Færsluflokkur: Dægurmál

Lífið er gott í Magrastræti

Lífið er ágætt sem fyrr en reyndar sagði ég við Kristbjörgu í morgunn að mér hafi aldrei liðið betur, allavega finnst mér ánægjulegt að vera manneskja á góðum stað með góðu fólki í annars nokkuð nöturlegum hnetti í þessum alheimi.  Ása Eyfjörð varð 1 árs 24. júlí og hún braggast vel, var á tímabili erfið til matar en það virðist allt á réttri leið og í gær hefur hún aldrei verið þyngri sem er vel. Hún er með exem/ofnæmi sem blossaði upp í sumar þannig að við vorum með hana í nokkur skipti í fjólubláu baði á barnadeildinni hér á Sjúkrahúsi Akureyrar, það náðist vel niður. Margar nálastungur vegna ofnæmisprófa voru ekki vinsælar en dásamlegt starfsfólk fór vel með slíkar píningar og ég er þakklátur því góða kerfi sem við búum við hér á Íslandi, frábært starfsfólk, frábær tækni, frábær aðstaða. Ása spjallar mikið, gengur með og gerir alla þessa hluti sem fylgja þroska mannveru. Ása er afar ákveðin lítil dama sem við köllum bara frekja á góðri íslensku:) Hún er á dagheimili sem nunnur starfrækja og þar finnst henni gaman og gott að vera og okkur finnst hún vera í frábærum höndum; fjórar nunnur með 10 börn í góðu rými innan húss sem utan.

Kristbjörg byrjaði að vinna í ágúst á skrifstofu Samherja eftir gott barneignarfrí en í þetta skiptið stoppar hún stutt því litla barnið í leginu er komið á 23 vaxtarviku og er væntanlegt í heiminn 8. janúar 2009. Það verður gaman að takast á við tvö lítil börn en með góðri mömmu og konu sem Kristbjörg er þá kvíði ég ekki fyrir slíku. Lífið með Ásu hefur verið stórkostlegt og það verður gaman að sjá hana fá hlutverk "stóru systur" þó við munum ekki gleyma því að hún verður áfram litla barnið líka enda verður hún rétt að verða 18 mánaða þegar næsta barn kemur en við vitum ekki hvort kynið er þar á ferð og vissum það ekki heldur með Ásu. Kristbjörg er hress.

Ég byrjaði lokasprettinn í kennaranáminu í lok ágúst í Lundarskóla þar sem ég er í vettvangsnámi og æfingakennslu sem endar um miðjan nóvember og þá verð ég formlega titlaður grunnskólakennari. Við erum tvö saman að nema hér, Líney frá Þórshöfn er með mér en hún var í fjarnámi og við hittumst hér í fyrsta skipti. Samvinna okkar hefur gengið mjög vel enda er Líney afar vönduð kona með góða reynslu úr skólakerfinu. Leiðsagnarkennarinn okkar er heldur ekki af verra taginu því það er bekkjarsystir mín úr grunnskóla sem ég var með í bekk í 10 ár og hún er Helga Rún Traustadóttir, virkilega fagleg og góð manneskja sem hefur myndað sterkan faglegan ramma með okkur um skólastarfið. Andinn í Lundarskóla er frábær og þó skólinn hafi fyrir löngu síðan sprengt húsnæðið þá er unnið af miklum krafti þar sem sáttir sitja þröngt. Það getur vel farið svo að ég fari að vinna hér að loknu námi. Mér finnst ánægjulegt að vera kominn á stjá í skólakerfinu og hlakka til að takast á við fjölbreytt verkefni.

Lífið heldur áfram, við hittum fjölskyldu og vini reglulega og höfum ekki yfir neinu að kvarta þó kreppan andskotist. Við gerum okkar besta.

Daði frændi minn Þórsson á Bakka á afmæli í dag, hann er 7 ára gamall og fær afmælisknús.

Munið að brosa og láta ekki peninga stjórna lífi ykkar, við eigum að stjórna þeim til þess að skipuleggja og forgangsraða hlutum svo sem flestum líði vel. Hefði ekki verið nær að setja 300 milljarða í að kenna fátækum að yrkja jörðina sér til lífsviðurværis í stað þess að líkja eftir "big bang" og sjá hvað gerist við upphaf alheimsins eða hvað þessi tilraun þarna í Austurríki á að sýna! Hefði ekki verið betra að eyða 150 milljónum í að styrkja langveik börn heldur en að taka þátt í Norðurvíkingi, heræfingum. Ísland ætti að vera hlutlaust land hvað hernað varðar.

Jæja þetta var útúrdúr. Ég er ennþá að hlaupa og ekki á leiðinni að hætta því. Á mánudaginn hljóp ég 7km á 34 mínútum, á þriðjudaginn hljóp ég líka 7km, frí á miðvikudag en í gær hljóp ég 10km og í dag þarf ég að hlaupa 5-7 og á morgun verður létt æfing. Ég ætla að taka þátt í 6 vetrarhlaupum UFA í vetur þar sem farnir eru 10km. Markmið mitt er að hlaupa 10km á 45 mínútum í einhverju þessara hlaupa. Í febrúar/mars byrja ég að undirbúa mig fyrir næsta markmið sem er hálfmaraþon 21km sem ég stefni að að hlaupa í Akureyrarhlaupi í júní og svo aftur í Reykjavíkurmaraþoni í ágúst. Markmið eru góð og gaman að ná þeim. Vigtin hefur reynst mér góð og ég stend í 73-74 kg en hef sett stefnuna á 70kg sem myndi gera mér enn frekar kleift að hlaupa hálfmaraþon. 

100_4037

Ása Eyfjörð nýorðin 1 árs, algjör prakkari, algjör gleðigjafi.

Góða helgi

Magri

 


Af genginu í Magra 46, syðri endanum...

100_3366.jpg

Ása Eyfjörð er á þessari mynd komin í vorgír með sín fyrstu sólgleraugu og þótti það verulega fínt og flott enda sætasta stelpan.

Lífið heldur áfram hjá okkur hér í Helgamagrastræti og þó það sé "kreppa" þá höldum við áfram að brosa og lifa skemmtilegu lífi sem er ekki verðbólguhvetjandi! Við lifðum laus við kaupæði þegar "góðærið" var og hét og því líður okkur ekkert svo hræðilega þó kreppan andskotist um mela og móa; keyrum bara enn minna, nýtum fötin betur, nýtum matinn betur og höfum meira gaman saman á lífrænan hátt! Ég kláraði prófin með stæl og nú eru einungis 15 einingar eftir í B. ED prófið en þær tek ég í æfingakennslu í Lundarskóla frá 17. ágúst til byrjun desember og þá er bara að hella sér í kennslu. Ég fór á frystitogara í 3 vikur í maí, stoppaði í 3 daga og fór aftur í 2 vikur í júní, stoppaði þá 3 daga og fór á sjó í 5 daga. Næsta törn er lokahnykkurinn á sjóferlinum er ég fer á Björgvin EA næstu daga eða eftir 2 vikur og verð þar til um miðjan ágúst.

100_3456.jpg

 Ása er orðin mjög sjálfstæð ung dama og vill að sjálfsögðu gera hlutina sem mest sjálf. Hún er byrjuð að borða allflestan mat og er mjög dugleg. Pera er mjög góð og auðvelt að brytja hana niður með öllum þeim tönnum sem hún er komin með, tvær talsins!!

100_3492.jpg

 24. maí varð Ása Eyfjörð 10 mánaða gömul og hún gleður okkur á hverjum degi.

100_3538.jpg

 Að fara út að hjóla finnst okkur frábært. Ása réði sér vart fyrir kæti þegar við fórum fyrst að hjóla, hló og skríkti en dottaði svo þegar á leið!

100_3540.jpg

 Kristbjörg er enn í orlofi og sá tími sem hún hefur verið heima hefur verið mjög góður. Kristbjörg er frábær mamma og nýtur þess að ala upp barn. Kristbjörg byrjar að vinna í byrjun ágúst eftir ár sem er búið að vera notalegt. Ása byrjar á sama tíma í dagvistun hjá nunnunum í Brálundi.

100_3552.jpg

 Á 17. júní voru mæðgurnar hjá mömmu/ömmu sinni í Reykjavík og höfðu það mjög gott. Ég var svo "heppinn" að skipið bilaði og við komum í land syðra um hádegi þennan dag svo við fórum í bæinn og kíktum á stemminguna sem var góð.

100_3570_586666.jpg

 Já tíminn líður sannarlega. Ása Eyfjörð er orðin 11 mánaða gömul og því stutt í fyrsta afmælisdaginn. Það er sem það hafi gerst í gær er við fengum hana í hendur, núna er hún farin að gera alla þá hluti sem foreldrar eru svo stoltir af og við erum sannarlega glöð og ánægð að eiga þessa stelpu sem hefur gert okkur að betri manneskjum.

100_3565_586669.jpg

Maður þarf víst að bursta tennurnar þó þær sé bara tvær! Lífið er gott. Við gerum okkar besta hvern dag, við höfum gott skjól, næga fæðu, frábæra fjölskyldu og við höfum hvert annað, meira ætlast ég ekki til. Það eru allir hressir, líf okkar saman hefur verið frábært og í góðum hópi er alltaf pláss fyrir fleiri. Það er nóg pláss í Helgamagrastræti, bíllinn er rúmgóður og við erum orðin verulega spennt að vita hvort nýjasti meðlimur Helgamagragengisins sé strákur eða stelpa? Það kemur í ljós eftir 6 mánuði!!!

Lifið heil

Magri


STAÐREYNDIR UM KENNARASTARFIÐ

Kennarar í fullu starfi vinna 1.800 klst. á ári eins og aðrir launþegar.

Kennarar fá ekki meira frí en aðrir.

Á tímabilinu frá ágústlokum fram í byrjun júní vinna kennarar 42,86

stundir á viku, eða tæpum 3 stundum meira en gengur og gerist miðað

við fullt starf. Þessar 3 stundir á viku á starfstíma skólans gera um

13 daga á ári sem færa kennurum lengra jóla- og páskaleyfi.

Kennarar fá ekki lengra sumarfrí en aðrir.

Kennurum er ætlað að skila 102–150 klst. á sumri í endurmenntun en eiga

möguleika á að dreifa þeim tímum á vetrarmánuðina og vinna sér þannig

inn fleiri sumarfrísdaga.

Minni kennsluskylda þýðir ekki minna vinnuframlag.

Krafa kennara um minni kennsluskyldu snýst um að kennarar hafi meiri

tíma til að sinna þeim þáttum starfs síns sem snúa að undirbúningi

og úrvinnslu kennslunnar. Kennari með 24 nemendur hefur t.d. eingöngu

um 5 mínútur á dag í undirbúning fyrir hvert barn sem er einfaldlega allt

of lítið.

Vinna kennara utan kennslustunda er vanmetin.

Kennarar hafa einungis 5 klst. á viku (1 klst. að jafnaði á dag) til

að sinna:

· samstarfi fagfólks innan skólans og utan

· foreldrasamstarfi

· skráningum

· umsjón og eftirliti með kennslurými

· nemendasamtölum

Tekið af vef félags grunnskólakennara

Magri


Fólkið í Magrastræti

100_3236

 Föðurhlutverkið er frábært og Ása Eyfjörð gerir daginn betri.

100_3262

 Þær eru mæðgurnar sem hafa gert líf mitt skemmtilegt og gott.

100_3200

 Ása að keyra bíl í sumarbústað.

100_3280

 Stundum er bara svo gaman með mömmu og pabba!

100_3282

24. mars varð Ása Eyfjörð 8 mánaða. Skemmtileg dama. 

Allir hressir í Magrastræti. 

Magri 


Páskar

PaskaungiMín ósk er að íllska heimsins dofni, mennirnir sættist og deili með sér mat og vatni, deili með sér gleði og sorg, styðji hvern annan. Mín ósk er að allir fái tækifæri til að lifa af umhverfi sínu óháð því hvernig þú fæðist í heiminn, hvaðan þú kemur og hvernig þú lítur út. Vert þú þú og leyfðu mér að vera ég, einfalt.

Við mennirnir erum að þroskast og ef til vill mun okkur takast að feta hinn gullna meðalveg milli of og van, þegar við höfum jafnað út græðgina, hungrið, ofbeldið, hræsnina, vonskuna, efnishyggjuna og misréttið þá eigum við von. Áður en þetta tekst þurfum við að vera samkvæm sjálfum okkur og gera það sem við viljum að aðrir menn geri okkur, nálgast skoðanir annarra með virðingu og opnum huga, ígrunda skoðanir okkar og dæma ekki það sem við þekkjum ekki. Leitum leiða til að þekkja það sem við hræðumst. Virðum trúarbrögð hvers annars, virðum trúleysi og virðum náungann.

Gleðilega páska

Magri


Bananalýðveldi?

Er Ísland bananalýðveldi? Hvað er að verða um "efnahagsundrið" sem blossaði upp með stórframkvæmdum, eru engar lausnir þegar veislunni lýkur aðrar en að reisa fleiri álver? Hvar eru sérfræðingarnir sem bjuggu til efnahagsundrið nú þegar allt er á niðurleið? Geta stjórnvöld ekki barið niður verðbólguna? Maður spyr sig.

70% landsmanna eru fylgjandi ríkisstjórninni svo ekki er það lausn að koma Frjálslyndum, Framsókn og Vinstri-Grænum að (enda hafa landsmenn ekki áhuga á því), eða hafa þau lausnir nú þegar kreppir að? Það virðist ekki vera flókið að stjórna þegar allt er fullt af seðlum en nú reynir á stjórnendur. Krónan er í steik, markaðurinn er í steik, verðbólgan er í steik....... veislan er á enda og við þurfum aðra uppskrift til að poppa þetta upp!

Magri sem aldrei fyrr með sultarólina herta 


13. mars árið 1975 kl. 17:55

Fyrir 33 árum fæddist drengur á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri kl. 17:55, hann var 3580 g og 51 cm. Töluvert hefur tognað úr honum á alla kanta og telst hann samkvæmt vegabréfi 172 cm, vigtin telur 77 kg. 

Drengurinn er hamingjusamur í sínu lífi, hraustur á sál og líkama, giftur góðri konu og á 8 mánaða yndislega dóttur. Hann ræktar fjölskyldu- og vinabönd eftir fremsta megni, reynir að láta gott af sér leiða. Lífið er gott og hann er sáttur.

33 ár að baki, ljómandi góður tími.

Magri 


Ghana 51 árs í dag

gh-lgflag

gh-map

Mitt kæra land Ghana á 51 árs sjálfstæðisafmæli í dag. Ég bjó hjá fjölskyldu í hverfi 4 í hafnarborginni Tema og vann þar á bókasafni í barnaskóla sem fjölskyldan á og rekur. Ég fór í júlí 1995 og kom í júní 1996. Frábært ár sem gleymist aldrei og hefur í raun mótað mig á margan hátt. Ég fór aftur til Ghana með fjóra vini mína með mér í ágúst árið 2000, næst ætla ég með fjölskylduna mína á næstu tíu árum.

Mæli með heimsókn til Ghana. Kíkið í heimsókn!

Magri


Eiga börnin okkar ekki betra skilið? Eftir Sigrúnu Gísladóttur

 Eiga börnin okkar ekki betra skilið? Eftir Sigrúnu Gísladóttur

Sveitarfélögin hafa stóraukið fjárframlög sín til skólahalds. Séu þau mál krufin kemur í ljós að þau felast að stærstum hluta í uppbyggingu glæsilegra skólamannvirkja, lengingu daglegs skólatíma og skólaárs, tölvuvæðingunni, innleiðingu skólamáltíða, lengri viðveru barna eftir skóla og fjölgun annars starfsfólks eins og skólaliða. Þetta ber allt að þakka og hefur fært skólahaldið til nútímahorfs. Vandi skólanna, og það á bæði við um leik- og grunnskóla, er hins vegar sá að sveitarfélögin hafa staðið þannig að kjarasamningum þeirra sem í skólunum starfa, bæði kennara og annarra starfsmanna, að skólarnir eru alls ekki samkeppnishæfir við hinn almenna launamarkað. Meðan stefna stjórnvalda, hér er ábyrgðin ekki bara sveitarfélaga heldur ekki síður ríkisins, er sú að halda uppeldis- og menntastéttum sem láglaunastéttum mun ástandið bara versna og versna enn frekar en nú er orðið. Skólarnir munu áfram verða undirmannaðir, þrátt fyrir stóraukinn fjölda erlendra starfsmanna og réttindalausra sem nú þegar starfa í skólunum. Foreldrar bera að vissu leyti líka ábyrgð á hvernig komið er með afskipta- og aðgerðaleysi sínu. Að láta það yfir börn sín ganga að þeim sé meinaður aðgangur að skólunum svo mörgum vikum skiptir, ekki bara einu sinni heldur aftur og aftur, meðan kennarar háðu árangurslitla kjarabaráttu, auðveldaði vissulega stjórnvöldum að viðhalda láglaunastefnunni. Ríkisvaldið getur ekki firrt sig ábyrgð því þessi vandi var óleystur, þegar sveitarfélögin tóku við skólunum. Fjármagnið sem þeim fylgdi dugði engan veginn til að standa undir öllum þeim breytingum á skólahaldi sem ákveðin voru með lögum frá Alþingi. Þegar starfsmannamálin lenda í ógöngum eins og nú er mun lítið fara fyrir framsæknu og metnaðarfullu starfi í stofnununum. Stjórnendur reyna það eitt að halda sjó frá degi til dags. Starfsmenn koma og fara á miðju skólaári og börnin njóta ekki þess stöðugleika og festu sem þeim er nauðsynleg. Litlu börnin á leikskólunum bera þess glöggt vitni, með óróa og vansæld, þegar svona örar mannabreytingar eiga sér stað. Í grunnskólunum fer allt metnaðarfullt skipulag úr skorðum og þeir sem eftir sitja og bera uppi starfið fyllast vonleysi og uppgjöf. Afleiðingin verður óhjákvæmilega sú, ef ekkert verður að gert, að enn fleiri munu hverfa frá skólunum. Kennarar tala um síauknar kröfur, þeir njóti minni virðingar og lægri launa, og taka við auknum fjölda erfiðra nemenda. Íslenskt samfélag breytist afar hratt og um leið uppeldisskilyrði barna og unglinga. Umsjónarkennarar segja að starfið þeirra sé svo breytt að ekki sé hægt að tala um sama starf og fyrir örfáum áratugum.

Lengra kennaranám = finnskur árangur!
Undanfarið hefur mikið verið rætt um lengingu kennaranáms í fimm háskólaár. Vísað hefur verið til góðs árangurs finnskra barna í Pisa-könnunum, en finnskir kennarar hafa meistaragráðu. Þetta hljóti að vera leiðin til að ná betri árangri í íslensku skólastarfi. Meiri menntun kennara er alltaf af því góða en að draga þessa ályktun er ofureinföldun á mun flóknara máli. Finnskt samfélag er á margan hátt mjög ólíkt samfélögum hinna norrænu þjóðanna. Ég hef átt þess kost að heimsækja finnska skóla, ræða við finnskt skólafólk og ekki síst við finnska foreldra, sem einnig hafa búið með börn sín í einhverju hinna Norðurlandanna. Finnskir kennarar njóta mikillar virðingar í samfélaginu. Finnskir foreldrar hafa mikinn metnað fyrir hönd barna sinna. Búa þau vel undir skólagönguna, fylgjast grannt með og axla ábyrgð á hegðun og námsframgangi barnanna. Með öðrum orðum, þeir hafa ekki eins og hinar þjóðirnar „afhent stofnunum börnin sín til uppeldis og menntunar“. Hver vill mennta sig í fimm ár á háskólastigi til starfs þar sem launin duga vart til framfærslu?

Hvernig verður staðan bætt?
Til þess að snúa þessari óheillaþróun við verða allir að taka höndum saman, ríki og sveitarfélög, samtök kennara og foreldrar. Engu foreldri hef ég kynnst sem vill ekki barni sínu það besta. En foreldrar verða að skynja og skilja ábyrgðarhlutverk sitt og forgangsraða í samræmi við það. Kennarasamtökin verða að vera mun sveigjanlegri í allri samningagerð og tilbúnari til nauðsynlegra breytinga, sem miða ekki síst að hækkun grunnlauna, en á þeim byggist nýliðun í stéttinni. Það vekur athygli að menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, bæði skynjar og skilur vanda kennarastéttarinnar í launamálum og afleiðingar þess fyrir samkeppnishæfi þjóðarinnar, og tjáir sig um það opinberlega. Aðrir ráðherrar og alþingismenn verða líka að horfast í augu við vandann og leita lausna til framtíðar. Hér þarf sameiginlegt átaka allra að koma til, stjórnmálamanna í ríkisstjórn og sveitarstjórnum, atvinnulífsins og hins almenna borgara, því að nú má engan tíma missa, ef ekki á illa að fara. Við vitum öll að framtíð samfélagins byggist á uppvaxandi kynslóð. Mistök á þeim vettvangi verða ekki bætt eftir á.

Birt í Morgunblaðinu 22. febrúar 2008

10 km hlaup, 49 mínútur og 32 sekúndur

Á föstudaginn fór ég ásamt um tug kennaranema í kynningarferð á Skagaströnd, kántrýbæinn við Húnaflóa þar sem búa ríflega 500 manneskjur í huggulegu samfélagi. Sveitarfélagið gerði þetta líka í fyrra og einn nemenda kennir þar í dag. Við fórum snemma að morgni og byrjuðum daginn í vöfflukaffi í skólanum þar sem okkur var kynnt starfsemin og starfsfólk en það var starfsdagur og því engin börn á svæðinu. Við fórum á æfingu í flottu nýlegu íþróttahúsi, kíktum á leikskólann, hádegismat í Kántrýbæ, kynntumst starfsemi fiskmarkaðarins, fórum á snyrtistofu, snittur og veigar með sveitarstjórnarfólki, sigling um Húnaflóa, rúntur um bæinn, námsverið, heitur pottur, slökun í sumarbústað og dagurinn endaði í 3 rétta kvöldverði í Kántrýbæ með kennurum og sveitarstjórnarfólki sem bauð uppá skemmtun, gleði og gaman. Frábær dagur og góð markaðssetning á Skagaströnd, margir plúsar við það að fara þangað að kenna og rækta fjölskylduna. Skagaströnd kemur til greina sem næsti áfangastaður.

Laugardagurinn rann upp með afar fallegu veðri, stillt, autt og -2°C. Vetrarhlaup UFA #5 af 6 fór fram á götum bæjarins. Hlaupinn er 10 km hringur frá Bjargi. Ég hef verið að vinna í mínum heilsumálum síðan í ágúst og markmið sumarsins 2008 var að geta hlaupið 10 km á undir 60 mínútum. Kerfið virkar vel, fitan hverfur í rólegheitum, óhollusta í mat og drykk dregst saman og heilbrigðari sál í hraustari líkama er vaxandi. Nú var kominn tími til að vera með í 10 km hlaupi og voru keppendur 16 alls, ég var númer 10 af 16 og kom sjálfum mér skemmtilega á óvart, bætti eiginn tíma um 5 mín og hljóp þessa 10.000 metra á 49, 32 mín. Tímarnir eru hér á eftir.

 Vetrarhlaup nr. 5, 23. febrúar 2008

 

Starri Heiðmarss

1969

41:31

Rannveig Oddsdóttir

1973

42:30

Heimir Guðlaugsson

1967

42:56

Sigríður Einarsdóttir

1966

43:05

Gísli Sverrisson

1961

45:46

Þröstur Már Pálmason

1972

47:09

Björk Sigurðardóttir

1969

47:16

Guðrún Gísladóttir

1972

47:37

Ásta Ásmundsdóttir

1963

49:17

Gunnþór Eyfjörð

1975

49:32

Magnús Sigurgeirsson

1957

49:33

Davíð Hjálmar Haraldsson

1944

49:35

Arnfríður Kjartansdóttir

1960

49:46

Þorlákur Axel Jónsson

1963

55:20

Elín Hjaltadóttir

1947

55:40

Elsa María Davíðsdóttir

1971

1:00:05

 

Við fórum til Dalvíkur um kvöldið og þar hittist öll fjölskyldan í tilefni afmælis pabba, snæddum saman, krakkarnir spiluðu og sungu og fylgst var með Evróvísjón þar sem DalvíkurFrikki sigraði og á hann það skilið með góðri frammistöðu með góðum hópi. Við gistum á Dalvík og fórum til ömmu og afa í morgunsárið áður en við héldum heim í Magrastræti. Sunnudagurinn var fallegur og því fórum við í göngutúr í Kjarnaskógi með Ásu í bakpokanum, verulega frískandi að vera þar. Ása Eyfjörð varð 7 mánaða í gær, dafnar vel, brosir og hlær, algjör gullmoli sem gerir líf okkar betra.

Magri


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson
Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson

Dalvíkingur, giftur Kristbjörgu, faðir Ásu Eyfjörð, Ægis Eyfjörð og Kára Eyfjörð.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband