Færsluflokkur: Dægurmál

Beðið eftir barni á ný:)

Fyrir einu og hálfu ári biðum við hjónin eftir barni sem við höfðum sannarlega þráð að eignast. Ása Eyfjörð lét bíða eftir sér eina ellefu daga, á meðan kláraði ég að mála húsið og þegar því lauk kom þessi yndislega stelpa til okkar. Lífið síðan hefur verið okkur gott.

Við vissum alltaf að við myndum þrá að eignast annað barn en okkur datt ekki í hug að það kæmi svo skömmu síðar (erum að vísu vel upplýst um hvaða afleiðingar kynlíf getur haft:) ). Við erum tilbúin að eiga tvö lítil börn.

Í dag er barnið skráð í heiminn í meðgönguskrám svo við erum tilbúin þegar barnið er tilbúið. Ég hef ekkert verið að mála en sit nú á vinnustofu kennara og nýti kaffistund til að hugsa um næstu skref okkar sem fjölskyldu. 

Það er gott að eiga góða að!

Magri 


Gamlárshlaup; persónulegt met. Gott ár á enda. Lífsreglur.

Í morgunn tók ég þátt í þriðja móti af sex í vetrarhlaupasyrpu UFA sem í dag var kennt við gamlársdag, eðlilega þar sem sá ágæti dagur er í dag! Nú hef ég hlaupið um fimm 10 km hlaup í móti og stefnan í vetur var að komast undir 45 mínútur. Í morgunn var gott hlaupaveður, 70% hálka, logn og -2°C og fullt af rösku fólki á undan mér til að halda mér við efnið. Ég bætti persónulegan árangur um 3 mínútur og hljóp þessa 10 km á 46,36 mínútum og því ætti ég með vorinu að nálgast markmiðið og ná því:)

Árið 2008 hefur reynst okkur fjölskyldunni gott þrátt fyrir þrengingar í efnahagi þjóðarinnar og annarra landa. Kreppan kemur við okkur eins og aðra en það er ekkert annað að gera en að halda áfram á jákvæðan hátt. Við höfum haft góða heilsu, nægan mat, hreint vatn, við eigum Ásu Eyfjörð og við  ætlum að eignast annað barn eftir nokkra daga, hámark 23 daga. Við eigum frábæra fjölskyldu og vini sem við höfum átt notalegar stundir með á árinu. Við höfum hvort annað og fyrir Kristbjörgu er ég þakklátur enda gerir hún mig að betri manneskju. Ég kláraði háskólagráðu númer tvö, fékk vinnu sem mig langaði til að vinna, Kristbjörg hefur frábæran vinnuveitanda og fer nú á ný í fæðingarorlof. Við höfum það sem við þurfum fjárhagslega til þess að lifa innihaldsríku lífi með húsaskjól og fæði og klæði. Við lifðum af góðærið og munum lifa af kreppuna.

Ég hef haldið dagbók á hverjum einasta degi nú í mörg ár og get ekki hætt. Einn daginn þegar ég er dauður munu börnin mín ef til vill hafa gaman af að lesa þar um daglegt líf mitt með þeim og Kristbjörgu. Í dagbókinni er ég með lítinn miða sem færist til með hverjum deginum sem líður þar sem á eru ritaðar lífsreglur.  Þegar Ása fæddist urðu þáttaskil í mínu lífi og ég vildi hámarka tíma minn með konunni minni og börnum. Til þess að minna mig á hvað ég þarf að gera í þessu lífi til þess að lifa því sem best fyrir mig sem manneskju þá setti ég niður eftirfarandi reglur sem mér finnst gott að renna yfir á hverjum degi. Við reynum stöðugt að feta ákveðna slóð, við munum alltaf renna til og detta og það er bara mannlegt. Við stöndum upp og höldum áfram. Þetta hefur virkað vel fyrir mig og ef einhver vill nýta sér þessar reglur að hluta eða heild þá endilega gerið það. 

Lífsreglur Gunnþórs Eyfjörð G.

Mér líður vel þegar ég hreyfi mig

Mér líður mjög vel eftir hreyfingu

Mér líður vel þegar ég drekk áfengi í hófi

Mér líður hryllilega illa á sál og líkama eftir mikla neyslu áfengis

Mér finnst gott að borða mat

Mér líður hryllilega illa þegar ég borða of mikinn mat

Mér finnst nammi gott en sama sagan ef ég borða of mikið

Sál mín og líkami þurfa á meðalhófi að halda svo mér sem manneskju líði vel

Það er undir mér komið og engum öðrum að bera virðingu fyrir sjálfum mér

Mér líður best með fjölskyldunni, hress og kátur á sál og líkama

 

Takk fyrir árið 2008 og megi næsta ár verða okkur öllum gott.

Magri

 

 


Jólakveðja

Jólin 2008

Við óskum þér og öllu fólki gleðilegra jóla

og farsældar um ókomna tíð.

Megi lífið blómstra og feta hinn

gullna meðalveg, hvorki of né van!

Jólakveðja, Gunnþór, Kristbjörg og Ása Eyfjörð

Ása
 

Jólin nálgast

Eftir því sem árunum fjölgar hef ég minni þörf fyrir snjóinn. Kristbjörg minnir mig á hvað snjórinn sé skemmtilegur fyrir börnin og það er alveg rétt. Það er gaman að fara út með Ásu á snjóþotuna. Um síðustu helgi fórum við litla fjölskyldan í göngutúr um hverfið, milli húsa og á staði sem við höfðum ekki farið um áður. Kristbjörg er kasólétt (þunguð og komin langt á leið) og fer ekki langar leiðir fótgangandi. Á þessari stuttu göngu hittum við tvo hunda sem þóttu nærvera okkar góð, nokkra fugla sem fylgdust með í fjarlægð og fjóra ketti sem allir vildu knúsa okkur. Ásu Eyfjörð fannst þetta stórkostlegt svo lengi sem skepnurnar komu ekki of nálægt henni:) Það þarf ekki að leita langt til þess að öðlast djúpa hamingju, foreldrar sem upplifa barnið sitt hamingjusamt ættu sömuleiðis að upplifa hana á eigin skinni.

Í millitíðinni kom hláka og snjórinn fór. Í gær þornaði ég næstum upp á göngu minni úr vinnu á fjölfarinni umferðargötu þar sem svifryk og önnur mengun réðu ríkjum. Í nótt fékk hann hressilega úr honum eins og nágranni minn orðaði það svo skemmtilega og snjórinn lagðist yfir. Svifrykið er bundið, mér líður betur í kverkunum enda mengunin ekki til staðar. Það er fínt að hafa snjóinn í hæfilegu magni!

Jólin nálgast, mörg ljós komin upp og það er bara jákvætt. Mér líður vel innan um ljósin og lít svo á að jólin séu fyrst og síðast kærkomið frí fyrir fjölskylduna til þess að þjappa sér saman og njóta samveru. Trúarlífið er stór hluti þessarar hátíðar en ekki aðalatriði í huga margra Íslendinga. Sanntrúaðir menn eru þeir sem iðka trú sína öllum stundum en líka þeir sem einu sinni á ári gera hlutina upp með guði sínum. Við höfum öll þörf fyrir að trúa, hvert á sinn hátt.

Á okkar heimili er tilstandi (efnishyggju) fyrir jólin stillt í mikið hóf. Við njótum þessa tíma og nú sem aldrei fyrr þar sem ég þarf ekki að brölta til sjós, taka próf né annað sem áður var einkenni komu jólanna. Við búum til jólakort í fyrsta skipti, einföld og falleg kort með kveðju til vina. Við gefum börnum gjafir og gleðjumst með okkar fólki. Bökum einhverjar smákökur og gerum laufabrauð með fjölskyldunni.

Það er stutt í stóra pakkann sem er barnið okkar númar tvö. Ása Eyfjörð sem nú er 16 mánaða er dugleg að bjarga sér, gengur um gólf og spjallar mikið. Hún er nú alveg flutt í sitt eigið herbergi og búin að venjast því að sofa þar. Það verður skemmtilegt fyrir hana að fá leikfélaga, lítinn strák sem kemur til með að rífa og tæta fyrst um sinn eða þar til þau geta leikið saman. Lífið verður enn betra þó verðbólgan hækki.

Kennslan gengur vel. Þessa viku hef ég eingöngu kennt á unglingastigi, náttúrufræði, samfélagsfræði og tölvur. Unglingarnir eru góðir krakkar sem eru iðandi af lífi, fullir af hugmyndum sem umhverfi þeirra og bakgrunnur hefur mótað. Mínar hugmyndir í takt við námsefni mæta þeim á gatnamótum sem skólastofan er og þar leitast ég við að beina þeim í átt til alhliða þroska; að þau kunni að nýta sér kosti sína til þess að verða hæfar manneskjur í samfélagi manna, kunni að leita tækifæra og nýta þau, gera það sem hæfileikar þeirrar og áhugi bjóða, þekki réttindi sín og skyldur og svo margt fleira sem mótar manneskjur. Ég reyni alltaf að vera sanngjarn.

Magri


Tími, að ganga, blak

Það er gaman að kenna, það er gaman að spreyta sig eftir að hafa mátað sig í hlutverkið ótal sinnum í huganum. Ég held að ég geti orðið góður kennari sem fær nemendur til þess að hugsa, þroska sjálfa sig og nýta þá hæfileika sem hver og einn hefur. Ég vil sjá nemendur spyrja spurninga, standa fyrir máli sínu, ígrunda þarfir sínar og þess samfélags sem þau eru stödd í. Það er mikilvægast að vera lifandi í náminu og kreista bækurnar og setja mark sitt á þær. Ég hoppa upp á borð ef ég þarf, ég segi sannleikann, ég leyfi nemendum að spyrja og tek tillit til allra. Það er enginn uppáhalds hjá mér.

Ég fór í blak með samstarfsfólki og mikið var það skemmtilegt, fer aftur. Ég er ágætur í blaki. Einu sinni sagði mér góður maður að enginn yrði alvöru kennari nema að hann spilaði blak, sennilega er það rétt. Margir vöðvar þurftu að vinna.

Það er svolítið magnað að eftir að ég kláraði skólann þá finnst mér stundum eins og ég sé að gleyma einhverju, þurfi að skila einhverju verkefni eða eitthvað álíka spennandi. Það besta er að ég þarf ekkert að skila einu né neinu svo ég geri bara það sem ég vil. Þarf samt að fara í mastersnám en ekki alveg strax. 

Í dag er 08.11. 08 sem þýðir að aðeins tveir mánuðir eru í 08.01.09 sem er dagurinn sem bumbukrílið er skráð í heiminn. Þetta kríli lætur mömmu sína finna meira fyrir sér og þrýstir nú á ýmsa staði sem er ekkert voðalega gott að láta þrýsta á. Mamman er dugleg og heldur sínu striki. Já tveir mánuðir. Mér finnst stutt síðan að Kristbjörg hringdi í mig um borð í Víði EA þegar við vorum á siglingu á Reykjaneshrygg, 12. maí, og sagði mér að annað barn væri byrjað að hreiðra um sig. Það var óvænt og frábært.

Síðan þá hefur samfélagið okkar farið á hausinn og fengið skell sem enginn bjóst við, allavega ekki svona harkalegan skell. Margir af minni kynslóð þekkja ekki mótlæti svo nú reynir á okkur að sýna hvað í okkur býr. Við munum halda áfram að lifa hversu há sem verðbólgan verður. Við munum komast í gegnum þetta og börnin mín munu fá sín tækifæri. 

Síðan þá hef ég lagt slorgallann og kokkagallann á hilluna, pakkað þeim inn, hendi þeim ekki því ég á dýrmætt bakland og reynslu í sjópokanum sem hefur reynst mér vel. Kennaragallinn passar vel á mig, rétt kominn í hann en finnst hann hafa beðið eftir mér lengi. Mannfræðin var ekki til einskis, færði mér tvo launaflokka. Allt sem við gerum er til einhvers gagns, allt.

Síðan þá hefur það besta í lífi okkar hjóna blómstrað. Ása Eyfjörð vaknar með bros á vör alla daga, blaðrar og bendir, frekjast og leikur og nú síðustu þrjá daga hefur hún af sjálfsdáðum staðið upp og gengið. Stífar æfingar undanfarnar vikur bera nú ávöxt og hún er farin að átta sig á að hún getur staðið ein upp og gengið eins og spítukall:) lífið er jú til þess að fínstilla hreyfingarnar. Hún er alveg yndislegt barn og það allra allra besta við þetta allt saman er að við foreldrarnir höfum nægan tíma eftir vinnu til þess að vera með barninu okkar. 

Við höldum áfram.

Magri


Kristbjörg á afmæli

Mín elskulega eiginkona á afmæli í dag, 29 ára, til hamingju með daginn mín kæra. Kristbjörg er hress og kát, móðir stúlku og búin að ganga með annað barn í 7 mánuði. Svo umber hún mig alla daga og það er afrek útaf fyrir sig!

Ása Eyfjörð er hress og kát, hún tók nokkur skref í gær hjá langömmu sinni og tekur stöðugt framförum. Við höfum hvert annað, höfum húsaskjól og vinnu, nægan mat og hreint loft og vatn. Meira þurfum við ekki og það er gott að minna sjálfan sig á það. 

Magri 


Kennari

Í gær skrifaði ég undir ráðningarsamning og í morgunn kenndi ég minn fyrsta tíma sem kennari. Fyrsti tíminn var stærðfræði í 7. bekk, almenn brot sem var skemmtilegt og gefandi. Ég réði mig í 100% stöðu forfallakennara og mun því stökkva inná hinar ýmsu vígstöðvar sem verður krefjandi en eflaust gaman. Ég sóttist í að komast í gefandi, frjótt, lifandi og skemmtilegt umhverfi og það er ég að upplifa í Lundarskóla. Í skólanum eru ríflega 500 nemendur og starfsfólk er um 80. Ég er mjög sáttur.

Magri


Fyrsti vetrardagur-fyrsta vetrarhlaup UFA

Þá er veturinn formlega genginn í garð, skóflan og skafan eru mætt á sína staði og hafa þegar verið brúkaðar nokkuð. Ása Eyfjörð eignaðist sína fyrstu snjóþotu í dag, fengum hana hjá Vidda í Skíðaþjónustunni sem var samkeppnisfær við til að mynda Hagkaup og þótti okkur ljúft að geta keypt af honum á sanngjörnu verði frekar en verslun í eigu útrásarxxxxxx. Ef veður verður hagstætt 15 mánaða, 33 ára og þungaðri konu á morgun verður þotan prufukeyrð. 
 
Þar sem kominn er vetur verð ég og aðrir kennarar við Lundarskóla í vetrarfríi á mánudag og þriðjudag. Ég þarf að gera eitt verkefni og byrja á öðru. Eftir fríið kennum við Líney til föstudags og viti menn; lok æfingakennslu! Einstaklings- og parakennslustundir hjá mér eru á enda, tvær stuttar ritgerðir eftir það, tveir dagar á skólabekk og........ ég get sótt um leyfi til að nota starfsheitið grunnskólakennari, ég byrja svo að vinna (á launum:) ) í Lundarskóla í desember, það verður gaman. 
 
Ungmennafélag Akureyrar, UFA, stendur fyrir 6 vetrarhlaupum hvern vetur og í dag var fyrsta hlaupið. Hlaupinn er 10 km hringur frá Bjargi og ég hef sett stefnuna á að taka þátt í öllum þessum hlaupum og reyna í einhverju hlaupanna að komast undir 45 mínútur. Í fyrravetur hljóp ég í stilltu köldu veðri á auðu malbiki við bestu aðstæður á 49:32 mínútum. Í dag var hríð, vindur á köflum og hlaupaleiðin var 99% snjór og klaki og því hljóp ég í fyrsta skipti með gorma undir skónum til að vera stöðugri. Í dag hljóp ég þessa 10 km á 49:28 mínútum og miðað við aðstæður get ég vel bætt mig við góðar aðstæður um 3-4 mínútur og því ekkert að gera nema æfa vel og komast undir 45 mínútur. Gaman að bæta sig og þvílík sæla að takast á við svona hlaup.
 
Ekki vera gráðug.
 
Magri
 

Myndir af genginu í Magrastræti

100_4091.jpg

 Ég reyni að halda líkamanum í þokkalegu standi og skottaðist á Súlur með Lundarskóla. Fór á báðar súlurnar sem tróna í ríflega 1200 metra hæð. Skyggnið var lélegt en frábært að sjá toppa annarra fjalla sem umlykja Akureyri og Eyjafjörð uppúr þokunni. Hressandi ganga.

100_4094.jpg

Hvernig sem blessað efnahagslífið þróast þá höfum við hvert annað og Ása Eyfjörð er okkar ríkidæmi. Við njótum þess að vera saman og Ása er dugleg við heimilisverkin eins og glögglega má sjá!

100_4097.jpg

Sætustu stelpurnar og Ása splæsir í risabros enda varla annað hægt þegar maður umgengst svona skemmtilegt fólk:) Bumban vex og dafnar vel og nú eru tveir og hálfur mánuður þar til Ása eignast systkini. Kristbjörg er enn að vinna fulla vinnu og stendur sig vel í öllum þeim hlutverkum sem fyrir hana falla.  Hún er góð mamma og góð eiginkona.

100_4108_706752.jpg

Allt í kringum okkur eru leikvellir og svæði þar sem fjölskyldan getur gert sér glaðan dag án endurgjalds. Að vera saman er gaman, að róla er frábært, að róla í risarólu er alveg geggjað.

100_4114.jpg

 En litla rólan er ekkert síðri því þar get ég haldið fast og rólað hraðar.

100_4154_706762.jpg

 Ása Eyfjörð er byrjuð að æfa skrefin. Metið er 10 skref alveg ein og því er ekkert því til fyrirstöðu að bæta um betur. Hún er alltaf til í að hafa gaman og alltaf til í að stjórna, helst stjórna ein:) Yndisleg

100_4165.jpg

Það er alltaf gaman að leika sér í sandi. Við fórum yfir götuna á leikskólann Hólmasól og lékum okkur saman.

100_4170.jpg

 Rennibrautin er skemmtileg og spennandi. Meira meira segir Ása um leið og hún er komin niður.

100_4172.jpg

Ég hef allt sem ég þarf og gott betur. Ég hef náð að mennta mig og klára kennaranámið eftir mánuð og tel mig heppinn að vera búinn að koma mér í vinnu um leið og náminu lýkur. Ég á góða fjölskyldu sem fer ört stækkandi, fulla frystikistu af mat, nóg af vatni, hreint loft, Subaru (grín), góða heilsu og trausta vini. 

Það er gaman að lifa og gaman að fá tækifæri til þess að ala upp barn og gera því eins gott líf og kostur er. Að hjálpa barninu sínu að standa á steini er einn þáttur í því að byggja góðan grunn. Við ættum að byggja meira á steini og dreifa sandinum ofaná. Við ættum að eyða meiri tíma með börnunum og byggja okkur sjálf þannig upp á heilbrigðan hátt.

Magri


Kreppa um kreppu frá kreppu til kreppu

Í mars velti ég fyrir mér hvort Ísland væri bananalýðveldi þegar allt var á niðurleið. Núna er ég sannfærður um að við erum bara venjulegt fólk sem tekur þátt í veislum af því tagi sem nú er á enda með hrikalegum afleiðingum. Við erum á engan hátt betri en aðrir, höfum ekki meira vit á efnahagsmálum en aðrar þjóðir og þurfum einfaldlega bara á því að halda að vera fólk sem hefur þörf fyrir tiltölulega jarðbundið líferni. Sveiflur eru ekki góðar, græðgi er það sem er nú að drepa niður efnahagsundrið sem engin innistæða var fyrir og ég vænti þess að fólk fari nú að átta sig á um hvað raunveruleg lífsgæði innihalda; öflugt velferðarkerfi, að eiga fyrir afborgunum og smá afgang til að ferðast og njóta lífsins, fjölskyldu og vina sem standa með manni í gegnum súrt og sætt. Ég hef áður sagt að ég spilaði lítið með í góðærinu og því líður mér ekki svo illa nú í kreppunni.

Ég hef lengi verið flokksbundinn sjálfstæðismaður og held að þeir hafi stjórnað landinu þokkalega, held allavega að margt gott hafi verið gert og aldrei séð ástæðu til þess að breyta. Núna sé ég að stjórnvöld gerðu mistök í kjölfar einkavæðingu bankanna. Veggir voru reistir en ekki nógu hátt þar sem bankarnir bólgnuðu svo mikið sem raun ber vitni í dag-alltof mikið. Það er alveg ljóst að þegar þessar mestu hörmungar efnahagssögu þjóðarinnar eru gengnar yfir þurfa einhverjir að bera ábyrgð. Ég veit að þetta er alþjóðleg kreppa en Ísland virðist ætla að fara sérstaklega illa vegna þess að nokkrir bjálfar léku sér með peninga sín á milli, otuðu rándýru lánsfé að fólki sem ekki hafði vit á því að það kæmi að skuldadögum og svo framvegis.

Ég er ánægður að stjórnvöld gripu í taumana og settu þessi lög en hvert framhaldið verður er ekki gott að sjá fyrir. Algjör uppstokkun mun eiga sér stað hér á landi og ég ætla að kjósa þann flokk sem þorir að draga menn til ábyrgðar, byggja upp kerfið kringum almenning fyrst og fremst, flokk sem vill leyfa fleirum að veiða fiskinn í sjónum, flokk sem vill lækka skatta núna, flokk sem vill leyfa fólkinu í landinu að kjósa um Evrópuaðild, flokk sem vill gera fólki auðveldara fyrir að vera heima eftir barnsburð án þess að lepja dauðann úr skel, flokk sem kemur í veg fyrir sveiflur á gengi og óðaverðbólgu, flokk sem leyfir einstaklingum að blómstra en ekki það mikið að það skaði fjölda annarra, flokk sem er hvorki of né van. Við þurfum hinn gullna meðalveg eins og ég hef ansi oft talað fyrir!

Ég ætla að nýta tækifærið og núllstilla mig í pólitík. Ég er bara venjulegur maður sem þarf á því að halda að launin mín hverfi ekki sökum útblásinna lána og ónýtrar krónu. Ég stend hér með utan allra stjórnmálaflokka og styð þá sem virkilega ætla sér að nýta kreppuna til þess að endumeta gildi okkar Íslendinga með fólkinu í landinu, horfa til framtíðar og byggja efnahagskerfið upp á sanngjarnan hátt þar sem venjulegt fólk getur notið þess að fá eitthvað fyrir sinn snúð þó það sé ekki hámenntað eða í útrás! Framsækið fólk þarf líka að njóta sín en eins og áður sagði þá þarf allt að hafa einhvern ramma svo óðagot verði ekki fjöldanum að fjörtjóni.

Ég er að mörgu leyti glaður að þessi kreppa kom svo hart við okkur því þá fær fólk gjarnan tækifæri til að endurmeta hlutina. Við eigum að njóta peninganna, geta borgað lánin og fengið lán á sanngjörnum vöxtum og notið afgangs sem ætti að vera eftir 8 tíma vinnudag. Peningarnir eiga ekki að stjórna okkur því þá fer eins og nú gerðist; margir blæða vegna græðgi, yfirgangs og misnotkunar á peningum sem í raun voru aldrei til.

Verum manneskjur og lærum af þessu rugli öllu saman, byggjum upp í kringum fólkið í landinu. Ég tók aðeins þátt í veislunni en fór snemma og því eru eftirköstin ekki svo hræðileg. Ég ætla að styðja þá sem eru sanngjarnir. Ég er bjartsýnn, tilbúinn í aðra veislu þar sem ÖLLUM í landinu er boðið og ef eitthvað verður afgangs þá að sjálfsögðu bjóðum við með okkur!

-------

Annars er ég bara á fullu í æfingakennslu í Lundarskóla og verð að kenna þar þar til í lok nóvember og í desember byrja ég að takast á við menntamálin frá sjónarhorni kennarans með tilskilin réttindi. Ása Eyfjörð braggast vel, glöð og ánægð. Kristbjörg er nokkuð hress á þessari meðgöngu númer tvö og það eru þrír mánuðir þar til litla kríli númer tvö kemur í heiminn. Við erum bjartsýn og hlökkum til.

Lifi Ísland:) munum bara að brosa og ekki henda of miklum skít hvert í annað.

Magri


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson
Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson

Dalvíkingur, giftur Kristbjörgu, faðir Ásu Eyfjörð, Ægis Eyfjörð og Kára Eyfjörð.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband