Færsluflokkur: Dægurmál
7.2.2008 | 22:58
Myndir úr lífi Magra og fjölskyldu
Pabbi minn er góður karl sem hefur leiðbeint mér vel í gegnum lífið, aðstoðað mig á erfiðum augnablikum og staðið við hliðina á mér á gleðistundum. Ég var sennilega oft erfiður við hann og mömmu en þau gáfust ekki upp á mér og gerðu mér kleift að verða að manni. Í dag á ég frábæra konu og frábæra dóttur sem ég vil leiðbeina eins vel og pabbi og mamma hafa leiðbeint mér. Pabbi er 60 ára þann 8. febrúar. Til hamingju pabbi, tengdapabbi og afi. Ása og afi á fyrstu jólunum hennar.
Litla fjölskyldan fer gjarnan í Kjarnaskóg að viðra sig, umhverfið þar og andrúmsloft er hressandi og eflir sál og líkama. Ásu fannst mjög gaman að vera í pokanum og berjast við vindinn, margt að sjá þó hún hafi hallað aftur augum við þessa myndatöku.
Kyrrðin og fegurðin í Kjarnaskógi er hverjum manni holl, kíkið þangað í göngutúr eða til að leika í rólum, gera snjókarl eða hvað annað sem hressir, bætir og kætir!
Ása amma splæsti sundnámskeiði á nöfnu sína og henni finnst vægast sagt frábært að busla í vatninu. Hún hittir önnur kríli og gerir ýmsar æfingar, meðal annars kafar hún og finnst það lítið mál.
Við Kristbjörg skiptumst á að vera með henni en einnig höfum við verið öll saman og það er bara gaman. Vatnið er gott en það þarf að læra að umgangast það eins og annað. Við Íslendingar erum heppnir að hafa allt þetta góða vatn í laugum landsins.
Ása Eyfjörð er mjög skemmtileg og glöð rúmlega 6 mánaða stelpa sem finnst pabbi sinn mjög skemmtilegur, hann gerir mörg furðuleg hljóð og grettur. Alveg rólegur samt á þessari mynd. Þeir sem ekki vita þá er þessi "koppur" Búmbóstóll/sæti fyrir börn sem eru búin að fá nóg af gólfæfingum en eru ekki alveg búin að læra að sitja. Amma Kristín og Joseph gáfu henni þetta góða húsgagn í jólagjöf.
Ása er að hoppa, hoppa hoppa og skoppa tralla lalla lalla lalla lalla la..... syng ég gjarnan meðan ég hossa henni á lærum mér, núna æfir hún hoppin í þessu skemmtilega teygjuhopputæki og finnst það alveg geggjað! Hvað er betra en að hoppa og slefa?
Þegar ég var ungur drengur á Dalvík var snjór frá október og fram í miðjan maí! Heldur hefur dregið úr fannfergi en við hér á Akureyri höfum haft góðan vetur í janúar og febrúar. Helgamagrastræti við janúarlok skömmu áður en skóflan barði hengjuna niður.
Skólinn gengur vel, er byrjaður á lokaritgerð og fer í æfingakennslu í haust og klára fyrir jól. Ég fer reglulega í ræktina og get nú hlaupið 10 km án þess að stoppa á 55 mínútum og hlakka mikið til að hlaupa í góðu formi í sumar. Kristbjörg er mjög dugleg í ræktinni líka og hún fór á matreiðslunámskeið þar sem hollusta er í fyrirrúmi án öfga. Allur matur er góður í hófi en sumt er betra en annað. Við höfum síðan Ása fæddist unnið hægt og bítandi að hollari lífsháttum og það finnst okkur gott. Kristbjörg byrjar að vinna í ágúst svo enn er nægur tími til að njóta orlofs og það er frábært að geta verið heima með barni fyrsta árið.
Við hittum vini okkar reglulega, fórum í bollukaffi til Vals, Þorbjargar og tveggja barna, kvöldmatur og spjall hjá systur minni og fjölskyldu hér í sömu götu, saltkjöt og baunir hjá Guðrúnu ömmu Kristbjargar, hitti Jón Inga yfir einum köldum, Ívar, Sigrún og Ernir frá Ferjubakka í Borgarfirði komu í kvöldmat, Kristbjörg fer á mömmumorgna í kirkjunni, ég hitti krakkana í skólanum, Ása leikur við frænkur sínar og frændur, Leifur frændi kom og skipti um blöndunartæki, hann skipti líka um tímareim í bílnum, mamma átti afmæli 23. janúar og við fórum í kaffi og hittum fullt af ættingjum, Breki frændi kom og horfði með okkur á Liverpoolleik, ég talaði við Steingrím í síma, talaði við Bjarna stórútgerðarmann og fiskverkanda og vin minn, spjallaði við Hölla frænda í Danmörku á msn, gerði verkefni með Lindu, fór í klippingu og talaði um lífið og tilveruna, talaði um kennara, ég mokaði tröppurnar, ég mokaði tröppurnar aftur og aftur, svo mokaði ég bílaplanið, ég klappaði Albert ketti........ lífið er fullt af hversdagslegum uppákomum sem mér finnst gaman af. Njótum lífsins, það þarf ekki að vera flókið!
Magri
Dægurmál | Breytt 9.2.2008 kl. 22:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
21.1.2008 | 16:17
Þetta virkar!
Ég er nýbúinn að læra ýmsar kennsluaðferðir og mér líst eiginlega best á þessa aðferð sem sýnd er á myndinni. Þegar öllu er á botninn hvolft þá eru börn bara ótamin dýr sem þurfa strangan aga! Svipan er frábær til að berja til hlýðni og moka fróðleik í börn eins og sýndur er á töflunni, án mótþróa! Við mennirnir ættum að nota svipuna meira til að gegnumsýra ómótaða einstaklinga, við verðum að koma í veg fyrir að hver og einn geti notið sín því efnishyggjan þarf á kröftum allra að halda. Það þýðir ekkert að fara sínar eigin leiðir heldur á að stefna öllum í átt að eiginhagsmunapoti og vilja til gróðursetningar illkynja samfélagsmeina með brotum á öllum siðaboðorðum úr trúabrögðum, vilji og svipa er allt sem þarf. Svona gerir maður ekki!
Magri
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
9.1.2008 | 11:54
Jörðin okkar
Heimurinn var heilbrigður þegar við stigum fram sem nútímamenn, í dag hefur hann visnað eins og þetta laufblað og það er eingöngu sökum átroðnings, græðgi og siðferðislegrar brenglunar mannsins sem birtist í hatri og baráttu um hugsjón af trúarlegum og pólitískum toga! Við erum með stóran heila og ættum að reyna að virkja og stækka góða svæðið, virkja okkur í að huga að náttúrunni og þar með okkur sjálfum, jörðin er líkami okkar og án hennar verðum við ekki til. Ef allir taka eitt jákvætt skref í átt að hagsæld jarðar þá verðum framtíð barnanna okkar bjartari. Mengaðu minna, nýttu hluti betur og ekki kaupa bara til þess að kaupa. Berðu virðingu fyrir skoðunum annarra og virtu þau lífsgæði sem þú hefur, reyndu að skilja við jörðina eins og þú vilt að börnin þín taki við henni, er það ekki bara sanngjarnt?
Magri
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 11:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.12.2007 | 15:12
Gleðileg jól og farsælt komandi ár
Við hér í Helgamagrastræti 46 óskum öllum gleðilegra jóla, hátíð þar sem fæðingu Jesú er fagnað en Guð sendi hann til mannsins til að gera fólki ljóst að þeir sem trúa á þá feðgana muni öðlast eilíft líf!
Eitthvað hefur boðskapurinn skolast til og menn sveigja og beygja þau boðorð sem lögð voru til grundvallar trúnni. Öfgar mannsins hafa fyrir löngu komið í veg fyrir að eilíft líf muni þrífast hér á jörð en ef marka má miðlana skiptir það ekki öllu máli því allar raunir, sjúkdómar og pestir hverfa við umskiptin til himna og öllum syndum er fyrirgefið! Haldið því endilega áfram að haga ykkur illa, menga meira, kaupa meira, éta meira og traðka á boðorðunum! Vinsamlegast verið samt góð við náttúruna og nágrannann svona rétt á meðan afmælishátíðin stendur yfir.
Árið 2007 var frábært fyrir okkur fjölskylduna því við eignuðumst Ásu Eyfjörð 24. júlí og líf okkar breyttist úr góðu í frábært. Kristbjörg var semsagt ólétt og vann fram á síðasta dag svo að segja, ég kláraði mannfræðiprófið og gerði kennaranáminu góð skil. Húsið var málað að utan, við hittum fjölskyldu og vini reglulega og létum okkur líða vel. Ég náði að hlaupa 10 km á minna en 60 mínútum og fleira og fleira gott og gaman gerðist. Við erum sátt.
Ég óska þess að mannskepnan hætti að berjast út af skoðunum og sameinist í að hreinsa til á jörðinni, búa okkur betri heim og rækta garðinn fyrir börnin okkar. Ég veit að tæknin getur gert ótrúlega hluti eins og mögulega að sporna við loftslagsbreytingum en eins og staðan er núna getum við ekkert gert annað en að haga okkur eins og siðmenntað fólk í náttúru sem er það dýrmætasta sem við eigum. Reynum hvert og eitt að taka lítil skref sem geta gert jörðina betri, það er allt og sumt sem þarf (mikilvægast er þó að koma vitinu fyrir USA). Ríkustu þjóðir heims eru að leggja sig mest fram við að rústa jörðinni og afleiðingarnar bitna helst á þeim sem eru fátækari.
Gleðileg jól og munið að lífið og jörðin eru ekki verk mannanna, við erum hér af því að ennþá er nægur gróður og grænmeti sem við og dýrin sem við étum nærumst á. Guð er fyrir mér sá kraftur sem skapaði umhverfið og þessi kraftur sendi Jesú til að koma vitinu fyrir okkur, við þurfum aðra sendinu við fyrsta tækifæri áður en allt fer endanlega í steik!
Gleðileg jól og verið góð
Magri
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
17.12.2007 | 10:42
Málningarvinna og hangikjöt!
Ekki hljómar þessi blanda vel, málning og hangikjöt, í réttum hlutföllum og í réttri röð er þessi blanda afar góð. Desember hefur verið okkur góður hér í Helgamagrastræti, ég kláraði verkefni og próf í kennaranáminu svo sómi er að og nú er aðeins eitt ár í að ég ljúki náminu og geti látið menntamálin njóta krafta minna um hríð!
Kristín systir málaði heima hjá sér, mamma og pabbi settu upp nýtt baðherbergi, Hermína systir bjó til nýtt hús úr gömlu og þá varð ég að drífa mitt gengi í framkvæmdir! Við máluðum tvö herbergi og gerðum sjónvarpsherbergi úr minnsta herberginu, fluttum svefnherbergið okkar í stærsta herbergið og Ása fylgdi með. Eftir situr herbergið sem við vorum í og nú er það orðið leikherbergi og mun Ása flytja í það á nýju ári undir sumar. Við þetta losnaði svefnsófinn undan þjónustu enda orðinn verulega lúinn eftir 7 ára þjónustu og fer hann í nytjagám ef einhver vill. Ljómandi fínar breytingar og allir sáttir.
Við fórum til Dalvíkur í gær, snæddum lax í hádeginu hjá mömmu og pabba ásamt meirihluta barnabarnanna. Við væntum áframhaldandi gleði er við fórum í þarnæsta hús til kærra vina okkar Freys og Silju, gleðin varð skammvinn þegar Liverpool töpuðu 0-1 fyrir Man. Utd. Við girtum okkur þó í brók (Freyr er Man. Utd maður, Silja styður sinn mann) og fórum saman með börnin norður að kaupfélagi þar sem árleg jólasveinaskemmtun átti sér stað, sveinarnir sungu og gáfu epli, við hittum gott fólk. Ása bara brosti þegar hún sá þessa skeggjuðu karla!
síðast þegar við fórum til Freys og Silju að horfa á leik voru það þessi sömu lið og sömu úrslit, spurning hvort við förum aftur!
Jæja dagurinn var ljómandi góður og endaði með veislu hjá litlu fjölskyldunni því við snæddum hangikjöt, kartöflur, uppstúf, grænar baunir, rauðkál, laufabrauð og drukkum blöndu af malti og appelsíni, stórkostlegur matur ef borðaður sjaldan.
Jólin koma í rólegheitum, ég fer á sjó sem kokkur á Björgúlfi milli jóla og nýárs og þá er bara að fagna lokum frábærs árs, ársins sem Ása Eyfjörð kom í heiminn.
Allir hressir
Magri
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.11.2007 | 09:56
Sjór og saga
Skrapp á sjó á sunnudaginn og kom í gærkvöldi, það vantaði kokk á Björgvin EA 311 og því skellti ég mér með. Ég var nefnilega búinn með verkefnin í skólanum og fer í próf 7. desember. Fínt að fara á sjó, elda mat og lesa sögu á milli verka, gott fiskerí.
Allir hressir hérna, Kristbjörg og Ása dafna vel, prinsessan orðin 4 mánaða og er í uppáhaldi að sjálfsögðu, dugleg að drekka og sofa.
Framundan er lestur um íslenskt samfélag á liðnum öldum, skemmtileg lesning en mikil svo það er betra að hefja yfirferð að alvöru.
Munið að vera róleg og góð og ekki tapa ykkur eða öðrum í jólaundirbúningi, jólin eru jú hátíð ljóss og friðar og því ættuð þið ekki að kafna í efnishyggju og ólátum. Ef þú heldur að því stærri og dýrari gjöfin sé þá sé hamingjan meiri, ertu á villigötum eða hefur alið barnið þitt á ranghugmyndum um mannlegt eðli. Við þráum umhyggju, samveru og ást, á eftir koma gjafir og veraldleg gæði.
Ef þú ert Jesúbarn og fylgir hans boðskap þá ættirðu nú sem aldrei fyrr að stöðva efnishyggjuna og græðgina, gefa gjafir sem styrkja hinn gullna meðalveg og leyfa ljósi að skína, mundu eftir smáfuglunum.
Sagan er okkar, gerum hana fallega.
Magri
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 11:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.11.2007 | 12:05
Kennaraefnishugleiðingar
Hluti af verkefni sem ég var að gera, hentaði vel sem bloggfærsla
Vinna með börn er krefjandi starf og kennarinn ætti stöðugt að skoða sjálfan sig og þær aðferðir sem hann er að vinna með. Að halda utan um vinnuna með skráningum, til dæmis um aðferðir og árangur á tölulegu formi og huglægt mat, er eitthvað sem skólinn ætti að gera meira að svo þróun uppeldis- og kennslumála verði opnari og gegnsærri. Þessar upplýsingar þarf að vinna og tengja út fyrir skólann, kynna foreldrum og stofnunum.
Kennarinn er stöðugt undir eftirliti skóla og heimilis og ekki síst barnanna sjálfra. Hann ætti að nota vinnuna sína til að sýna fram á hvað hann hefur verið að gera, hvað hann hefur lært af henni og hvernig hann hyggst nota hana til að gera enn betur. Skilvirkni milli skóla og heimilis gæti orðið miklu meiri ef skólinn leyfir foreldrum og samfélaginu í meiri mæli að fylgjast með því mikilvæga starfi sem fram fer í skólum og leikskólum, sýna fólki með opinni dagbók hvað verið er að fást við, af hverju þetta en ekki hitt í samhengi við fyrri reynslu.
Samfélagið talar gjarnan illa um kennara því þeir eru alltaf í verkfalli og væla yfir launum, samfélagið veit ekki betur en að vinna kennara sé einföld og auðveld og að allir geti nú kennt þessum börnum. Með því að opna vinnuna meira með skráningum og ígrundun í samráði við heimilin og aðra fagmenn ættu kennarar að öðlast þá virðingu og fagviðurkenningu sem þeir sækjast eftir, börnin græða á því að allir haldi betur utan um þau, kennarar græða á því að samfélagið virði og viti hvað kennsla felur í sér og samfélagið græðir betra samfélag með betur upplýstum börnum sem samfélagsþegnum. Kennarar þurfa að girða sig í brók og sýna fram á að þeirra þekking sé sú fagkunnátta sem hentar til að fræða og miðla efni til barnanna okkar.
Þróunin í kennslu og starfi með börn verður að ná út fyrir skólastofuna svo sem flestir komi að því að mennta börnin betur, gera heimilis- samfélags- og menntaumhverfi þeirra heilbrigðara og þroskaðara svo áfram megi þróa það og bæta. Ég sem verðandi fagmaður verð að fá að sýna öðrum hvað ég er að gera með börnin, hvernig ég leitast við að móta þau eftir námskrá og heilbrigðri skynsemi og ekki síst eftir straumum og stefnum í samfélaginu, ég kem ekki nýrri þekkingu á framfæri með lokuðum foreldrafundi einu sinni á önn nema að litlu leyti. Það mun skipta mig miklu máli að flétta meira saman heimili, skóla og samfélag þar sem börnin eru miðpunkturinn.
Með því að skrá upplýsingar um kennsluna og leyfa börnum að tjá sig víðar en í skólastofunni gæti fólk tekið meiri þátt í starfi þeirra og öfugt, samfélagið fengi innsýn í heim barna og skólans og gæti komist nær því að skilja hvað starf kennarans er mikilvægt.
Ég vil vinna dag frá degi og klára verkefni en ég vil líka nota þau til að tengja við næsta verkefni og daglegt líf og setja þau í samhengi við fyrri námsreynslu og þróa hugmyndir mínar um framtíð kennsluhátta. Uppeldis- og kennslufræðileg skráning skiptir mig máli til að bæta mig sem fagmann og sýna öðrum að starf mitt sé mikilvægt út frá þekkingu minni sem fagmaður til að starfa með börn.
Magri
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.11.2007 | 13:27
Spakmæli
Stundum er gott að látast vera heimskur, en það er alltaf heimskulegt að látast vera vitur.
Sumir eiga í svo miklu stappi með farangurinn á lífsleiðinni að þeir gleyma hvert þeir eru að fara. -N. Söderblom
Sumir skipta um flokk vegna sannfæringar sinnar. Aðrir skipta um sannfæringu vegna flokks síns. -W. Churchill
Sá sem kann að sleikja kann líka að bíta. -Franskur
Sá sem talar illa um aðra þegar þú ert nærri, talar illa um þig þegar þú ert fjarri. -Arabískur
Dæmdu ekki óþekktan mann eða ólesna bók.
Börn fara eftir því sem foreldrarnir gera, ekki því sem þeir segja. -Peter Howard
Lærður veit mikið en reyndur meira.
Magri
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 13:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.11.2007 | 10:48
Drottningarafmæli
Í dag er 6. nóvember sem þýðir að drottningin af Helgamagrastræti er 28 ára í dag, fyrsta afmælið hennar Kristbjargar sem móðir. Eins og drottningu sæmir verður farin skrúðganga í opnum vagni svo þegnarnir geti kastað kveðjum til hennar hátignar,seinni part dags verður lokuð móttaka í höllinni!
Það er gaman að eiga afmæli og við samgleðjumst því eiginkonu og móður, til hamingju með daginn elskan, Gunnþór og Ása Eyfjörð. Kristbjörg er góð kona og hefur tvímælalaust dregið fram góða hluti í mér og vonandi hefur mér á móti tekist hið sama, allavega höfum við saman búið til barn sem gerir okkur betri daga og dregur fram áður óvirkjaða hæfileika. Jafnvægi milli aðila hirðarinnar er lykilatriði í samlífi, að allir fái að njóta sín sem einstaklingar og sem hluti af heild.
Kristbjörg fékk Cintamani gönguskó í afmælisgjöf enda nauðsynlegt að vera vel skóaður við vetraraðstæður með barnavagn.
Hún á afmæli í dag, hún á afmæli í dag
---------------
Ég hljóp 10 km í gær, hafði áður sett mér það markmið að hlaupa þá vegalengd næsta sumar á undir 60 mínútum. Í gær fór ég vegalengdina í fyrsta skipti án þess að stoppa og tíminn: 56 mínútur og 34 sekúndur! Afar sáttur við þessa frammistöðu en líkaminn er ansi slappur í dag en eflaust ánægður að fá loksins að hreyfa sig reglulega. Kílóastaðan er 82-83 kíló og því eru um 4 kg farin síðan ég byrjaði í byrjun ágúst, snemma á þessu ári sá ég 89 kg og það kemur ekki fyrir aftur, ég ætla í 75kg. Þolið hefur aukist gríðarlega og er allur að styrkjast þó ég sé aumur inn á milli.
Lífið er langhlaup og það er betra að springa ekki í upphafi! Ég tók ansi harðan sprett í ólifnaði áður en ég kynntist afmælisbarninu en það þurfti bara góðan tíma til þess að hlaupa af sér hornin. Ég kláraði sprettinn og nú finnst mér ég sannarlega vera á beinu brautinni því það sem drepur mig ekki styrkir mig og ég hef aldrei verið hræddur við svolítinn öldugang í lífinu, nú hinsvegar stjórna ég sjálfur för. Til þess að lífið verði áfram farsælt reyni ég að feta hinn gullna meðalveg og vinna lífsverkefnin af heilum hug.
Í dag ætla ég að læra, búa til kennsluáætlun með greinargerð þar sem efnisvali og kennsluaðferð er gerð grein. Ég ætla að sinna afmælisbarninu og litla barninu sem dafnar vel og gefur frá sér undarleg hljóð. Afmælisbarnið dafnar líka vel.
Allir hressir
Magri
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 11:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.10.2007 | 19:24
Ása Eyfjörð 3 mánaða
Fyrir 3 mánuðum var biðin á enda, samdrættir, sársauki, hamingja og gleði fá lýst 24. júlí er Ása Eyfjörð skutlaði sér í heiminn með dyggri aðstoð móður sinnar, föður og ljósmæðra. Það kostaði miklar og ánægjulegar æfingar að búa Ásu til og einkennilegt að hugsa til þess að í upphafi forðast maður að eignast það sem maður þráir! Bíður eftir rétta tækifærinu til að eignast barn en þegar það kemur er leiðin ekki alltaf greið. Ég hef mælst til þess við Kristbjörgu að byrja nú þegar æfingar og reyna að skapa Ásu systur eða bróður sem fyrst! Dagana eftir fæðingu tók Kristbjörg afar treglega í þessa hugmynd (skrýtið) en með hverri viku sem líður drögumst við saman!
Við erum heppin og þakklát fyrir að eiga þessa yndislegu stelpu sem brosir til okkar á hverjum morgni eftir langan nætursvefn, það er ekki hægt að biðja um meira. Hún brosir og hlær, frussar og grípur í hluti. Það er gaman og gefandi að fást við mótun afkvæmis.
Við erum hress, nóg að gera í skólanum hjá mér og Kristbjörg sinnir móðurhlutverkinu af kostgæfni og næmni, hún er mjög góð mamma. Við hreyfum okkur reglulega, reykjum ekki, drekkum í miklu hófi og höfum 33% grænt á matardisknum.... hvað getur maður gert meira? Ég bara spyr? Þetta hlýtur að duga til vistar í Paradís! Fjölskyldan er glöð og ánægð.
Við fengum rafvirkja til að skipta um tengla, ljósrofa og ýmislegt í rafmagnstöflunni og nú er allt rafmagn á hreinu, næsta skref er að mála vistarverur og hefst sú vinna von bráðar. Ása þarf ekki eigið herbergi fyrr en kannski næsta sumar svo við getum dundað við þetta þegar tími gefst.
Ég borða harðfisk reglulega sem ég kaupi í Bónus. 18. október keypti ég harðfisk sem merktur er pökkunardegi og síðasta söludegi sem var 31. október 2008. Pökkunardagurinn var hinsvegar 31. október 2007 sem er eftir viku. Ég velti fyrir mér að helvítis mjaldarnir væru að svindla á mér og græða enn frekar með dagsetningasvindli sem hinn almenni neytandi tekur ekki eftir.
Í stað þess að hugsa meira neikvætt og stökkva til og hringja í Neytendasamtökin(sem ég hugsaði fyrst) þá hringdi ég í framleiðandann. Hann kom að fjöllum en sagði mér að límmiðavélin hafi verið biluð og sennilega kæmi þetta til af því. Hann sagði mér að fyrra bragði að ekki væri verið að svindla enda er þetta vara sem geymist í eitt ár og ekki þörf á slíku. Hann hringdi svo í mig aftur og þakkaði kærlega fyrir að láta sig vita svo hann gæti látið aðra vita af hugsanlegum svona mistökum, vélin prentar sjálfgefnar dagsetningar svo þetta voru "tæknileg mistök" eins og hjá Johnsen. Framleiðandinn sendi mér harðfisk með póstinum og allir eru sáttir. Látum vita ef við erum ósátt með vörur og blótum ekki í hljóði, það er auðveldara fyrir alla!
Enda á kínversku máltæki:
Ég heyri og gleymi. Ég sé og man. Ég geri og ég skil.
Magri