Fullveldisdagur og samfélagið í dag, villigötur.

Í dag er fullveldisdagurinn. Við Íslendingar urðum frjálsir frá Dönum að mestu þennan dag 1918. Fullveldinu var fylgt eftir með sjálfstæði 17. júní 1944. 

Það er mikilvægt að minnast slíkra daga, heiðra minningu þeirra sem börðust fyrir sjálfstæði þjóðarinnar. Stoðir samfélags eins og Íslands eru tungumálið, menningararfur og kraftur fólksins sem landið býr. Það er nauðsynlegt okkur Íslendingum að minnast baráttu liðinna tíma til að átta okkur á að samfélagið sem við lifum í dag varð ekki til af sjálfu sér. Sterk bein og kjark þurfti til að fá fullveldi  og sjálfstæði og þann munað viljum við ekki missa. 

Jólin nálgast, bæklingar tröllríða bréfalúgum þar sem falskri vitund um lífsnauðsynlegt dót og drasl er komið fyrir í meðvitund okkar. Kapítalisminn er gott tæki til að hver og einn fái notið þess að vera einstaklingur með einstaka hæfileika. Þegar öfgar birtast er tækið orðið afleitt. Auglýsingar og áróður sem oftar en ekki höfðar til barna um "nýjasta æðið" er að mínu mati mjög slæm afleiðing annars ágætrar frjálshyggju. Viljum við ala börnin upp í tryllingi um veraldleg gæði eða kenna þeim að rækta sambönd við fjölskyldu og vini, guð sinn eða hvað annað sem fyrirfinnst? Börnin eru oft þau fyrstu sem taka póstinn og þar er að finna 30 blaðsíðna myndabækling frá Dótakassanum og þessum leikfangabúðum, börnin fara mörg hver á algeran yfirsnúning og "verða" að fá þetta og hitt! 2-3 dögum eftir að pakkarnir hafa verið opnaðir og 3 bílar hafa bæst í safnið er þetta bara hluti af menningunni "éta-skíta-búið-næsta" skilur ekkert eftir sig nema spenning og gleði eitt augnablik.

Ég mæli ekki móti framboði og eftirspurn, það er eðlilegt í okkar samfélagi, ég mæli með að samfélagið finni jafnvægi í eftirspurn og framboði. Það er ástæða fyrir öllu þessu bæklingaflóði, við látum auglýsendur troða uppá okkur hlutum til sölu sem við ómeðvitað förum að telja raunverulegar þarfir. Sannleikurinn er sá að ekkert barn og ekkert foreldri hefur raunverulega þörf fyrir alla skapaða hluti, við höfum þörf fyrir kærleik og gleði við að eignast eitthvað sem skilur eftir sig. Barn sem á 10 dúkkur eða 10 dráttarvélar hefur ekkert með eitt stykki til viðbótar að gera.

Óháð efnahag fólks verður barn ríkra foreldra eða foreldra sem kaupa dýra gjöf á yfirdrætti ekki betra barn en barn sem litla gjöf fær. Barn sem alið er upp í tryllingi efnahags þar sem smjör drýpur af hverju strái á mikla möguleika á að verða leiðinlegt og frekt barn en mögulega ríkt barn í framtíðinni. Fátækt barn verður þá líklega fátækt barn áfram en hugsanlega gott barn með hugsjón um bættan heim. Ég veit að þetta er vandmeðfarið og engin ein lausn á hvernig heimurinn geti verið betri, eða hvað?

Á hverri mínútu deyr rúmlega eitt barn af völdum Malaríu. Ég fékk Malaríu þrisvar sinnum er ég bjó í Ghana. Ég gat farið á sjúkrahús og fengið lyf vegna þess að ég átti pening og í kringum mig var fólk sem bjó við aðstæður sem leiddi mig frá dauða. Börn deyja líka úr alnæmi, þau deyja vegna þess að smitaður maður nauðgar móður þess í þeirri villutrú að þannig losni hann sjálfur við vírusinn. Peningar okkar sem við eyðum í óraunverulegar og ímyndaðar þarfir gætu bjargað þessum óupplýstu mönnum frá óábyrgu kynlífi, þannig er mögulegt að þeir sleppi við smit, þá þurfa þeir ekki að nauðga, konan lifir af og barnið fær að vaxa og dafna. Með auknu fjármagni aukast líkur fólks á menntun og uppfræðslu, fræðslu um að yrkja jörðina, fræðslu til að rækta fyrir sig og sýna svo fjölskyldumynstur geti komist aftur á í fátækustu ríkjum heims.

Í dag er dagur Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, UNICEF. Börn eru ekki litlir fullorðnir og þurfa ekki að vera þátttakendur í lífsgæðakapphlaupi okkar, hlífum þeim við þessu siðspillta samfélagi sem við erum látlaust að kynda undir. Það er engum nema sjálfum okkur um að kenna ef börnin okkar verða þau sem missa endanlega tökin á þessari Jörð með umgengni sinni og líferni. Okkur vantar stöðugleika.

 Fólkið sem barðist fyrir fullveldinu hafði hugsjón, ég mæli með að við höfum líka hugsjón og ýtum undir heilbrigða skynsemi nú í aðdraganda jólanna, kauptu aðeins ódýrari gjöf og gefðu deyjandi barni von með fjárframlagi eða skráðu þig sem heimsforeldri á www.unicef.is 

Ég hlusta ekki lengur á raddir sem segja að það þýði ekkert að berjast gegn straumnum, ef enginn stoppar og hugsar þá er vonin horfin. Við þurfum betri heim og best er að byrja á sjálfum sér.

Magri 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Á eina dóttur og styð einnig barnahjálp abc :) Það er bara yndislegt að fá myndir og bréf frá dömunni og ekki munar mig svosem um einhverja þúsundkalla á mánuði.  Bara að panta einni pizzunni minna haha.

Maður þyrfti eiginlega að getað tekið að sér að senda fullorðna í skóla með slíkum styrk þannig að einmitt fleiri viti til dæmis að þú losnar ekki við aids með því að nauðga. 

Besta jólagjöfin sem þú gefur er að gefa barni kost á betra lífi svo að jú endilega gerast heimsforeldri

Dísa (IP-tala skráð) 2.12.2006 kl. 00:46

2 identicon

... hvað getur maður sagt AMEN?

Soffía

Soffía (IP-tala skráð) 2.12.2006 kl. 10:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson
Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson

Dalvíkingur, giftur Kristbjörgu, faðir Ásu Eyfjörð, Ægis Eyfjörð og Kára Eyfjörð.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband