Tími, að ganga, blak

Það er gaman að kenna, það er gaman að spreyta sig eftir að hafa mátað sig í hlutverkið ótal sinnum í huganum. Ég held að ég geti orðið góður kennari sem fær nemendur til þess að hugsa, þroska sjálfa sig og nýta þá hæfileika sem hver og einn hefur. Ég vil sjá nemendur spyrja spurninga, standa fyrir máli sínu, ígrunda þarfir sínar og þess samfélags sem þau eru stödd í. Það er mikilvægast að vera lifandi í náminu og kreista bækurnar og setja mark sitt á þær. Ég hoppa upp á borð ef ég þarf, ég segi sannleikann, ég leyfi nemendum að spyrja og tek tillit til allra. Það er enginn uppáhalds hjá mér.

Ég fór í blak með samstarfsfólki og mikið var það skemmtilegt, fer aftur. Ég er ágætur í blaki. Einu sinni sagði mér góður maður að enginn yrði alvöru kennari nema að hann spilaði blak, sennilega er það rétt. Margir vöðvar þurftu að vinna.

Það er svolítið magnað að eftir að ég kláraði skólann þá finnst mér stundum eins og ég sé að gleyma einhverju, þurfi að skila einhverju verkefni eða eitthvað álíka spennandi. Það besta er að ég þarf ekkert að skila einu né neinu svo ég geri bara það sem ég vil. Þarf samt að fara í mastersnám en ekki alveg strax. 

Í dag er 08.11. 08 sem þýðir að aðeins tveir mánuðir eru í 08.01.09 sem er dagurinn sem bumbukrílið er skráð í heiminn. Þetta kríli lætur mömmu sína finna meira fyrir sér og þrýstir nú á ýmsa staði sem er ekkert voðalega gott að láta þrýsta á. Mamman er dugleg og heldur sínu striki. Já tveir mánuðir. Mér finnst stutt síðan að Kristbjörg hringdi í mig um borð í Víði EA þegar við vorum á siglingu á Reykjaneshrygg, 12. maí, og sagði mér að annað barn væri byrjað að hreiðra um sig. Það var óvænt og frábært.

Síðan þá hefur samfélagið okkar farið á hausinn og fengið skell sem enginn bjóst við, allavega ekki svona harkalegan skell. Margir af minni kynslóð þekkja ekki mótlæti svo nú reynir á okkur að sýna hvað í okkur býr. Við munum halda áfram að lifa hversu há sem verðbólgan verður. Við munum komast í gegnum þetta og börnin mín munu fá sín tækifæri. 

Síðan þá hef ég lagt slorgallann og kokkagallann á hilluna, pakkað þeim inn, hendi þeim ekki því ég á dýrmætt bakland og reynslu í sjópokanum sem hefur reynst mér vel. Kennaragallinn passar vel á mig, rétt kominn í hann en finnst hann hafa beðið eftir mér lengi. Mannfræðin var ekki til einskis, færði mér tvo launaflokka. Allt sem við gerum er til einhvers gagns, allt.

Síðan þá hefur það besta í lífi okkar hjóna blómstrað. Ása Eyfjörð vaknar með bros á vör alla daga, blaðrar og bendir, frekjast og leikur og nú síðustu þrjá daga hefur hún af sjálfsdáðum staðið upp og gengið. Stífar æfingar undanfarnar vikur bera nú ávöxt og hún er farin að átta sig á að hún getur staðið ein upp og gengið eins og spítukall:) lífið er jú til þess að fínstilla hreyfingarnar. Hún er alveg yndislegt barn og það allra allra besta við þetta allt saman er að við foreldrarnir höfum nægan tíma eftir vinnu til þess að vera með barninu okkar. 

Við höldum áfram.

Magri


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Alltof langt síðan ég hef kíkkað á bloggið þitt en það var gott að lesa þetta blogg... Engin sjálsfvorkun yfir ástandinu heldur skein þakklætið í gegn hjá þér fyrir það sem þú átt og hefur.

Hamingjuóskir til ykkar þriggja með bumbukrílið....

Kv. frá Dalvík

Dagbjört (IP-tala skráð) 11.11.2008 kl. 08:48

2 identicon

Sæll og blessaður meistari

Til hamingju með nýja starfið, ég er viss um að þú stendur þig vel í því eins og öðru. Vonandi sjáumst við gressir á næsta ári

bestu kveðjur

Tóti

Þórarinn Ívarsson (IP-tala skráð) 11.11.2008 kl. 12:54

3 identicon

Þú verður góður kennari. Rosalegt að sjá hvað þú ert orðinn grannur, nú get ég ekki látið mitt eftir liggja í því. Þess ber líka að geta að þótt mannfræðin hafi gefið þér 2 launaflokka þá gaf hún þér líka margt annað, t.d. vinnubrögð og hugsanahátt. Það verður seint ofmetið.

Við erum í sömu sporum og þið að mörgu leyti, án þess þó að Sigrún sé ólétt, en það er hugsunin um það að hlúa að sér og sínum því kreppan kemur utan að, ekki innan frá. Við ræddum það lítillega að flytja til útlanda en niðurstaðan varð samt sú að hérna heima höfum við fólkið okkar sem skiptir meira máli en einhverjar krónur til eða frá. Og jafnvel þótt þær verði ansi margar eins og allt bendir til. 

En það er gott að þú sért orðinn duglegur að blogga á ný, þá kíkir maður oftar inn

Ívar Örn (IP-tala skráð) 12.11.2008 kl. 10:13

4 Smámynd: Þórhildur Helga Þorleifsdóttir

Það er ekki vafi í mínum huga að þú er og verður öflugur og flottur kennari sem berð hag allra nemenda fyrir brjósti !! Gaman að fá þig í starfsfólksflóruna í Lundó !!

Þórhildur Helga Þorleifsdóttir, 15.11.2008 kl. 13:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson
Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson

Dalvíkingur, giftur Kristbjörgu, faðir Ásu Eyfjörð, Ægis Eyfjörð og Kára Eyfjörð.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband