7.10.2008 | 14:57
Kreppa um kreppu frá kreppu til kreppu
Í mars velti ég fyrir mér hvort Ísland væri bananalýðveldi þegar allt var á niðurleið. Núna er ég sannfærður um að við erum bara venjulegt fólk sem tekur þátt í veislum af því tagi sem nú er á enda með hrikalegum afleiðingum. Við erum á engan hátt betri en aðrir, höfum ekki meira vit á efnahagsmálum en aðrar þjóðir og þurfum einfaldlega bara á því að halda að vera fólk sem hefur þörf fyrir tiltölulega jarðbundið líferni. Sveiflur eru ekki góðar, græðgi er það sem er nú að drepa niður efnahagsundrið sem engin innistæða var fyrir og ég vænti þess að fólk fari nú að átta sig á um hvað raunveruleg lífsgæði innihalda; öflugt velferðarkerfi, að eiga fyrir afborgunum og smá afgang til að ferðast og njóta lífsins, fjölskyldu og vina sem standa með manni í gegnum súrt og sætt. Ég hef áður sagt að ég spilaði lítið með í góðærinu og því líður mér ekki svo illa nú í kreppunni.
Ég hef lengi verið flokksbundinn sjálfstæðismaður og held að þeir hafi stjórnað landinu þokkalega, held allavega að margt gott hafi verið gert og aldrei séð ástæðu til þess að breyta. Núna sé ég að stjórnvöld gerðu mistök í kjölfar einkavæðingu bankanna. Veggir voru reistir en ekki nógu hátt þar sem bankarnir bólgnuðu svo mikið sem raun ber vitni í dag-alltof mikið. Það er alveg ljóst að þegar þessar mestu hörmungar efnahagssögu þjóðarinnar eru gengnar yfir þurfa einhverjir að bera ábyrgð. Ég veit að þetta er alþjóðleg kreppa en Ísland virðist ætla að fara sérstaklega illa vegna þess að nokkrir bjálfar léku sér með peninga sín á milli, otuðu rándýru lánsfé að fólki sem ekki hafði vit á því að það kæmi að skuldadögum og svo framvegis.
Ég er ánægður að stjórnvöld gripu í taumana og settu þessi lög en hvert framhaldið verður er ekki gott að sjá fyrir. Algjör uppstokkun mun eiga sér stað hér á landi og ég ætla að kjósa þann flokk sem þorir að draga menn til ábyrgðar, byggja upp kerfið kringum almenning fyrst og fremst, flokk sem vill leyfa fleirum að veiða fiskinn í sjónum, flokk sem vill lækka skatta núna, flokk sem vill leyfa fólkinu í landinu að kjósa um Evrópuaðild, flokk sem vill gera fólki auðveldara fyrir að vera heima eftir barnsburð án þess að lepja dauðann úr skel, flokk sem kemur í veg fyrir sveiflur á gengi og óðaverðbólgu, flokk sem leyfir einstaklingum að blómstra en ekki það mikið að það skaði fjölda annarra, flokk sem er hvorki of né van. Við þurfum hinn gullna meðalveg eins og ég hef ansi oft talað fyrir!
Ég ætla að nýta tækifærið og núllstilla mig í pólitík. Ég er bara venjulegur maður sem þarf á því að halda að launin mín hverfi ekki sökum útblásinna lána og ónýtrar krónu. Ég stend hér með utan allra stjórnmálaflokka og styð þá sem virkilega ætla sér að nýta kreppuna til þess að endumeta gildi okkar Íslendinga með fólkinu í landinu, horfa til framtíðar og byggja efnahagskerfið upp á sanngjarnan hátt þar sem venjulegt fólk getur notið þess að fá eitthvað fyrir sinn snúð þó það sé ekki hámenntað eða í útrás! Framsækið fólk þarf líka að njóta sín en eins og áður sagði þá þarf allt að hafa einhvern ramma svo óðagot verði ekki fjöldanum að fjörtjóni.
Ég er að mörgu leyti glaður að þessi kreppa kom svo hart við okkur því þá fær fólk gjarnan tækifæri til að endurmeta hlutina. Við eigum að njóta peninganna, geta borgað lánin og fengið lán á sanngjörnum vöxtum og notið afgangs sem ætti að vera eftir 8 tíma vinnudag. Peningarnir eiga ekki að stjórna okkur því þá fer eins og nú gerðist; margir blæða vegna græðgi, yfirgangs og misnotkunar á peningum sem í raun voru aldrei til.
Verum manneskjur og lærum af þessu rugli öllu saman, byggjum upp í kringum fólkið í landinu. Ég tók aðeins þátt í veislunni en fór snemma og því eru eftirköstin ekki svo hræðileg. Ég ætla að styðja þá sem eru sanngjarnir. Ég er bjartsýnn, tilbúinn í aðra veislu þar sem ÖLLUM í landinu er boðið og ef eitthvað verður afgangs þá að sjálfsögðu bjóðum við með okkur!
-------
Annars er ég bara á fullu í æfingakennslu í Lundarskóla og verð að kenna þar þar til í lok nóvember og í desember byrja ég að takast á við menntamálin frá sjónarhorni kennarans með tilskilin réttindi. Ása Eyfjörð braggast vel, glöð og ánægð. Kristbjörg er nokkuð hress á þessari meðgöngu númer tvö og það eru þrír mánuðir þar til litla kríli númer tvö kemur í heiminn. Við erum bjartsýn og hlökkum til.
Lifi Ísland:) munum bara að brosa og ekki henda of miklum skít hvert í annað.
Magri
Athugasemdir
Þú hljómar nú ansi vinstri grænn heyrist mér. Ég tek hins vegar fullkomlega undir þetta hjá þér, mér sýnist þú ekki geta kosið D listann mikið lengur því hann vill ekki sjá að taka upp aðra mynt. Og ef út í það er farið ekki VG heldur. Ég tek líka undir að það sé kominn tími til að endurmeta okkur sjálf, verðmætin og lífið og fjölskylduna. Við höfum gott af því að svelta aðeins, líka til að skera fituna frá, hjólhýsin, dýru pallbílana, draslið í geymslunni og svoleiðis. Við þurfum að minnka vinnuna og hugsa meira um fjölskylduna, reyna að ala börnin okkar upp. Svo má setja bankastjórana í gapastokkinn mín vegna og hirða eignir þeirra, hvar sem þær finnast í heiminum. Menn verða að taka ábyrgð á því sem þeir hafa gert og geta ekki gengið léttast af öllum íslendingum í gegnum þessa kreppu. Og hana nú. Síðan býð ég þig hjartanlega velkominn í kennarastéttina. Þú átt eftir að standa þig vel. Bið svo að heilsa Kristbjörgu, Ásu og ófæddum (sem verður væntanlega Gunnþór jr.):)
Ívar Örn (IP-tala skráð) 8.10.2008 kl. 14:36
Sæll Ívar. Sem fyrr erum við sammála um hvað fer okkur best, hvaða grundvallargildi ættu að vera í öndvegi. Það er alveg ljóst að ég er ekki að skipta um flokk heldur að standa utan þeirra einfaldlega til þess að vera samkvæmur sjálfum mér. Vissulega áttum við að stöðva þessa útrásarsnillinga fyrr en fólkið í landinu gat það ekki. Almenningur hafði það of gott til þess að vera að kjósa aðra flokka en þá sem stjórnuðu í síðustu kosningum. Davíð segist hafa varað stjórnvöld við þó svo að hann hafi staðið fremstur í einkavæðingunni. Sammála honum að við gátum ekki séð þessa ofsagræðgi fyrir... EN nú vitum við að alltaf verða einhverjir sem misnota tækifærin og því þarf að koma í veg fyrir það. Ríkjandi stjórnvöld bera alltaf ábyrgð á því þegar eftirlitsstofnanir klikka eins og nú hefur gerst og þá þurfa þau að axla ábyrgð með einhverjum hætti. Ég kýs (mitt atkvæði á og skiptir máli) þá sem gera fólki kleift að endurmeta gildin og lifa sómasamlegu lífi samkvæmt þeim.
Vonandi hittumst við fljótlega, kíkjum við ef við eigum leið hjá.
Kennarar eru gott fólk:)
Gunnþór (IP-tala skráð) 8.10.2008 kl. 15:03
Kvöldið Liverpool-bræður. Eitt er það sem við verðum að átta okkur á að hvorki ríkið né sveitarfélög geta haldið uppi atvinnu í landinu. Á okkar landi þá búa hvoki ríki né sveitrfélög til neinar útflutningstekjur.
Án útflutningstekna þá lifum við ekki, tja nema þið séuð í framsókanrflokknum og kyrjið endalaust Ísland bezt í heimi!!! (og gleymið að framsóknarflokkurinn réði Davíð Oddson sem seðlabankastjóa, þið munið þennan sem kom okkur á hausinn ahh, já og reyndar nokkra þar á undan!"!!). Að vísu má halda því fram að ríkið afli tekna í gegnum virkjanir en í þessu samhengi þá skiptir þær litlu máli. Það sem við þurfum núna er að komast úr þessu "panik" ástandi og einbeita okkur að núinu og nánustu framrtíð. Hinn venjulegi atvinnurekandi verður að fá tryggingu úr þessum gjaldþrotabönkum þannig að starfsmenn (og konur) fái launin sín um næstu mánaðrmót og lendi ekki í veseni með að leysa út erlendan gjaldeyri. Það virðist oft gleymast að í góðærinu, RIP, þá voru erlendir starfsmenn sem unnu "toppana" eða sáu til þess að hagvöturinn minnkaði ekki. Út frá deginum í dag þá er þessi tími liðinn og við íslendingar verðum að sá til þess sjálf áð hagvöxtur haldi áfram. Enn á ný er komið að því að grunnatvinnuvegir þjóðarinnar, ef einhver man hverjir þeir eru, munu sjá til þess að við spjörum okkuir ágætlega í gegnum þetta óvissuástand. EF og ég segi EF við höldum rétti á spöðunum þá getum við nýtt þetta mótlæti sem mesta gæfuspor fyrir okkur íslendinga inn í framtíðina. við höfum möguleika á að sníða velflesta ef ekki alla vankanta af okkar litlta hagkerfi okkar og staðið sterk á eftir. Sterk erum við og verum íslensk. Áfram Ísland.
Bjarni Th (IP-tala skráð) 10.10.2008 kl. 02:46
Auðvitað erum við sammála um grundvallargidin sem venjulegir, tilfinningalega tengdir menn.
Ég hef líka alltaf haldið því fram að þú værir enginn alvöru sjálfstæðismaður því þér þykir allt of vænt um litla manninn Palla og Braga.
Það má kannski taka undir að ekki hafi verið hægt að sjá fyrir ofsagræðgi og siðleysi, en samfélagið var orðið þannig að græðgi var ekki lengur álitinn löstur, heldur nauðsynlegur eiginleiki til að geta stuðlað að framþróun samfélagsins.
Bjarni, ég tek heils hugar undir með þér varðandi grundvallaratvinnuvegina. Þeir standa sterkt núna og munu fleyta okkur í gegnum þetta. Ég held að menn eins og Guðni Ágústsson og Steingrímur Joð munu ekki þreytast á því að minna okkur á því hverjir þeir eru. Þetta ævintýri er úti og hlaut ekki happy ending en eins og í boltanum þá er núna silly season. Því lýkur fljótlega og þá tekur við nýtt tímabil þar sem við þurfum að safna liði, leggjast í vörn og reyna að forðast fall. Og við gerum það með fiski, áli, nýsköpun og hugbúnaði fyrst og fremst.
Á meðan við styrkjum liðið smám saman þá þurfum við líka að hlúa að landbúnaði því eitthvað þurfum við að éta næstu árin og innfluttar vörur verða mjög dýrar fyrir okkur meðaljónana.
Ívar Örn (IP-tala skráð) 12.10.2008 kl. 18:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.