Færsluflokkur: Dægurmál
18.9.2006 | 12:35
Málshættir
- Betra er að ganga fram af fólki en björgum.
- Betra er að ráða menn með réttu ráði en ráðamenn.
- Léttara er að sóla sig en skó.
- Betri er einn fugl í sósu en tveir í frysti.
- Ekki er aðfangadagur án jóla
- Blankur er snauður maður.
- Lengi lifa gamlar hræður.
- Betra er langlífi en harðlífi.
- Sá hlær oft sem víða hlær.
- Margur sefur yfir sig sem vaknar ekki á réttum tíma.
- Rangt er alltaf rangt, það er rétt.
- Margur hefur farið flatt á hálum ís
- Sjaldan er góður matur of oft tugginn.
- Heima er best í hófi.
- Betri eru læti en ranglæti
- Betri er uppgangur en niðurgangur.
- Oft er virtur maður ekki virtur viðlits.
- Enginn veit sína kæfuna fyrr en öll er
- Betra er að standa á eigin fótum en annarra.
- Þegar neyðin er stærst er hjálpin fjærst.
- Oft er grafinn maður dáinn.
- Oft veldur lítill stóll þungum rassi.
- Oft er bankalán ólán í láni.
- Oft eru læknar með lífið í lúkunum.
- Frestaðu því ekki til morguns sem þú getur frestað lengur.
- Enginn verður óbarinn boxari.
- Oft er dvergurinn í lægð.
- Einsdæmi er að dæmigerðar dæmisögur séu dæmdar dæmalausar.
- Sjaldan fellur gengið langt frá krónunni.
- Illu er best ólokið.
- Fátt smátt gerir lítið eitt eða ekki neitt.
- Ekki dugar að drepast.
- Eitt sinn skal hver fæðast.
- Sjaldan fellur róninn langt frá flöskunni.
- Blindur er sjónlaus maður.
- Bændur eru bændum verstir og neytendum líka.
- Eftir höfðinu dansar limurinn.
- Flasa er skalla næst.
- Margur slökkviliðsmaðurinn er eldklár.
- Margur geispar golunni í blankalogni.
- Sjaldan fara sköllóttir í hár saman.
- Oft eru bílstjórar útkeyrðir.
- Betra er að vera sí-virðulegur en svívirðilegur.
- Margur fer yfir Strikið - í Kaupmannahöfn
- Oft fýkur í menn sem gera veður útaf öllu.
- Flestar gleðikonur hafa í sig og á.
- Fiskisagan flýgur en fiskimaðurinn lýgur.
- Oft láta bensínafgreiðslumenn dæluna ganga.
- Betra er að hlaupa í spik en kekki.
- Nakinn er klæðalaus maður.
- Margur miljónamæringurinn á ekki baun í bala - bara peninga.
- Sjaldan eiga fiskar fótum fjör að launa.
- Minkar eru bestu skinn.
- Margur nautabaninn sleppur fyrir horn.
- Betra er að drepa tímann en sjálfan sig.
- Betra er að ná áfanga en að ná fanga.
- Margur leggur "mat" á disk.
- Hungraður maður gerir sér mat úr öllu.
- Betra er að vera eltur en úreltur.
- Oft kemst magur maður í feitt.
- Oft eru lík fremur líkleg.
- Betra er áfengi en áfangi.
- Ei var hátíð fátíð í þátíð.
- Margur boxarinn á undir högg að sækja.
- Betri eru kynórar en tenórar.
- Betra er að sofa hjá en sitja hjá.
- Oft verða slökkviliðsmenn logandi hræddir.
- Til þess eru vítin að skora úr þeim.
- Oft fer bakarinn í köku, ef honum er gefið á snúðinn.
- Auðveldara er að fá leigt í miðbænum en guðanna bænum.
- Oft fara hommar á bak við menn.
- Oft eru dáin hjón lík.
- Hagstæðara er að borga með glöðu geði en peningum.
- Betra er að fara á kostum en taugum.
- Greidd skuld, glatað fé.
- Margri nunnu er "ábótavant".
- Margur bílstjórinn ofkeyrir sig.
- Oft hrekkur bruggarinn í kút.
- Margur bridsspilarinn lætur slag standa.
- Oft er lag engu lagi líkt.
- Oft svarar bakarinn snúðugt.
- Betri er utanför en útför.
- Margur fær sig fullsaddan af hungri.
- Það er gömul lumma að heitar lummur seljist eins og heitar lummur.
- Oft eru bílstjórar vel á veg komnir.
- Oft fara bændur út um þúfur.
- Víða er þvottur brotinn.
- Oft fer presturinn út í aðra sálma.
- Betra er að teyga sopann en teygja lopann
- Margur bóndinn dregur dilk á eftir sér.
Þessir málshættir eru í boði Þokkadísa.
Magri
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.9.2006 | 10:33
Nöbbóttur humar!
Af hverju finnst fólki humar svona góður? Er það vegna þess að hann er ekki hversdagsmatur á heimilum, er það vegna þess að hann er frekar dýr og þá er hann munaðarvara? Allavega er ekki humar á hverjum degi í Magrastræti en fiskur er hér að jafnaði þrisvar í viku. Fiskar sem til eru í forðabúrinu frystikistunni eru ýsa, þorskur, lúða, koli. silungur, skötuselur, humar og ég man ekki meir.
Allavega finnst okkur hér humar góður og við ætlum að gera okkur humar í kvöldmatinn sem verður baðaður í smjöri og ítalskri hvítlauksblöndu, bakaður í ofni við 190°C í ca. 6-8 mínútur, borinn fram með hrísgrjónum, salati, hvítlauksbrauði og ísköldu búlgörsku Tamarini hvítvíni. Humarinn veiddum við í sumar á Björgvin og því þarf ekki að greiða fyrir hann:)
Ég man þá tíð þegar kjúklingur var bara á sunnudögum annað slagið enda var hann þá dýr matur og allavega var þetta munaðarvara á þeim tíma er ég var ungur maður. Í þá daga þótti mér kjúklingur góður matur og í dag borðum við kjúkling tvisvar í viku og mér þykir kjúklingur alltaf jafn góður matur þó hann sé ekki svo rosalega dýr.
Annars allir að ná heilsu á þessu heimili, búið að leka hor úr nös og sýklar úr kverkum síðustu tvo daga, mikið hnerrað og hóstað sem er vissulega mjög huggulegt og aðlaðandi.
Við höfum fengið okkur nýtt rúm frá Betra bak, tempur heilsudýnurúm sem er að byrja að aðlagast að okkur, lofar góðu.
Framundan er helgi, póker annað kvöld og Chelsea-Liverpool á sunnudaginn en í bland við þetta er lærdómur og almenn tiltekt á heimilinu.
Munið að borða fiskinn, það er ekki nóg að eiga hann í kistunni!
Orð dagsins er nöbbóttur. Mikið agalega er drengurinn nöbbóttur. Mikið er drengurinn smáþýfður í framan. Flestir kannast þó við merkingu orðsins á þennan veg: Mikið er drengurinn bólugrafinn.
Magri
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 10:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.9.2006 | 12:29
11. september 2001
Þennan dag fyrir 5 árum breyttist heimsmyndin, Bush hét því að elta uppi alla vondu mennina og hófst það með innrás í Afganistan. Eftir að hafa svipt blæjunni af konunum og rakað alla karlana þar þá fór hann til Íraks til að klára verkefni sem karl faðir hans náði ekki að klára í sinni forsetatíð, reyndar tókst honum að ná Saddam en allt annað er í upplausn.
Bandaríkin og Blair hafa síðan barist hlið við hlið og hvika hvergi við að elta uppi Osama Bin Laden. Í boði eru 25 milljónir USA$ fyrir Bin Laden en ekkert hefur gengið að ná í karlinn. Ég er að verða sannfærður um að hann búi í helli undir Hvíta húsinu og stjórni aðgerðum þaðan.
Öryggiskröfur á flugvöllum hafa verið hertar og þannig finnum við helst fyrir þessari breyttu heimsmynd. Sorglegt ástand í heiminum nú sem fyrr og hryðjuverk halda áfram svo lengi sem við vesturlandabúar höldum okkar striki við að fordæma trúarbrögð annarra á grundvelli okkar trúarbragða. Látum fólk í friði með sín trúarbrögð því sagan hefur of oft kennt okkur að trúarbrögð eru rót margra átaka og stríða, um það er ekki deilt. Okkar trúarbrögð eru ekkert betri en önnur.
Ég var staddur í vinnunni á Seltjarnarnesi þennan dag fyrir 5 árum, vann þá með einhverft fólk og sá þessa atburði í beinni einsog svo margir aðrir.
Magri
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
6.9.2006 | 13:18
Rétta leiðin og börn
Þá er haustið mætt á hverjum degi, mér finnst frábært að ganga í skólann í hægviðri og köldu lofti sem þó krefst ekki vettlinga né húfu. Veit samt að ég verð ekki jafn glaður þegar rigning og svo haglél hamast í andlitinu á mér og í beinu framhaldi af haglélinu þá þarf að moka tröppurnar og hreinsa þakið. Samt finnst mér þetta gott og ég brosi.
Talaði við kennara í gær, sem gerist á hverjum degi en þó er þetta öðruvísi því þessi kennari kennir mér ekki á þessu misseri. Við kennaranýnemar vorum hjá henni í hópefli og sjálfsskoðun. Hún spyr hvernig ég hafi það, hvernig sé í skólanum og bara almennt hvernig lífið sé. Talið berst að bílnum sem var klesstur tvisvar á einni viku eða svo, hún tekur stöðuna og segir svo: Samt brosirðu og ert rólegur, ekki æstur né bitur né ásakandi. Þú ert á réttri leið. Ég fattaði ekki fyrr en áðan hvað þessi orð hennar voru mikilvæg og mér finnst ég vera á réttri leið, líður vel. Mikilvægast er að enginn slasaðist.
Verkefnin koma og fara, þau þarf að leysa eins vel og við getum, meira verður ekki krafist af okkur.
Í dag fáum við Kristbjörg verkefni sem stendur í viku, verkefnið felst í því að senda og sækja eina rúmlega ársgamla stelpu til dagmömmu, sækja og senda 3 ára strák á leikskóla, fæða þau og klæða, leika við þau og koma þeim í svefn. Við erum semsagt að passa börn systur Kristbjargar og það verður bara gaman enda erum við vön þessum börnum og umgöngust þau mikið.
Annars allt í sómanum, nóg að gera í skólanum. Var í eðlisvísindum í morgunn þar sem við lærum í raun allt sem krakkar í grunnskóla eiga að vita um efni og eðli hluta svo og um okkur sjálf sem mannverur á þessari jörð, mjög spennandi.
Roger
Magri
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 13:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.9.2006 | 15:36
Klesstur á ný!
Jæja gott fólk, bíllinn okkar var klesstur fyrir viku síðan af öðrum en okkur, um helgina bakkaði kona á ofvöxnum jeppa inní hliðina á bílnum okkar sem var mannlaus og kyrrstæður.
Í morgun var gert við fyrri klessuna og þegar því var lokið kláruðum við tjónaskýrslu laugardagsins! Við erum í 100% rétti og bíllinn fer bráðlega á sama verkstæðið og það þarf að skipta um alla hægri hliðina nema frambrettið! Mikið er gaman að standa í þessu brasi, sérstaklega þegar við eigum engan þátt í þessum tjónum.... 7, 9, 13.
Annars góður, góð afmæli og brúðkaup um helgina, gaman saman en nú er það skólinn og daglegt líf.
Þó er bót í máli að fólkið hjá Sjóvá og VÍS hafa reynst mér vel og afgreitt málin vel og örugglega.
Mánudagur til mæðu en þó brosi ég því ég er nýklipptur hnegg hnegg
Magri
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.8.2006 | 22:44
Skrifborð á 4100kr
Skólinn fer vel af stað, nóg að gera, fínir kennarar og samnemendur. Efnið spennandi og ég hlakka til að kynnast heimi kennslunnar, óhræddur að læra fyrst að kenna og kenna svo, efast ekki ennþá allavega um að ég sé á réttri braut.
Mig vantaði nýtt skrifborð til að læra við enda ómögulegt að hafa eldhúsið undirlagt alla daga í bókum og drasli sem fylgir manni eins og mér. Við fórum því í RL-búðina og fengum þar þetta fína skrifborð sem kosta átti 7000kr en vegna smá útlitsgalla sem reyndar sjást ekki þegar búið er að setja það saman þá fengum við það á 4100kr. Borðið er svaka fínt, þetta er reyndar líka tölvuborð sem er mjög gott. Já gott að gera góð kaup.
Í gær rigndi heil ósköp hér á Akureyri, mér líður vel í rigningu og myrkri enda fórum við Kristbjörg í langan göngutúr sem var hollt og gott. Í dag voru svo ljúfar hauststillur sem mér þykir einnig vænt um, ég held að það sé gott að hafa þessar árstíðir til að hrista svolítið uppí okkur.
Á morgun er lærdómur og afmælispartý, brúðkaup og annað afmælispartý á laugardaginn.
Á morgun 1. september er Dagur vinur minn 29 ára og fær hann koss og knús enda mikill snillingur
Góða helgi
Magri
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.8.2006 | 12:51
Soðningur
Þá er fyrsta skóladeginum samkvæmt stundaskrá lokið. Fór í íslensku 0155 hjá Finni Friðrikssyni sem kom vel fyrir og kynnti efnið og áætlun misserisins vel. Við munum fræðast um málið okkar fallega frá málfræði til málnotkunar í riti og ræðu og allt þar á milli.
Haustið minnir hressilega á sig hér á Akureyri, kalt og hvasst, laufin byrjuð að gulna og hrynja af trjánum. Mér finnst haustið ágætt, gott að hafa bjart á daginn og dimmt á kvöldin og á nóttunni.
Þar sem ég er nú skóladrengur reyni ég með hverjum degi að temja mér námsmannasiði og ég bý við þau forréttindi að eiga fulla frystikistu af fiski og þá er vel við hæfi að sjóða sér ýsu í hádeginu. Það má alltaf redda deginum með soðningi sagði maður einn!
Helgin fór að mestu í ólifnað, garðpartí og læti sem var gaman. Orðið partí er skemmtilegt, ég hef oftast séð það skrifað partý með ý(www.partybudin.is), í orðabókinni sem ég hef undir höndum er þetta klárlega ritað partí.
Annað skemmtilegt, flestir kannast við orðatiltækið ,,það er ekki hundrað í hættunni". Vinur minn hélt lengi vel að það væri ,,ekki hundur í hettunni" annar vinur til sem reyndar er vinur okkar beggja sagði mér um helgina að hann segði alltaf ,,hundar í hættunni"............ og í morgunn sagði kennarinn einmitt ..hundrað í hættunni.. og þá fórum við yfir þennan útbreidda misskilning. Uppruna þessa orðatiltækis fórum við ekki nánar í en hann lofaði að gera það síðar.
Jamms og kjamms, farinn í bæinn að skoða afmælisgjafir og skólabækur.
Næstu helgi er tvöfalt þrítugsafmæli á föstudegi, brúðkaup um miðjan dag á laugardag og þrítugsafmæli um kvöldið í Svarfaðardal, þetta endar með ósköpum!
Drekktu í hófi og haltu þig vel,
helst mun það gamanið veita.
Vínið er görótt og varla ég tel,
virði þess eftir að leita.
Magri
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 13:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.8.2006 | 21:53
Skógarhögg og árekstur
Skólinn fer vel af stað, ég er einn með 14 stelpum í bekk. Held að þessi kynjaskiptingarþróun í skólum landsins sé mjög slæm, hver vill að nánast bara konur komi að menntun barna á grunnskólastigi? Það eru þó fleiri karlar í náminu á öðrum árum og í fjarnámi. Þetta eru fínar stelpur frá Ísafirði, Dalvík, Melrakkasléttu og víðar af landinu kalda. Við höfum hitt kennarana og fólkið sem vinnur við kennaradeildina sem er allt hið viðkunnulegasta. Alvaran byrjar á mánudaginn með íslensku frá 0810-1140. Einnig verð ég í stærðfræði, aðferðum, hugmyndasögu og eðlisvísindum. Það er leikur að læra, leikur sá er mér kær, að vita meira og meira, meira í dag en í gær.
Arnar mágur minn kom í stutt stopp á Akureyri, fékk bílinn lánaðan og keyrði aftaná bíl sem innihélt konu sem snögghemlaði á ljósum. Enginn meiddist nema bíllinn okkar sem fékk krókinn af hinum bílnum á stuðarann og ljós... tjón á 100.000kr+. Kaskóið borgar þetta allt nema sjálfsábyrgðina sem Arnar borgar.
Pabbi og mamma komu í heimsókn í gær, nokkurs konar vinnuheimsókn því við söguðum 4 risastórar greinar neðan af tröllaöspinni í garðinum. Tókum þær sem héngu yfir skúrnun, þakinu, snúrunni og pallinum og það birti aldeilis til. Næsta verkefni er að brytja þetta niður og flytja í burtu, margar ferðir.
Annars bara ferskur og fallegur í blíðunni hér norðan heiða
Roger, over and out.
Magri
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.8.2006 | 08:27
Til hamingju Kristín!
Í dag er hún Kristín Gunnarsdóttir tengdamóðir mín hálfrar aldar gömul, 50 ára. Hjartanlegar hamingjuóskir með afmælið og megi dagurinn í dag sem aðrir dagar vera góður. Sjáumst um helgina:)
Magri
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.8.2006 | 20:25
Kominn heim
Þannig fór um sjóferð þá, 16 dagar, kom heim í dag og skólinn byrjar á morgun.... best að strauja flauelsbuxurnar!
Til gamans fylgir mynd af grilluðum gelti í Búlgaríu....ekki af mér þó!
Magri
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)