Jólin nálgast

Eftir því sem árunum fjölgar hef ég minni þörf fyrir snjóinn. Kristbjörg minnir mig á hvað snjórinn sé skemmtilegur fyrir börnin og það er alveg rétt. Það er gaman að fara út með Ásu á snjóþotuna. Um síðustu helgi fórum við litla fjölskyldan í göngutúr um hverfið, milli húsa og á staði sem við höfðum ekki farið um áður. Kristbjörg er kasólétt (þunguð og komin langt á leið) og fer ekki langar leiðir fótgangandi. Á þessari stuttu göngu hittum við tvo hunda sem þóttu nærvera okkar góð, nokkra fugla sem fylgdust með í fjarlægð og fjóra ketti sem allir vildu knúsa okkur. Ásu Eyfjörð fannst þetta stórkostlegt svo lengi sem skepnurnar komu ekki of nálægt henni:) Það þarf ekki að leita langt til þess að öðlast djúpa hamingju, foreldrar sem upplifa barnið sitt hamingjusamt ættu sömuleiðis að upplifa hana á eigin skinni.

Í millitíðinni kom hláka og snjórinn fór. Í gær þornaði ég næstum upp á göngu minni úr vinnu á fjölfarinni umferðargötu þar sem svifryk og önnur mengun réðu ríkjum. Í nótt fékk hann hressilega úr honum eins og nágranni minn orðaði það svo skemmtilega og snjórinn lagðist yfir. Svifrykið er bundið, mér líður betur í kverkunum enda mengunin ekki til staðar. Það er fínt að hafa snjóinn í hæfilegu magni!

Jólin nálgast, mörg ljós komin upp og það er bara jákvætt. Mér líður vel innan um ljósin og lít svo á að jólin séu fyrst og síðast kærkomið frí fyrir fjölskylduna til þess að þjappa sér saman og njóta samveru. Trúarlífið er stór hluti þessarar hátíðar en ekki aðalatriði í huga margra Íslendinga. Sanntrúaðir menn eru þeir sem iðka trú sína öllum stundum en líka þeir sem einu sinni á ári gera hlutina upp með guði sínum. Við höfum öll þörf fyrir að trúa, hvert á sinn hátt.

Á okkar heimili er tilstandi (efnishyggju) fyrir jólin stillt í mikið hóf. Við njótum þessa tíma og nú sem aldrei fyrr þar sem ég þarf ekki að brölta til sjós, taka próf né annað sem áður var einkenni komu jólanna. Við búum til jólakort í fyrsta skipti, einföld og falleg kort með kveðju til vina. Við gefum börnum gjafir og gleðjumst með okkar fólki. Bökum einhverjar smákökur og gerum laufabrauð með fjölskyldunni.

Það er stutt í stóra pakkann sem er barnið okkar númar tvö. Ása Eyfjörð sem nú er 16 mánaða er dugleg að bjarga sér, gengur um gólf og spjallar mikið. Hún er nú alveg flutt í sitt eigið herbergi og búin að venjast því að sofa þar. Það verður skemmtilegt fyrir hana að fá leikfélaga, lítinn strák sem kemur til með að rífa og tæta fyrst um sinn eða þar til þau geta leikið saman. Lífið verður enn betra þó verðbólgan hækki.

Kennslan gengur vel. Þessa viku hef ég eingöngu kennt á unglingastigi, náttúrufræði, samfélagsfræði og tölvur. Unglingarnir eru góðir krakkar sem eru iðandi af lífi, fullir af hugmyndum sem umhverfi þeirra og bakgrunnur hefur mótað. Mínar hugmyndir í takt við námsefni mæta þeim á gatnamótum sem skólastofan er og þar leitast ég við að beina þeim í átt til alhliða þroska; að þau kunni að nýta sér kosti sína til þess að verða hæfar manneskjur í samfélagi manna, kunni að leita tækifæra og nýta þau, gera það sem hæfileikar þeirrar og áhugi bjóða, þekki réttindi sín og skyldur og svo margt fleira sem mótar manneskjur. Ég reyni alltaf að vera sanngjarn.

Magri


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Dísa Dóra

Já jólin verða svo sannarlega góð í kotum okkar þetta árið

Knús og kveðja til þín og þinna

Dísa Dóra, 29.11.2008 kl. 11:55

2 identicon

"stutt í stóra pakkann", Gunnþór þetta er yndislegt!

Annars þakka ég fyrir síðast og kannski lít ég á ykkur á mánudaginn þegar prófum er lokið.

Smelltu einum á stelpurnar þínar, Rakel

Rakel (IP-tala skráð) 12.12.2008 kl. 08:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson
Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson

Dalvíkingur, giftur Kristbjörgu, faðir Ásu Eyfjörð, Ægis Eyfjörð og Kára Eyfjörð.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband