10.3.2009 | 21:57
Brot úr B.Ed-ritgerðinni minni
Ísland hefur á skömmum tíma breyst úr einsleitu samfélagi í fjölmenningarlegt samfélag þar sem fólk af ólíkum uppruna býr saman. Fordómar leynast víða og verða gjarnan til af þekkingarleysi. Börn með opinn huga og skilning geta breytt heiminum í umburðarlyndan og fallegan heim þar sem hver og einn getur notið sín óháð uppruna og menningu. Við þurfum að gera börn meðvituð um hvað fordómar eru, hvað fjölmenning er og hvernig við getum upprætt eigin fordóma og miðlað þekkingu sem leiðir til betri heims. Samfélag manna eins og við þekkjum það hér á Íslandi er byggt upp samkvæmt lögum sem byggð eru á siðviti sem maðurinn hefur þróað með sér. Við settum í lög að hvert barn skyldi hljóta menntun á þann hátt sem best hæfir hverjum einstaklingi. Samfélagið, skólinn og heimilið þurfa að mínu mati að vera samstíga um almenna menntun barnanna okkar svo þau fái öðlast þroska og siðvit sem dugir þeim til að vera sátt við sjálf sig og aðra menn og málleysingja.
Almenn menntun er að mínu mati ein leið til að koma í veg fyrir fordóma. Menntaður maður hefur meiri möguleika til þess að verða umburðarlyndur fyrir hinu óþekkta en ómenntaður vegna þess að á menntaveginum kynnist hann ólíkum siðum, gildum og leiðum til að meðtaka nýja þekkingu á hinu óþekkta á jákvæðan hátt. Almenn menntun á að styrkja einstaklinga til þess að gera þá færa um að skoða sjálfa sig í samfélaginu og nýta þá þekkingu sem þeir öðlast á skólagöngunni í daglegu lífi. Námsgreinin lífsleikni fjallar um hvernig mögulegt er að búa nemendur undir líf og störf í lýðræðislegu samfélagi. Hún fjallar um þau réttindi og skyldur sem fylgja nemendum er þeir ljúka grunnskóla og verða almennt menntaðir einstaklingar í samfélagi. Með lífsleikninni er farvegur til að efla félagsþroska barna, efla siðvit og virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum. Markmið tíma í lífsleikni gæti til dæmis verið að skilja hugtökin jafnrétti og fordómar og að kynnast hugmyndum hvers annars og setja sig í spor þeirra sem litið er framhjá eða afneitað (Aðalnámskrá grunnskóla, almennur hluti, 2007: 9-11).
Árið 1684 skrifaði John Locke bréf til vinar síns Edward Clarke þar sem hann ráðlagði honum um uppeldi og menntun barnsins hans. Clarke bað Locke vin sinn um ráðleggingar því hann var ekki viss um hvort hann ætti að senda barnið í skóla eða mennta það heima. Locke gerði ítarlega grein fyrir öllum mögulegum leiðum, fjallaði meðal annars um fæðuhring barnsins, hvernig væri best að borða svo líkami og sál þrifust sem best, hvernig klæði væru heppilegust og svo framvegis. Aðalatriðin í sendibréfum Locke voru þó leiðir hans til að gera góða manneskju betri, styrkja einstaklinginn og rækta einkenni hans sem koma sér vel við að framleiða góða manneskju. Locke ráðlagði Clarke að mennta barnið heima enda væri það eina örugga leiðin til að komast hjá öllum prakkarastrikum stráka í skólum. Réttlæti, örlæti og fleiri dyggðir lærast ekki milli stráka sem kunna ekki að hegða sér og því væri ekki gott að senda barn í skóla sagði Locke. Clarke ákvað að mennta barnið sitt í einangrun heima og fara að ráðum Locke (Fullinwider, 2007: 498).
Nú er öldin önnur og í dag kemur ekki annað til greina en að börnin okkar hljóti menntun í skóla lögum samkvæmt. Locke og félagar höfðu val á sínum tíma, þeir þurftu að spyrja sig siðferðislegra spurninga og Locke treysti skólanum greinilega ekki til að efla siðvit. Í dag eru strákar og stelpur í flestum tilfellum saman í skóla, saman í tímum og því er mikilvægt að þau fái eðlilega leiðsögn um samskipti sem samfélagið telur til góðra siða. Samfélagið hefur ákveðið að allir séu saman, líka þeir sem haga sér illa og þeir sem teljast illa mótaðir siðferðislega (illa upp aldir heitir það á góðri íslensku), og því er viss áhætta fólgin í því að senda siðprúð börn í skóla af hættu við að þau spillist eins og Locke hefði kannski sagt. Við vitum hins vegar að þó börn geti átt erfitt með að stilla sig þegar leikur þeirra nær hámarki þá læra þau gjarnan undirstöðuatriði um rétt og rangt gegnum leik sín á milli.
Siðferðisuppeldi og menntun fer fram með samskiptum barna og foreldra í skóla, á heimilinu og í samfélaginu. Í lífinu læra þau um sársauka, svik, vanþakklæti, kvíða, sekt og hégóma. Þau öðlast líka ást, virðingu, kærleika, heiðarleika og í samskiptum við annað fólk læra börn að tileinka sér og nota þessi tilbrigði mannlegs eðlis. Siðferðisuppeldi snýst um að skilja grundvallaratriði í samskiptum manna þar sem hvert tilvik hefur ólík viðmið og gildi. Við byggjum upp hugmyndir almennt um siðferði sem geta kollvarpast í lífinu sjálfu, í raunveruleikanum. Aðalnámskrá grunnskóla og skólanámskrár hvers skóla, til dæmis í lífsleikni, geta bætt við þá þekkingu á grundvallaratriðum sem börnin hafa öðlast í samskiptum sínum við fólk. Hvernig við metum okkur sjálf er samofið við mat okkar á öðrum, hvernig við metum stolt, mont, hégóma, hroka, ást eða virðingu í fari annarra er lykilatriði í átt til eigin siðferðisþroska. Með því að vekja siðferðisvitund með börnum á fjölbreyttan hátt ætti að vera fær leið, til að þau temji sér í gegnum reynslu að virða menningu og gildi annarra í takt við sín eigin, með það að leiðarljósi að einstaklingar og samfélagið allt fái notið sín (Fullinwider, 2007: 498-501).
Samfélagið er mótað af einstaklingunum sem í því búa með öllu því sem snertir líf manneskju. Skólinn er stofnun sem hefur þá stefnu innan laga að rækta börn svo þau megi gera sem mest úr hæfileikum sínum í þá átt að verða góðir og gildir samfélagsþegnar. Okkur er nauðsynlegt að hafa reglur um flesta hluti því samfélag sem er óreiðukennt bitnar alltaf á einstaklingunum sjálfum sem eru samfélagið og því verður það veikt. Samfélagið hefur getið af sér skóla sem á að mennta börn til þess að vera þátttakendur í samfélagi sem forverar þeirra mótuðu og því verða þau að taka sjálf við keflinu. Heimakennsla eins og Locke mældi með er tæki sem nýtist þeim sem ekki hafa möguleika á að menntast á annan hátt. Bílpróf er skilyrði til að keyra bíl rétt eins og almenn menntun er skylda grunnskólabarna. Við viljum flest ekki að hver sem er geti keyrt bíl án þess að hafa lært undirstöðuatriðin með bílprófi og eins mætti segja að við viljum ekki að börnin okkar þekki ekki grundvallargildi lífsins þegar þau ljúka grunnskóla. Samfélagið þarfnast þekkingar sem lærist í gegnum nám og leik í skóla samhliða öðrum börnum. Samfélagið þarfnast þess að fólkið sem það hýsir sé sammála um að menntun sé undirbúningur fyrir börn að axla ábyrgð á þeim skyldum sem það krefst af þeim og að sá undirbúningur sé leið til góðs lífs fyrir einstaklinginn sem tekur tillit til manns og umhverfis og gerir þar með samfélagið gott (Goodlad, 1996: 95-96).
Magri
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.