12.9.2008 | 09:15
Lífið er gott í Magrastræti
Lífið er ágætt sem fyrr en reyndar sagði ég við Kristbjörgu í morgunn að mér hafi aldrei liðið betur, allavega finnst mér ánægjulegt að vera manneskja á góðum stað með góðu fólki í annars nokkuð nöturlegum hnetti í þessum alheimi. Ása Eyfjörð varð 1 árs 24. júlí og hún braggast vel, var á tímabili erfið til matar en það virðist allt á réttri leið og í gær hefur hún aldrei verið þyngri sem er vel. Hún er með exem/ofnæmi sem blossaði upp í sumar þannig að við vorum með hana í nokkur skipti í fjólubláu baði á barnadeildinni hér á Sjúkrahúsi Akureyrar, það náðist vel niður. Margar nálastungur vegna ofnæmisprófa voru ekki vinsælar en dásamlegt starfsfólk fór vel með slíkar píningar og ég er þakklátur því góða kerfi sem við búum við hér á Íslandi, frábært starfsfólk, frábær tækni, frábær aðstaða. Ása spjallar mikið, gengur með og gerir alla þessa hluti sem fylgja þroska mannveru. Ása er afar ákveðin lítil dama sem við köllum bara frekja á góðri íslensku:) Hún er á dagheimili sem nunnur starfrækja og þar finnst henni gaman og gott að vera og okkur finnst hún vera í frábærum höndum; fjórar nunnur með 10 börn í góðu rými innan húss sem utan.
Kristbjörg byrjaði að vinna í ágúst á skrifstofu Samherja eftir gott barneignarfrí en í þetta skiptið stoppar hún stutt því litla barnið í leginu er komið á 23 vaxtarviku og er væntanlegt í heiminn 8. janúar 2009. Það verður gaman að takast á við tvö lítil börn en með góðri mömmu og konu sem Kristbjörg er þá kvíði ég ekki fyrir slíku. Lífið með Ásu hefur verið stórkostlegt og það verður gaman að sjá hana fá hlutverk "stóru systur" þó við munum ekki gleyma því að hún verður áfram litla barnið líka enda verður hún rétt að verða 18 mánaða þegar næsta barn kemur en við vitum ekki hvort kynið er þar á ferð og vissum það ekki heldur með Ásu. Kristbjörg er hress.
Ég byrjaði lokasprettinn í kennaranáminu í lok ágúst í Lundarskóla þar sem ég er í vettvangsnámi og æfingakennslu sem endar um miðjan nóvember og þá verð ég formlega titlaður grunnskólakennari. Við erum tvö saman að nema hér, Líney frá Þórshöfn er með mér en hún var í fjarnámi og við hittumst hér í fyrsta skipti. Samvinna okkar hefur gengið mjög vel enda er Líney afar vönduð kona með góða reynslu úr skólakerfinu. Leiðsagnarkennarinn okkar er heldur ekki af verra taginu því það er bekkjarsystir mín úr grunnskóla sem ég var með í bekk í 10 ár og hún er Helga Rún Traustadóttir, virkilega fagleg og góð manneskja sem hefur myndað sterkan faglegan ramma með okkur um skólastarfið. Andinn í Lundarskóla er frábær og þó skólinn hafi fyrir löngu síðan sprengt húsnæðið þá er unnið af miklum krafti þar sem sáttir sitja þröngt. Það getur vel farið svo að ég fari að vinna hér að loknu námi. Mér finnst ánægjulegt að vera kominn á stjá í skólakerfinu og hlakka til að takast á við fjölbreytt verkefni.
Lífið heldur áfram, við hittum fjölskyldu og vini reglulega og höfum ekki yfir neinu að kvarta þó kreppan andskotist. Við gerum okkar besta.
Daði frændi minn Þórsson á Bakka á afmæli í dag, hann er 7 ára gamall og fær afmælisknús.
Munið að brosa og láta ekki peninga stjórna lífi ykkar, við eigum að stjórna þeim til þess að skipuleggja og forgangsraða hlutum svo sem flestum líði vel. Hefði ekki verið nær að setja 300 milljarða í að kenna fátækum að yrkja jörðina sér til lífsviðurværis í stað þess að líkja eftir "big bang" og sjá hvað gerist við upphaf alheimsins eða hvað þessi tilraun þarna í Austurríki á að sýna! Hefði ekki verið betra að eyða 150 milljónum í að styrkja langveik börn heldur en að taka þátt í Norðurvíkingi, heræfingum. Ísland ætti að vera hlutlaust land hvað hernað varðar.
Jæja þetta var útúrdúr. Ég er ennþá að hlaupa og ekki á leiðinni að hætta því. Á mánudaginn hljóp ég 7km á 34 mínútum, á þriðjudaginn hljóp ég líka 7km, frí á miðvikudag en í gær hljóp ég 10km og í dag þarf ég að hlaupa 5-7 og á morgun verður létt æfing. Ég ætla að taka þátt í 6 vetrarhlaupum UFA í vetur þar sem farnir eru 10km. Markmið mitt er að hlaupa 10km á 45 mínútum í einhverju þessara hlaupa. Í febrúar/mars byrja ég að undirbúa mig fyrir næsta markmið sem er hálfmaraþon 21km sem ég stefni að að hlaupa í Akureyrarhlaupi í júní og svo aftur í Reykjavíkurmaraþoni í ágúst. Markmið eru góð og gaman að ná þeim. Vigtin hefur reynst mér góð og ég stend í 73-74 kg en hef sett stefnuna á 70kg sem myndi gera mér enn frekar kleift að hlaupa hálfmaraþon.
Ása Eyfjörð nýorðin 1 árs, algjör prakkari, algjör gleðigjafi.
Góða helgi
Magri
Athugasemdir
Lífið er yndislegt já - sérstaklega með svona gullmola sér við hlið og annan á leiðinni
Dísa Dóra, 12.9.2008 kl. 10:29
Gunnþór, það er gott að setja sér háleit markmið! Áfram svo :)
Rakel (IP-tala skráð) 17.9.2008 kl. 09:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.