalt. Einnig má finna í honum lítið eitt af krómi, gallíni, germaníni, iridíni, kolefni, kopar, brennisteini og sinki. Loftsteinar, sem innihalda meira en 15% nikkel eru flokkaðir sem ataxít.
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Magri
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 08:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.4.2007 | 12:02
Jónas Hallgrímsson , önnur þraut!
Soffía sérleg áhugamanneskja um einhverfu og Taiwan svaraði spurningu minni og fær netklapp frá mér!
Konráð Gíslason vinur Jónasar Hallgrímssonar lýsti honum eins og X er lýst að neðan árið 1847. Þessi lýsing var ekki svo erfið og hana má finna á síðunni um Jónas hér til hægri.Fyrst ég er byrjaður á þrautum þá langar mig að spyrja um fyrirbæri sem er til á jörðinni, hvað er þetta og hvar er þennan hlut að finna?
X, sem er um 9 rúmmetrar að stærð, er talinn vera að minnsta kosti 200 milljón ára gamall og jafnvel allt að 400 milljón ára. X er talinn vega um 50 60 tonn. X inniheldur 82% járn, um 16% nikkel og nálægt 1% kóbalt. Einnig má finna í X lítið eitt af krómi, gallíni, germaníni, iridíni, kolefni, kopar, brennisteini og sinki. X, sem innihalda meira en 15% nikkel eru flokkaðir sem ataxít.
Það skal tekið fram að ég er ekki jarðeðlisfræðingur og samdi því ekki spurninguna, þennan merkilega hlut er hægt að tengja við mig sem persónu!
MagriDægurmál | Breytt s.d. kl. 12:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.4.2007 | 16:57
Hver er maðurinn?
Lengi hefur mér þótt gaman að spurningaleikjum og skemmtilegast þykir mér þegar valin er manneskja og reynt er að komast að því hver hún er. Við Freyr vinur minn leigðum saman á framhaldsskólaárunum og ósjaldan fórum við í "hver er maðurinn" fyrir svefninn.
Mig langar því að spyrja: Hver er maðurinn? Hvenær er þessi lýsing rituð og af hverjum?
X var gildur meðalmaður á hæð, þrekvaxinn og limaður vel, en heldur feitlaginn á hinum seinni árum sakir vanheilsu, vel rjettur í göngu, herðamikill, baraxlaður, og nokkuð hálsstuttur, höfuðið heldur í stærra lagi, jarpur á hár, mjúkhærður, lítt skeggjaður og dökkbrýnn. Andlitið var þekkilegt, karlmannlegt og auðkennilegt, ennið allmikið, og líkt því, sem fleiri enni eru í hans ætt. Hann var rjettnefjaður og heldur digurnefjaður, granstæðið vítt, eins og opt er á Íslendingum, og vangarnir breiðir, kinnbeinin ekki eins há og tíðast er á Íslandi, munnurinn fallegur, varirnar mátulega þykkvar; hann var stóreygður og móeygður, og verður því ekki lýst, hversu mikið fjör og hýra var í augum hans, þegar hann var í góðu skapi, einkum ef hann ræddi um eitthvað, sem honum þótti unaðsamt um að tala.
Góða Helgi magri!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
19.4.2007 | 13:40
Gleðilegt sumar
Kæru vinir, ég óska ykkur öllum gleðilegs sumars sem væntanlega verður stórkostlegt þar sem frost var á miðnætti. Það er þó fyrst og síðast undir okkur komið hvort það verður gott eða slæmt, gaman eða leiðinlegt því veðrið má ekki stjórna að fullu.
Í gær kvöddum við kennaranemar vetur með grilli hér í Helgamagrastræti, það kom sól og það kom hríð, aftur kom sól og smá hríð. Við vorum hress inni í okkur og sögðum sögur frameftir kvöldi. Gaman saman.
Framundan er lokatörn í verkefnavinnu og sér fyrir endann á þeim markmiðum sem ég lagði upp með, það er gott. Meðgangan gengur vel, við erum á foreldranámskeiði sem Mæðravernd býður til, nokkrir tímar þar sem ýmsir sérfræðingar fjalla um ferlið sem fylgir því að nýr einstaklingur verður til og er þetta frábært framtak í góðu bæjarfélagi.
Magri
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.4.2007 | 12:00
Gleðilega páskaviku
Nú styttist í páskana þar sem trúariðkendur og aðrir gleðjast með vinum og fjölskyldum, fólk ferðast og hefur gaman. Ég óska öllum góðrar heimkomu sem verða á ferðinni um landið, þolinmæði og liðlegheit er lykilatriði í umferðinni, munið líka að brosa.
Við fórum í sextugsafmæli til Steindórs móðurbróðurs Kristbjargar á föstudaginn sem var ljómandi fínt, í gær var svo sumarið opnað með því að Jón Ingi og Hugrún buðu okkur í grill og notalegt spjall og má búast við að þetta sumar verði gleði og gaman saman, sól og +25°C alla daga!
Þrír góðir menn eiga afmæli í dag, Hörður afi minn, Bjarni vinur minn og Jakob Kirk vinur minn, allir eru þeir á besta aldri og hafa þegar fengið kveðju mína.
Ég verð að heiman þessa páska, fer á sjó á miðvikudaginn á aflaskipinu Björgúlfi EA-312 og verðum við í landi að öllum líkindum á þriðjudag. Mér líst vel á að svitna aðeins í lestinni og hitta kunningja um borð. Það þarf að draga björg í bú og þessi tími hentar vel til sjómennsku.
Gleðilega páska
Magri
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)