Gamlárshlaup; persónulegt met. Gott ár á enda. Lífsreglur.

Í morgunn tók ég þátt í þriðja móti af sex í vetrarhlaupasyrpu UFA sem í dag var kennt við gamlársdag, eðlilega þar sem sá ágæti dagur er í dag! Nú hef ég hlaupið um fimm 10 km hlaup í móti og stefnan í vetur var að komast undir 45 mínútur. Í morgunn var gott hlaupaveður, 70% hálka, logn og -2°C og fullt af rösku fólki á undan mér til að halda mér við efnið. Ég bætti persónulegan árangur um 3 mínútur og hljóp þessa 10 km á 46,36 mínútum og því ætti ég með vorinu að nálgast markmiðið og ná því:)

Árið 2008 hefur reynst okkur fjölskyldunni gott þrátt fyrir þrengingar í efnahagi þjóðarinnar og annarra landa. Kreppan kemur við okkur eins og aðra en það er ekkert annað að gera en að halda áfram á jákvæðan hátt. Við höfum haft góða heilsu, nægan mat, hreint vatn, við eigum Ásu Eyfjörð og við  ætlum að eignast annað barn eftir nokkra daga, hámark 23 daga. Við eigum frábæra fjölskyldu og vini sem við höfum átt notalegar stundir með á árinu. Við höfum hvort annað og fyrir Kristbjörgu er ég þakklátur enda gerir hún mig að betri manneskju. Ég kláraði háskólagráðu númer tvö, fékk vinnu sem mig langaði til að vinna, Kristbjörg hefur frábæran vinnuveitanda og fer nú á ný í fæðingarorlof. Við höfum það sem við þurfum fjárhagslega til þess að lifa innihaldsríku lífi með húsaskjól og fæði og klæði. Við lifðum af góðærið og munum lifa af kreppuna.

Ég hef haldið dagbók á hverjum einasta degi nú í mörg ár og get ekki hætt. Einn daginn þegar ég er dauður munu börnin mín ef til vill hafa gaman af að lesa þar um daglegt líf mitt með þeim og Kristbjörgu. Í dagbókinni er ég með lítinn miða sem færist til með hverjum deginum sem líður þar sem á eru ritaðar lífsreglur.  Þegar Ása fæddist urðu þáttaskil í mínu lífi og ég vildi hámarka tíma minn með konunni minni og börnum. Til þess að minna mig á hvað ég þarf að gera í þessu lífi til þess að lifa því sem best fyrir mig sem manneskju þá setti ég niður eftirfarandi reglur sem mér finnst gott að renna yfir á hverjum degi. Við reynum stöðugt að feta ákveðna slóð, við munum alltaf renna til og detta og það er bara mannlegt. Við stöndum upp og höldum áfram. Þetta hefur virkað vel fyrir mig og ef einhver vill nýta sér þessar reglur að hluta eða heild þá endilega gerið það. 

Lífsreglur Gunnþórs Eyfjörð G.

Mér líður vel þegar ég hreyfi mig

Mér líður mjög vel eftir hreyfingu

Mér líður vel þegar ég drekk áfengi í hófi

Mér líður hryllilega illa á sál og líkama eftir mikla neyslu áfengis

Mér finnst gott að borða mat

Mér líður hryllilega illa þegar ég borða of mikinn mat

Mér finnst nammi gott en sama sagan ef ég borða of mikið

Sál mín og líkami þurfa á meðalhófi að halda svo mér sem manneskju líði vel

Það er undir mér komið og engum öðrum að bera virðingu fyrir sjálfum mér

Mér líður best með fjölskyldunni, hress og kátur á sál og líkama

 

Takk fyrir árið 2008 og megi næsta ár verða okkur öllum gott.

Magri

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson
Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson

Dalvíkingur, giftur Kristbjörgu, faðir Ásu Eyfjörð, Ægis Eyfjörð og Kára Eyfjörð.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband