Færsluflokkur: Dægurmál

Íslenska í öndvegi

Þegar ég ólst upp lærði ég að allir ættu að tala fallegt og rétt íslenskt mál, ég skrifaði stíla, kepptist við aðra í bekknum um getu í stafsetningu og stóð mig vel í íslensku almennt.

Í dag tala ég þokkalega íslensku, reyni að vanda mig og leiðrétta, leiðrétti aðra í kringum mig sem sumum finnst óþolandi. Mér finnst óþolandi að öðrum finnist í lagi að íslenskan blandist óhindrað við önnur mál, tökuorðum fjölgar, málvillur aukast og einn daginn munum við standa frammi fyrir því að annaðhvort breytum við reglunum í samræmi við villurnar eða þá að við kennum fólki íslensku uppá nýtt!

Við vitum að það gæti reynst erfitt að breyta þróun sem fengið hefur að dafna, við þurfum að byrja núna og ég er því sammála forsetafrúnni okkar Dorrit músanefi að það eigi ekki að vera auðvelt að verða Íslendingur. Þetta segir hún í tilefni þess að hún varð í gær íslenskur ríkisborgari og vill að allir eða sem flestir sem flytjast hingað læri tungumálið og kynni sér menninguna. Fólk þarf að gefa af sér en ekki bara lifa af þeim arfi sem aðrir hafa búið til. Við vitum líka að það vantar mikið uppá að fólk sem hingað flyst geti sómasamlega lært íslensku og er það skammarlegt fyrir stjórnvöld hversu illa er staðið að þeim málum.

Þessar pælingar eru mér ofarlega í huga þar sem ég eftir 4 vikur hef nám í grunnskólakennaradeild við Háskólann á Akureyri og ég byrja á því að læra aftur íslenska tungu, mál og málnotkun og allt hvað eina. Ég á eflaust eftir að reka mig mikið á gagnvart málnotkun og notkun íslenskrar tungu. Við eigum að hlúa að tungumálinu, við eigum að vilja hafa okkar eigið tungumál, það er mín skoðun. Rannsóknir hafa líka sýnt framá að sá sem hefur gott vald á sínu eigin tungumáli gengur mun betur að læra önnur tungumál.

-----------

Búlgaría var heit og góð, við sleiktum sólina smurð olíu í tvær vikur, fórum út að borða 14 sinnum og drukkum aldrei sömu tegundina af innlendum vínum sem eru mjög góð. Við fórum í skoðunarferð og sáum dálítið af landinu sem er skógi vaxið en tiltölulega illa nýtt hvað varðar landbúnað. Borgin Varna sem telur um 300.000 manneskjur er dæmigerð austur-evrópsk borg, stórar ljótar blokkir sem kommúnistaflokkurinn reisti og úthlutaði. Eftir að kommúnistinn féll hirti enginn um viðhald og því er mikið þarna í niðurníslu. Aðrar byggingar eru mikilfenglegar skreyttar gulli og marmara, nýbyggingar og allt í bland. Austur Evrópa mun innan 30 ára blómstra sem hluti af Evrópusambandinu og þurrka út endanlega sorglegar leifar kommúnisma.

Við vorum á dæmigerðri sólarströnd, Golden sands, strandgata með sölubásum og ógrynni af hótelum og veitingahúsum, afþreyingu til sjós og lands.

Við fórum á búlgarskt kvöld þar sem búlgarskur matur var í hávegum hafður, búlgarskir þjóðdansar, fjöllistafólk og allsherjar gleði og skemmtun. Maturinn var ágætur, sumt gott og sumt vont eins og gengur og gerist. Búlgarar borða mikið af kjúklingum og kartöflum.  Við skoðuðum leifar af munkaklaustri frá 13. öld sem var grafið inní klettabelti úr límónusteini, það var stórgaman að skoða. Við fórum í þessa skoðunarferð útí litla eyju eða skaga þar sem er að finna heilar, hálfar kirkjur frá 11.-16. öld, þessi staður heitir Nessebar og er á heimsminjaskrá UNESCO. Mjög fræðandi ferð um trúarlífið og byggingarlist . Við gengum svo meðfram ströndinni kringum skagann sem var fallegt.  Annars var þetta bara afslöppun og huggulegheit.

Kristbjörg er svo byrjuð að vinna aftur og ég fer á sjóinn á föstudaginn þar til skólinn byrjar um mánaðarmótin. Lífið er semsagt að komast í fastar skorður sem er ljómandi fínt enda er þetta búið að vera mikil rússíbanaferð í kringum giftinguna og eftir vel heppnaða rússíbanaferð er alltaf gott að taka af sér beltið og fá sér kalt vatn.

Bloggið var næstum gufað upp, það fór mikið með Mola sem við söknum sárlega. Lífið heldur áfram og framundan eru spennandi tímar í okkar lífi, námsmannalíf með bros á vörHlæjandi

magri 


Giftur

Nýgift

Á laugardaginn kl. 17°° kom fulltrúi sýslumanns heim til okkar ásamt nánasta skyldfólki og gaf okkur Kristbjörgu saman í hjónaband. Þetta var falleg athöfn og gott að vera giftur góðri konu. Palli ljósmyndari fór með allt liðið út í garð og myndaði og svo fór myndataka brúðhjónanna fram hér í garðinum og næstu görðum, að sjálfsögðu klikkaði veðurspáin(engin rigning) og sólin glennti sig og allir kátir.

Kl. 19°° var blásið til heljarinnar veislu í Frímúrarahúsinu þar sem 120 gestir mættu. Vel var borðað af lambakjöti, skötusel, lúðu, fiskisúpu, meðlæti, kökur, vín og kaffi. Hermína systir og Kata mágkona voru veislustýrur og stóðu sig frábærlega, mikið grín og mikil gleði fram á rauðanótt.  Stórkostlegur dagur með stórkostlegu fólki.

Í gær var vaknað seint, opnaðir pakkar og slakað á. Danska vinafólkið okkar fór svo heim í morgunn eftir góða ferð. Framundan er eitt og annað en aðallega 2 vikna sól og sæla í Búlgaríu á fimmtudaginn.

Magri 


Moli er dáinn

Í morgunn klukkan 1030 dó okkar ástkæri köttur hann Moli. Eldri maður keyrði á hann hérna stutt frá í Þórunnarstræti. Hann dó strax. Moli hefði orðið 3 ára 080806.

Ég hefði ekki trúað því að ég ætti eftir að sitja grátandi vegna kattar sem fékk mig til að vakna á nóttunni og hleypa sér inn og út, jú mér bara þótti virkilega vænt um þetta dýr og þess vegna græt ég. Moli veitti okkur margar frábærar stundir og minningin um hann lifir. Minning um kött sem hlýddi nafninu sínu, kom þegar við kölluðum á hann. Hann malaði eins og traktor þegar hann lá hjá okkur og fannst best að vera innan um okkur tvö.

Ég sótti Mola þar sem hann lá á götunni, Gressi lögga var kominn með kassa og setti hann í fyrir mig því ég átti erfitt með það. Kristbjörg fór úr vinnunni og við fórum til dýralæknisins sem brennir hann fyrir okkur.

Mola verður sárt saknað og enginn kemur í hans stað.

Blessuð sé minning Mola 


Hraunsvatn

Bærinn Hraun í Öxnadal er frægur fyrir að það fæddist skáldið mikla Jónas Hallgrímsson 16. nóvember 1807 og lést um aldur fram 1845 eftir veikindi. Öxnadalur tengir þjóðbrautina milli Eyjafjarðar og Skagafjarðar og tignarlegir Hraundrangarnir minna fólk á fegurð og kraft sem birtist í ljóðum Jónasar.

Við Kristbjörg fórum á laugardaginn í fjallgöngu er við gengum frá Hálsi sem er næsti bær við Hraun, gengum framhjá Þverbrekkuvatni og uppað ægifögru Hraunsvatni sem er vissulega ekkert fallegra vatn en önnur en umhverfið er mikilfenglegt með Hraundranga gapandi á kantinum. Sólin skein og veðrið til fyrirmyndar og því var yndislegt að setjast niður með nesti og eiga góða stund í náttúrinni.

Við fengum lánaða göngustafi hjá mömmu&pabba og er það í fyrsta skipti sem ég klifra með slíka, það er mjög gott að hafa slík tæki sem drífa mann áfram og dreifa átökum þeim sem fylgja upp í mót, urð og grjót. Ég greip með gamla góða bók sem er blá og heitir Skólaljóð, við stigum á þúfu við Hraunsvatn þar sem pabbi Jónasar drukknaði og við lásum ljóð. Kristbjörg fór með ljóðið Íslands minni eftir Jónas og ég flutti Hraun í Öxnadal eftir Hannes Hafstein, það var gaman.

Ég er búinn að fá inni í grunnskólakennarann í Háskólanum á Akureyri og byrja þar í ágúst, mikið verður gaman að gera það sem mig virkilega langar að gera.

Magri 


Besti dagur ársins

Já kæru vinir það eru jákvæðir straumar í kringum mig þessa dagana því í gær unnu Ghana Bandaríkjamenn á HM 2-1 á sínu fyrsta heimsmeistaramóti og við mætum heimsmeisturum Brasilíu í 16 liða úrslitum, það verður auðvelt!!!

Í dag er líka merkisdagur samkvæmt breskum vísindamanni því 23. júní á samkvæmt rannsókn hans að vera besti dagur ársins. Hann hefur sl. 15 ár rannsakað ýmsar athafnir utandyra, náttúruna, félagsleg tengsl, æskuminningar, hitastig og frí og eitthvað fleira.

Hér á Akureyri er allavega flottur dagur, sól og sumar og ég ætla að þrífa í kringum mig meðan Kristbjörg vinnur, á morgun ætlum við í fjallgöngu uppað Hraunsvatni í Öxnadal.

Dagurinn í dag gæti orðið besti dagur lífs þíns, bara ef þú notar hann réttHlæjandi

Magri 

 


Jákvætt & neikvætt

Umhverfis mig er margt gott og margt slæmt, umhverfi mitt er það sem ég sé, heyri og skynja. Hér kemur listi yfir gott og slæmt í mínu lífi undanfarin misseri.

Neikvætt:  George Bush, nammi, hryðjuverkamenn, verðbólga, smáfiskadráp, hátt bensínverð, pylsa með öllu, trjámaðkur, fýlupoki, mengun, hreyfingarleysi, naga neglur, kjarnorka.

Jákvætt: Kristbjörg, Moli, hreyfing, fótbolti, hollur matur, Geir Haarde forsætisráðherra, sumarblómin í garðinum, hryggurinn hjá tengdó og Jósef, fínir skór, bárum á sólpallinn, góðir vinir, góð fjölskylda, Þór sagaði tunnuna, hreint vatn, áætluð fjallganga í Öxnadal, gifting, meiri fótbolti, sól og blíða, rigning fyrir blómin í garðinum, friður,  x-d í borginni og á Akureyri, sumarfrí.... og margt fleira.

Já kæru vinir það eru mínusar og plúsar í þessu lífi, ef við upphefjum plúsana og reynum að lifa með mínusunum þá er allt betra. Kalli bros kenndi mér stærðfræði í Verkmenntaskólanum, hann kenndi mér að tveir mínusar gætu orðið plús, - - +, ef við gefum okkur að hluti af mínusum þessa lífs séu tveir menn, Saddam Hussein og Osama Bin Laden, ætli þessir tveir mínusar gætu orðið plús??? Sennilega ekkiÞögull sem gröfin

Allavega er gott að vera jákvæður.

Magri 


« Fyrri síða

Höfundur

Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson
Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson

Dalvíkingur, giftur Kristbjörgu, faðir Ásu Eyfjörð, Ægis Eyfjörð og Kára Eyfjörð.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband