Færsluflokkur: Dægurmál
13.8.2007 | 21:54
Dalvík sinnum þrír og fleira huggulegt
Já kæru vinir fjölskyldan í magrastræti fór til Dalvíkur á föstudaginn þar sem við röltum um bæinn, fengum kaffi hjá mömmu og pabba, tókum þátt í kærleiksstund og knúsi í Kirkjubrekkunni og enduðum á fjölskyldufiskisúpusamkvæmi þar sem stórfjölskylda móðurleggs var saman komin. Ákaflega gaman að upplifa svo yndælar stundir á uppvaxtarstaðnum. Fólksfjöldi mikill og allir sáttir.
Fiskidagurinn mikli rann upp með stæl og ríflega 30.000 manneskjur dreifðu sér um Dalvíkina og gæddu sér á fiskmeti og lífsins gæðum þar sem gleði og vinátta var í fararbroddi. Við renndum með Ásu í vagninum í gegnum mannmergðina og gæddum okkur á veitingum en mestur tími fór þó í að spjalla við gamla kunningja, ákaflega gaman saman.
Þar sem við vorum í feikna ferðastuði er sunnudagurinn rann upp smelltum við okkur í betri fötin og héldum til Dalvíkur. Að þessu sinni áttum við ljúfa stund við skírn í Dalvíkurkirkju þar sem Þorsteinn fékk nafn og innritaðist í kirkjuna með formlegum hætti, sonur vinafólks okkar, Skafta Þorsteinssonar Skaftasonar og Helgu Hrannar. Á eftir var boðið til dásamlegrar hnallþóruveislu í góðra vina hópi. Ása Eyfjörð svaf í kirkjunni en vaknaði aðeins í veislunni til að drekka, nema hvað!
Við vorum einnig heimsótt í gær og í dag, fólk frá Neskaupsstað og Grindavík mætti í spjall. Hanna Vigdís og Barði komu að austan og Einar Sveinn, Erna Rós, Bragi Snær og Jón Breki búa í Grindavík þar sem aldrei rignir né hreyfir vind... segir Einar. Ljómandi gott fólk allt saman og gott að halda tengslum þó maður hittist ekki hverja helgi eða svo.
Lífið gengur vel og á morgun er Ása Eyfjörð þriggja vikna gömul, það er gott að vera pabbi. Ég get ekki verið sáttari því ég er pabbi, ég er sonur, ég er eiginmaður, ég er bróðir, ég er svili, ég er mágur, ég er frændi og bráðum kennari!!! Stórkostlegt hehe
Skólinn byrjar 27. ágúst, það verður gaman að hitta fólkið á ný og kynnast nýju fólki. Lífið fjallar einfaldlega um fólk, fólk sem fæðist, kynnist, aðskilst, finnur á ný, leitar, tapar, finnur aftur og enn, deyr, endurfæðist. Gunnar Dal segir þetta allt með fáum orðum: Að elska, er að lifa!
Ef allir í heiminum tileinkuðu sér boðorðin tíu (þyrftum þó að taka út fyrstu þrjú boðorðin) væri heimurinn betri, það er mín kristna hugsun og trú. Fyrir fyrstu þrjú væri gott að segja: Engin trú er betri en önnur!
Kannski væri þó betra ef allir hættu að trúa á einhverja guði og vætti sem í orði hjálpa en í verki svíkja okkur stöðugt, og sem flestir átti sig á því að enginn guð eða maður getur hjálpað öllum, en hinsvegar geta flestir, ef ekki allir hjálpað einhverjum á einhvern hátt til að öðlast betra líf!! Er þetta nokkuð flóknara en þetta?
Náungakærleikurinn er lykilatriði í að heimurinn verði betri.
Magri
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
8.8.2007 | 12:28
Allir hressir-fæðingardagur
Já kæru vinir þessa verslunarmannahelgi fórum við varla úr húsi en fengum tengdamömmu í hús og áttum saman notalega helgi. Ég virti frí verslunarmanna og verslaði ekki 6. ágúst enda ekki opið á þeim stöðum sem ég versla, nema í neyð.
Við fórum út að ganga með Ásu Eyfjörð í vagninum á mánudaginn, hún vældi aðeins meðan hún var að venjast en um leið og út var komið sofnaði hún værum blundi, allir sáttir við að fara út. Stúlkan dafnar vel og foreldrum sínum til sóma:)
Ari Þórsson frændi minn átti afmæli í gær, 13 ára strákurinn, góður drengur.
Í dag er 0808 sem þýðir að Freyr vinur minn á afmæli, hann er á sjó á Björgvin og skemmtilegt frá því að segja að einmitt skipstjórinn á Björgvin hann Bóbó á einnig afmæli í dag! Góðir menn þessir tveir. Moli heitinn sem var í kattarhlutverki á Rauðarárstígnum og svo hér í Magrastræti fæddist þennan dag árið 2003, hann dó í fyrra.
Ég fór á sjó í fyrrinótt með pabba, veiddum á færi á Skagagrunni og fengum 1200kg mest þorskur. Skemmtilegt frá því að segja að Björgvin EA 311 var þar að veiðum.
Framundan er Fiskidagurinn mikli á Dalvík og mæli ég með því að fólk kíki þangað, dagskráin byrjar í dag og í gær var fullt af fólki mætt í bæinn.
Magri
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
30.7.2007 | 12:46
Heima er best
Á laugardaginn komu Kristbjörg og Ása heim í Helgamagrastræti og fjölskyldan tekur fyrstu skrefin saman. Núna eru engar ljósmæður til að kalla á svo við verðum að gera okkar besta til að öllum líði vel. Við skiptum húsverkum eins og við höfum alltaf gert enda finnst mér og okkur það vera grundvallaratriði í sambúð, að þurfa ekki að skafa skítinn eftir makann er lykilatriði finnst mér og þá að sjá til þess að ég geri það sem af mér er vænst.
Ása var óvær fyrstu nóttina og við erum að gera okkar besta til að finna leiðir svo henni líði sem best, stellingar til að ropa, bakflæði eða ekki, kúkur og piss og allt þetta sem þarf að virka svo vel til þess að litlu kríli líði vel. Hún sefur ágætlega, drekkur vel en hefur grátið töluvert þess á milli. Við pökkum henni inn og strjúkum henni, notum hugmyndir úr öllum áttum.
Það er mjög jákvætt að eiga prinsessu og drottningu:)
Kristbjörgu líður vel, mjög öflugt í henni móðureðlið og það er kannski þar sem helstu skilin milli karls og konu eru, það er jú móðirin sem gengur með og fæðir barnið. Við karlarnir tökum fullan þátt í ferli barnsins og mér finnst ég hafa mjög sterkar tilfinningar sem faðir, það er bara gott að tveir ólíkir aðilar annist barnið sitt.
Takk fyrir allar þessar fallegu kveðjur á síðunni, fjölskylda og vinir eru dugleg að fylgjast með og aðstoða okkur og við erum þakklát fyrir það. Þetta er bara yndislegt.
Magri
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
26.7.2007 | 21:26
Nokkrar myndir af Ásu Eyfjörð
Dægurmál | Breytt 3.9.2007 kl. 10:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
25.7.2007 | 22:34
Ása Eyfjörð Gunnþórsdóttir
Stúlkan okkar Kristbjargar hefur fengið nafnið Ása Eyfjörð. Hún er nefnd eftir móður minni sem heitir Ásgerður en kölluð Ása, mamma heitir eftir ömmu sinni sem ég kynntist vel sem barn. Eyfjörð er eftir firðinum sem hún fæddist við, Eyjafirði og ég og pabbi heitum einnig Eyfjörð. Okkur finnst þetta fallegt og nett en kröftugt nafn sem hæfir litlu ástinni okkar vel, barninu sem við þráðum.
Ég er afar stoltur af Kristbjörgu minni vegna þess krafts og kjarks sem þurfti til að koma dömunni í heiminn. Ég er orðlaus yfir því hversu stórkostlegar ljósmæðurnar, fæðingarlæknirinn og barnalæknirinn voru (allt konur) algjörlega faglegar en svo blíðar og góðar og tóku allar ákvarðanir fyrir framan okkur og með okkur. Stórkostleg upplifun og ég er þakklátur fyrir að fá að taka þátt í að koma barni í heiminn með Kristbjörgu. Hún er stórkostleg í móðurhlutverkinu þó það sé rétt að byrja, sjálfur er ég ágætur:)
Smellið á myndirnar til að sjá þær stærri
Dægurmál | Breytt 3.9.2007 kl. 11:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
24.7.2007 | 22:23
Stúlka fædd:)
Jæja kæru vinir klukkan 19:43 í kvöld fæddist okkur stúlka, afar fögur og fín:) Hún var 11 merkur og 49 cm, öllum heilsast vel.
Magri orðinn pabbi
18.7.2007 | 10:42
Bíðum eftir barni-húsið að verða fínt:)
Barninu líður greinilega vel í móðurkviði og lætur okkur bíða og bíða, ef það skilar sér ekki fyrir 26. júlí verður framkvæmd fæðing, sett af stað, að kvöldi 26. Ég skil vel að það vilji vera þarna inni aðeins lengur, nægur matur, mikil hlýja og öryggi... nákvæmlega það sem svo marga dreymir um í þessum heimi, margir eru reyndar svo fjarri þessum pólum að þau geta jafnvel ekki dreymt um það sem þau hafa aldrei kynnst og þekkja ekki. Ég ætla að kynna barninu mínu raunverulegar aðstæður stórs hluta mannfólks og reyna að kenna því að bera virðingu fyrir þeim gæðum sem það fæðist í, allt til alls þó það fái ekki gullskeið í munninn.
Veðrið leikur við okkur og ég kvarta ekki yfir sól og 14 gráðu hita þó vindurinn sé ekki eins hlýr og í Ghana, ef ég get verið úti á bol er ég sáttur en mér finnst líka gott að vera úti í peysu ef það er kaldara. Við Íslendingar ættum að vita hvernig veðrið sveiflast og klæðum okkur eftir því. Reyndar þurfum við að kvarta og kveina, kvörtum yfir kuldanum og kvörtum svo ef það er of heitt, við þrífumst á veðrinu og umræðu um það:)
Ég er að verða búinn að mála húsið að utan, á bara eftir að renna aðra umferð á gluggasyllurnar og mála hurðirnar (munum að hurð er fleki til að loka dyrum, við göngum inn um dyrnar og lokum þeim með hurðinni) og þá er húsið orðið fínt. Þegar hús er rúmlega 60 ára gamalt er það búið að ganga í gegnum ýmislegt og ber þess merki að hafa staðið vaktina meðan aðrir sváfu, okkur líður vel hérna.
Næsta skref er að klára húsið síðan þarf að slá garðinn, bera á garðhúsgögnin, laga þakrennuna og handriðið... í millitíðinni kemur barnið, ég held áfram að bíða.
Magri
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
11.7.2007 | 21:28
2 dagar
Á föstudaginn þrettánda er barnið skráð í heiminn, við bíðum róleg. Skafti vinur minn og Helga Hrönn eignuðust strák í fyrradag og fórum við í heimsókn í dag, flottur strákur. Á meðan fæddist barn, kannski erum við næst!
Ég er allavega búinn að smyrja í sprungur á húsinu og næsta verk er að mála gluggaramma og svo er bara að bíða eftir næstu blíðu til að mála húsið, verkefnið er bráðum á enda.
Sumar og sól
Magri
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.7.2007 | 17:53
Vika í erfingjann
Nú er ein vika í föstudaginn þrettánda og þá er barnið skráð í heiminn. Við erum eins tilbúin og hægt er og Kristbjörg vel hress, falleg og frísk. Fullt af barnafötum og hlutum bíða brúks litla búks!
Ég dunda mér þessa dagana við að skrapa húsið að utan því við Helgi magri (hinn eini sanni) í norður endanum ætlum að mála hrímhvítt og breyta úr bláum lit í rauðan á gluggasyllum og gluggarammar skulu vera hvítir. Þar sem við erum snillingar gerum við þetta sjálfir, vanir menn og vönduð vinna! Reyndar hef ég aldrei málað hús að utan á Íslandi en í Ghana máluðum við nokkur saman að utan og innan skrifstofu sjálfboðaliðasamtakanna. Ég er ágætur eins og Áki vélstjóri segir.
Um liðna helgi fórum við til Ólafsfjarðar þar sem var útimarkaður og lifandi tónlist, keyptum muffins og fíflahunang sem er soðið niður úr gula sæta blóminu sem allir vilja losna við af lóðum. Í gær átti Breki frændi minn 11 ára afmæli og við fórum til hans í veislu sem haldin var hjá mömmu og pabba því verið er að byggja við og breyta húsinu þeirra hér í Magrastræti. Á morgun ætlum við að kíkja á ættarmót sem haldið er í Árskógi, grillum og hittum gott fólk.
Bærinn er fullur af fólki, Pollamót yngri og eldri polla og skemmtiferðaskip, gaman þegar mannlífið blómstrar þó svo að þorskkvótinn hafi verið skertur, við lærum að lifa með því eins og öðru!
Góða helgi
Magri
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.6.2007 | 21:39
Sæbjörg og Jóhannes
Í dag og í gær var ég á endurmenntunarnámskeiði um borð í skólaskipinu Sæbjörgu sem er skóli Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Mjög gott að fara yfir eldvarnir, skyndihjálp og aðra þætti sem varða öryggi sjómanna því enginn getur útskrifast úr öryggisfræðslu. Því miður er það svo á þeim skipum sem ég hef verið á að menn gefa sér ekki tíma til að halda æfingar, þjálfa mannskapinn svo ekki þurfi að byrja á því að lesa og rifja upp þegar eitthvað kemur fyrir, til sjós gerast hlutir oft mjög hratt og því þarf að bregðast fljótt við. Æfingar og samvinna er lykill að öryggi sjómanna og annarra manna.
Ég skrapp í golf í dag, skaut 60 golfboltum á æfingasvæði og voru þær fyrstu kúlur sumarsins en vonandi verða þær fleiri. Í fyrra fór ég einu sinni og það var þegar ég var "steggjaður" (finnst þetta ljótt og hallærislegt orð yfir góðan dag með vinum mínum) en það var mjög skemmtilegt. Annað er ekki að frétta nema að Kristbjörg er hætt að vinna samkvæmt læknisráði enda eru nú bara 2 vikur í erfingjann og því er hún heima í rólegheitum að hlusta á ástkæran eiginmann sinn segja brandara. Reyndar sló hann blettinn í gær og skúraði Magrastræti í dag eftir golf, fínn maður sá!
Kristbjörg gaf mér sjónauka í útskriftargjöf og nú get ég horft á húsið hans Jóhannesar Bónusgríss sem er hér yfir í Vaðlaheiði, gluggarnir kostuðu 50 milljónir og eru með dimmer, það rennur líka lækur í gegnum húsið en Jónínu Ben sé ég hvergi??!! Skrítið. Jóhannes má byggja eins mikið og flott fyrir mér, hann byggði veldi sitt upp með dugnaði og nýtur nú ávaxtanna (ég fæ líka stundum ávexti í Bónus). Ætli Jóhannes sé með stærri sjónauka og fylgist með mér þegar ég grilla?
Húsið okkar er orðið barnalegt, áður óþarfir hlutir eru nú tilbúnir til notkunar til að fæða, klæða, þrífa og kúra. Við eigum nokkra daga eftir sem gift og barnlaus. Í fyrra vorum við ógift og með kött, Herra Moli dó 30. júní, við giftum okkur 8. júlí og nú kemur júlí og barn sem við bæði þráðum.
Lífið er gott en ekki sjálfsagt, munum eftir því. Áðan komu ungar stúlkur úr skautafélagi að safna dósum og flöskum fyrir skautaferð til Slóvakíu, þær fengu að tæma tunnuna. Mér finnst mjög gaman ef krakkar og félagasamtök koma í hús að safna umbúðum (frábært ef þau gætu fengið eitthvað fyrir allan pappírinn!!). Njótum lífsins.
Ég ætla að fara enn varlegar í umferðinni, gæta að mér og náunganum. Ert þú til í það?
Magri
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)