Færsluflokkur: Dægurmál
7.10.2007 | 22:32
Ást og vinátta eru fuglar sem ekki er hægt að veiða...né græða!
Þetta er alltaf gott að lesa yfir og enn betra er að fylgja því eftir!
Þetta eru boðorðin tíu unnin fyrir nútíma Homo sapiens!
Fyrst ég er byrjaður á þessum fyrirsögnum er gott að enda á þeirri sem prýðir dagbókina mína þann dag sem Ása Eyfjörð fæddist, þriðjudagur 24. júlí 2007:
Vertu vingjarnlegur við allar skynlausar skepnur, því allar eru þær börn náttúrunnar-móður þinnar.
Magri
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.10.2007 | 11:56
Kallaður Gunni glæpur!
Það er glæpsamlegt að keyra of hratt en eðlilegt að keyra eftir aðstæðum hverju sinni. Ef ég keyri nú samkvæmt aðstæðum og í takt við umferðina án þess að stjórna henni og keyri of hratt, er ég þá glæpamaður? Bíllinn á undan keyrði of hratt, ég keyrði of hratt og bíllinn á eftir mér keyrði of hratt!!
Lögreglustjóraembættið á Snæfellsnesi fékk því allavega fyrir nokkrum yfirvinnutímum fimmtudaginn 27. september 2007 kl. 16:09 er sjálfvirk eftirlitsmyndavél smellti mynd af mér og bílnum mínum á Vesturlandsvegi við Fiskilæk í Hvalfjarðasveit.
En hvað fór Gunnþór hratt? Gunnþór keyrði með fjölskyldu sína í roki og rigningu og keyrði eftir aðstæðum inni í bílaröð, ekki fór hann framúr og ekki stóð hann á bremsunni! Gunni glæpur keyrði eftir aðstæðum og honum er mjög annt um konu sína, barn og sjálfan sig og því keyrir hann lögum samkvæmt og tekur tillit til annarra. Ég strengdi þess heit í einhverju umferðarátaki að keyra eins og maður, ég geri það en mér er refsað.
Hraði ökutækis 98 km/klst þar sem leyfður hámarkshraði er 90 km/klst. Vikmörkin eru 4 km/klst sem dregin eru af, því var mældur og myndaður hraði 102 km/klst. Sektin hefur þegar verið greidd kr 7500.
Ég er mjög hlynntur hærri sektum er varða brot á lögum og lögum samkvæmt keyrði ég of hratt en með hagsmuni allra í brjósti var þetta eðlilegur ferðahraði. Eitt augnablik tók tæknin völdin og mannleg skynsemi fékk ekki að ráða, við erum látlaust að kalla eftir frekari mannlegri skynsemi! Er skynsamlegt að koma fleiri myndavélum fyrir svo þær raki inn peningum fyrir lögguna sem ef til vill horfir á meðan á sjónvarpið og kvartar yfir auraleysi? Eða er betra að löggan sé sýnilegri? Auðvitað er betra að herða enn frekar sýnilega löggæslu þó í einhverjum tilfellum geti myndavélar nýst vel.
Ég ætla að halda áfram að keyra eins og maður, kannski nauðhemla ég næst er ég nálgast þessa myndavél og veld með því hópslysi sem myndi valda miklu fjárhagslegu tjóni og jafnvel örkumli sem er óbætanlegt. Það eru miklu meiri líkur á því að bíllinn sem er fyrir framan mig keyri á löglegum hraða ef hann sér lögreglubíl reglulega milli Reykjavíkur og Akureyrar, ef hann sér lögreglubíl í Varmahlíð hugsar hann um hraðann alla leið til Blönduóss og þarf ekki að draga úr hraða bara vegna þess að hann er að koma þangað á þekkt löggæslusvæði, þau eiga að vera um allt land og við eigum að leitast við að líta á lögregluna sem leiðbeinendur en ekki hermenn sem þrá blóð.
Hættiði að liggja í leyni og taka af mér myndir því þá eru meiri líkur á að ég hagi mér vel alla leið og aftur á leiðinni heim!
Ferðin var mjög góð, vorum í góðu yfirlæti hjá tengdamömmu og hittum nokkra vini en ekki eins marga og við hefðum kosið, versluðum hluti sem við þurftum og höfðum það gott. Ása Eyfjörð var til fyrirmyndar. Læt fylgja mynd af okkur feðginunum þar sem Ása er á leið í vagninn til að sofa úti í fínu flísfötunum frá Frey, Silju og sonum.
Magri
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.9.2007 | 23:20
Ása Eyfjörð 2 mánaða
Tíminn líður og því ættum við að gera nákvæmlega það sem okkur langar til svo fremi það skaði ekki aðra. Við ættum að gera góða og skemmtilega hluti sem gera líf okkar betra, við ættum að stefna að því að afkomendur okkar virði jörðina, að þau lifi í takt við þarfir en ekki í takt við græðgi og djöfulgang eins og mannskepnan gerir nú og lítið ætlar að lagast. Við þurfum bara ákveðið magn til að lifa, til að draga andann og njóta lífsins lystisemda, við höfum svigrúm til að dekra við okkur en við höfum ekki umhverfi til að fyrirlíta, höfum ekki leyfi til að traðka á umhverfinu, mönnum og málefnum.
Græðgisvæðingin, spillingin, trúarheiftin og fyrirlitning annarra menningarheima eru skammarlegir pólar fyrir okkur manninn og á endanum munu þessi svörtu ský draga fram stóra dóma yfir manninum. Við erum sjálfum okkur verst og það er sorglegt að hinn vitiborni maður skuli misnota völd sín á jörðinni til þess eins að éta meira þegar sífellt fleiri fá minna að borða. Dýrin éta en maðurinn borðar, hélt ég, við erum á hraðri niðurleið og getum étið með hinum dýrunum ef þau verða ekki búin að éta okkur þegar við liggjum afvelta með seðla í munnvikunum!
Mér er annt um líf mitt og mér finnst arfleifð okkar skipta máli, ein ung kona sagði í dag að hún óskaði þess að barnið hennar yrði betri manneskja en hún sjálf. Ég óska þess að dóttir mín virði umhverfi sitt og fólkið sem í því býr, að hún upplifi sig sem hluta af flóru jarðar sem þarf að rækta. Ég ætla að vona að þeir fáu smitberar græðgi og yfirgangs verði útdauðir fljótlega eftir minn dag svo dóttir mín geti sagt börnunum sínum að framtíðin sé björt.
Ása Eyfjörð er 2 mánaða í dag og hún fær mig til að endurskipuleggja líf mitt, að meta hlutina út frá öðrum sjónarhornum og það er vel. Það er mikilvægt að ég hafi nóg að bíta og brenna en ég hreinlega þarf ekkert meira en það, 100 milljónir á ári myndu ekki gera mig hamingjusamari en ég er í dag.
Dagurinn í dag gæti verið besti dagur lífs þíns bara ef þú notar hann rétt!
Við þurfum að þjappa okkur saman til að ná árangri, tækifærin verða ekki mörg!
Magri
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
19.9.2007 | 22:09
Reykingar
Að reykja og komast í vímu eða upplifa sælutilfinningu gegnum vafning er eitthvað sem hefur fylgt mannskepnunni frá því að við urðum vitiborin. Merkilegt, því þá ættum við tæplega að teljast vitiborin í dag! Ég skil vel hvað það er gott að fá sér eina sígarettu eða vindil við hátíðartækifæri en ég skil ekki hvað fær fólk til að reykja 20-40 sígarettur á hverjum degi og fá ekkert útúr þeim nema nikótín sem þó leiðir ekki nema sjaldan til alvöru vímu! Víman mun fylgja okkur áfram og kannski mun finnast holl víma sem drepur ekki, lífrænt ræktaður vímuvafningur í apótekum og heilsuhúsum.
Auglýsing: Komdu á baðstofu Betu og púlaðu í ræktinni og fáðu þér eina feita hollustujónu á eftir! Dagsverkin verða lítið mál á eftir!
Við ættum að berjast enn frekar gegn reykingum og þá ekki með reglum og bönnum heldur með því að upplýsa ungt fólk enn frekar um skaðsemi reykinga og hjálpa þeim sem vilja hætta, hinir deyja eins og við hin en kannski bara miklu fyrr.
Sem verðandi kennari langar mig að upplýsa börn um skaðsemi reykinga og annarra lasta, fræðsla er lykilatriði. Við græðum ekkert á því að dæma þá sem reykja heldur ættum við hiklaust að benda fólki á leiðir til þess að hætta. www.reyklaus.is er fín síða sem fólk ætti að kíkja á.
Líkaminn ánetjast nikótíni og öðrum eiturefnum en heilinn er það öflugt líffæri að með einbeittum og skörpum vilja getur hann eytt þeim taugaboðum sem segja líkamann vanta þessi efni. Svipuð aðferð er notuð við að hætta að drekka áfengi þar sem heilinn er forritaður upp á nýtt þar sem Guð er gjarnan hafður í fararbroddi. Guð hefur ekkert með reykingar eða áfengi að gera, hvorki brynnir það fyrirbæri né kveikir í, það er fyrst og síðast þú sem endurskipuleggur heilann með sterkum vilja. Það kemur ekkert í staðinn fyrir sígarettur eða áfengi, það þarf að útiloka þessa hluti.
Flestir vilja hætta að reykja.
Magri
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.9.2007 | 15:19
Akureyrarhlaup, 5 km á 28 mínútum
Landnámsgölturinn setti sér markmið í sumar að rifja upp hollari lífshætti og ákvað að taka þátt í Akureyrarhlaupi þann 15. september. Hann fór af stað ásamt fríðum hópi fólks á öllum aldri, markmið hans var að hlaupa 5000 metra á innan við 30 mínútum. Hlaupið var á götum Akureyrar og veðrið þannig að hreyfingu þurfti nauðsynlega til að halda á sér hita.
Mér leið vel að hlaupa og náði settu marki, hljóp þessa 5 kílómetra á 28 mínútum. Mjög sáttur við eigin frammistöðu og því hef ég sett mér nýtt markmið sem er að hlaupa 10 km á innan við 60 mínútum á næsta ári. Af fenginni reynslu ætla ég að taka eitt skref í einu og endast lengur.
Magri
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
10.9.2007 | 16:48
Flottir tónleikar hjá Kristjáni Jóhannssyni
Í gær fórum við Kristbjörg og Ólöf amma hennar á stórtónleika hér í íþróttahöllinni þar sem stórtenórinn Kristján Jóhannsson kom fram til heiðurs móður sinni níræðri.
Kristján tók með sér ítalskan baritón sem er í læri hjá honum og gríska söngkonu sem hefur sama umboðsmann og Kristján á Ítalíu. Kristján er í fínu formi og mér fannst hann bara flottur. Baritóninn var mjög góður og sú gríska einnig. Mér finnst reyndar alltaf skemmtilegra að hlusta á karlmenn þá baritóna og tenóra syngja óperur og aðra klassík, það þarf verulega mjúka kvenrödd svo ég nenni að hlusta lengi.
En söngur er bara betri þegar gott er undirspilið og Sinfóníuhljómsveit Norðurlands sá um að tónarnir voru ljúfir með söng eða einir og sér undir handleiðslu Guðmundar Óla. Frænka mín, dóttir eldri systur minnar var svo heppin að fá hlutverk á þessum tónleikum þar sem hún lék á víólu sem er fiðla en með aðra uppstillingu strengja en fiðla, held ég muni þetta rétt:) Hún er 15 ára og var að flytja til Akureyrar og það verður gaman að sjá hana spila oftar, eflaust.
Ljómandi fínir tónleikar
Læt fylgja með mynd af Ragnari rjúpu sem ég hitti í fjallgöngunni en hann skiptir reglulega um ham eins og Kristján Jóhannsson gerði á háa-C-inu. Kristján og Ragnar rjúpa eru báðir frá Eyjafirði!
Magri landnámsmaður
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.9.2007 | 21:57
Ystavíkurfjall
Í dag stóð heilbrigðisdeild Háskólans á Akureyri fyrir heilsubótargöngu í tilefni 20 ára afmælis Háskólans á Akureyri og afmæli deildarinnar. Allir nemendur og starfsfólk var velkomið í fjallgöngu á Ystavíkurfjall ca 600 metra hátt fjall sem er norðan við Víkurskarðið.
Ég ákvað að vera með enda að komast í þokkalegt form og hef mjög gaman af slíkum ferðum. Fáir voru mér sammála því ég var EINI nemandinn við Háskólann á Akureyri sem mætti!!! Starfsfólk var öllu duglegra því FJÓRIR kennarar úr heilbrigðisdeild mættu og þar með er hópurinn sem lét sjá sig upptalinn. Einn kennaranemi, tveir aðjúnktar, lektor og prófessor fóru því saman í stórkostlega fjallgöngu.
Við gengum í hlýju veðri í urð og grjóti, lyngi, mold, grasi og öðrum birtingarmyndum náttúrunnar. Við sáum sveppi, ber, rjúpu, kindur og fugla og við sáum Herðubreið bregða fyrir, við sáum líka Eyjafjörðinn í allri sinni dýrð.
Þetta fjall er skemmtilegt vegna þess að það er auðvelt að labba það þvert og endilangt, ekki þarf að fara sömu leið niður og upp. Á hæsta punkti er varða þar sem hægt er að skrifa í gestabók og þar drógum við upp lítinn fána með merki Háskólans.
Frábær ferð. Smellið á myndir til að sjá þær stærri
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.9.2007 | 23:57
You'll Never Walk Alone
When you walk through a storm,
Hold your head up high,
And don't be afraid of the dark.
At the end of a storm,
There's a golden sky,
And the sweet silver song of a lark.
Walk on through the wind,
Walk on through the rain,
Though your dreams be tossed and blown..
Walk on, walk on, with hope in your heart,
And you'll never walk alone....
Walk on, walk on, with hope in your heart,
And you'll never walk alone....
You'll never walk alone.
Það er komið að því. Ég var 15 ára gamall þegar það gerðist síðast, ég verð 33 ára þegar það gerist næst. Síðan 1990 hef ég meðal annars:
..........klárað grunnskóla, framhaldsskóla, háskóla, búið í útlöndum, sungið í kór og lært söng, tekið í vörina, ferðast, hagað mér vel, hagað mér eins og hálfviti, keypt uppstoppaða rollu, unnið sjálfboðastarf, skorið fiska á háls, eldað mat, átt hamstra, átt kanínu, átt kött og misst kött, fundið konuna sem ég elska, gifst henni og eignast dásamlega dóttur, fundið hvað mig langar að gera næstu árin...........Heimild: (Ævisaga smaladrengs frá Eyjafirði, 2007:25-124).
Ef Guð er til þá vil ég koma því á framfæri að ég er orðinn þreyttur á að bíða eftir enska meistaratitlinum. Við fjölskyldan í Helgamagrastræti erum tilbúin!
Magri
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.8.2007 | 22:07
Á hafsbotni
Ég var að horfa á heimildarmynd um túnfiskinn og áttaði mig á því hvað kæmist næst því að stíga fæti á aðra hnetti! Ég hef kafað innan um skeinipappír og túrtappa í fjöru við Húsavík og kafað niður á 18 metra dýpi innan um skipsflök, hákarla, skrautfiska og kóralrif í Karabískahafinu.
Ég hef ekki farið til annarra hnatta en ég hef heldur ekki komist á dýpstu "tinda" hafsins. Væri ekki gaman ef sjórinn gufaði upp og við gætum gengið um hafdjúpin? Kannski myndi ég finna hnífinn sem ég missti í sjóinn sem polli, pabbi gaf mér hann og ég gleymi aldrei hvað mér leið illa. Ég gæti klappað hákörlum og hvölum, farið í kjölfar togara og sveipað mig netatrossum í dunandi dansi við seli og höfrunga! En auðvitað myndi ég svo vakna af værum blundi eða í spennitreyju með ofskynjunarofvirkni. Hafið er stórkostlegt og frekar sorglegt að við skulum líta á það sem ruslakistu.
Annars bara góður, fjölskyldan dafnar vel. Skólinn er að byrja og ég hef opnað bók og sett mig í stellingar. Búinn með 53 einingar eftir einn vetur! Geri aðrir betur! Ég fékk reyndar 23 einingar metnar sökum ástkærs BA prófs og því eru 37 eftir sem ég klára fyrir jólin 2008.
Í dag hljóp ég 5 km á rétt rúmlega 30 mínútum en þá vegalengd ætla ég að hlaupa á undir 30 mínútum í Akureyrarhlaupi þann 15. september. Á næsta ári langar mig að hlaupa 10 km.
Veðrið hefur leikið við okkur og því erum við dugleg að fara út að ganga með Ásu í vagninum, ekkert betra en að sofa úti og láta keyra sig um bæinn.
Magri
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.8.2007 | 16:37
Komin í kjól
Hér í strætinu magra er allt við það sama, lífið gengur sinn vanagang og Ása Eyfjörð braggast vel og dafnar, stillt og prúð, stolt foreldra sinna. Hún fór í matarboð í gær til langömmu sinnar og hún vaknaði að sjálfsögðu þar til að sýna sig og fá sér að drekka.
Kristbjörg er hress og öll að koma til eftir fæðinguna.
Sjálfur er ég að skríða saman en á föstudag og laugardag fór ég með pabba sem aðstoðarmaður á sjóstöng. Pabbi semsagt stýrði bátnum sínum, ég skar beitu og blóðgaði fisk á meðan tveir karlar og kona veiddu fisk í lokamóti Sjóstangaveiðifélags Íslands. Við enduðum í öðru sæti yfir aflahæsta bátinn af 23. Á laugardagskvöldið var svo uppskeruhátið, matur og verðlaunaafhending í Sjallanum þar sem ég snæddi og drakk mikið af bjór og öðru sulli sem gerir mann skrítinn.
Sunnudagurinn var erfiður enda er ég í mjög lítilli drykkjuæfingu sem er bara jákvætt. En í dag fór ég í ræktina eins og ég byrjaði á fyrir skemmstu og grömmin detta af ístrunni. Ég ætla mér niður í 75 kíló og á um 9 kíló eftir.
Hér kemur mynd af prinsessunni af Magrastræti
Magri
Dægurmál | Breytt 3.9.2007 kl. 10:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Af mbl.is
Fólk
- Sjónvarpsverðlaun afhent í fyrsta sinn
- Herra Hnetusmjör fagnar átta árum edrú
- Katrín prinsessa laumaðist á fund í Windsor-kastala
- Endurgerði þekkt kvikmyndaveggspjald buxnalaus
- Liam Payne borinn til grafar
- Elton John mætti allnokkrum kílóum léttari
- Fyrrverandi Playboy-kanína fær ekki aðgang að stefnumótaforriti
- Jarðarför Liams Payne í dag