2.3.2008 | 19:00
Eiga börnin okkar ekki betra skilið? Eftir Sigrúnu Gísladóttur
Eiga börnin okkar ekki betra skilið? | Eftir Sigrúnu Gísladóttur Sveitarfélögin hafa stóraukið fjárframlög sín til skólahalds. Séu þau mál krufin kemur í ljós að þau felast að stærstum hluta í uppbyggingu glæsilegra skólamannvirkja, lengingu daglegs skólatíma og skólaárs, tölvuvæðingunni, innleiðingu skólamáltíða, lengri viðveru barna eftir skóla og fjölgun annars starfsfólks eins og skólaliða. Þetta ber allt að þakka og hefur fært skólahaldið til nútímahorfs. Vandi skólanna, og það á bæði við um leik- og grunnskóla, er hins vegar sá að sveitarfélögin hafa staðið þannig að kjarasamningum þeirra sem í skólunum starfa, bæði kennara og annarra starfsmanna, að skólarnir eru alls ekki samkeppnishæfir við hinn almenna launamarkað. Meðan stefna stjórnvalda, hér er ábyrgðin ekki bara sveitarfélaga heldur ekki síður ríkisins, er sú að halda uppeldis- og menntastéttum sem láglaunastéttum mun ástandið bara versna og versna enn frekar en nú er orðið. Skólarnir munu áfram verða undirmannaðir, þrátt fyrir stóraukinn fjölda erlendra starfsmanna og réttindalausra sem nú þegar starfa í skólunum. Foreldrar bera að vissu leyti líka ábyrgð á hvernig komið er með afskipta- og aðgerðaleysi sínu. Að láta það yfir börn sín ganga að þeim sé meinaður aðgangur að skólunum svo mörgum vikum skiptir, ekki bara einu sinni heldur aftur og aftur, meðan kennarar háðu árangurslitla kjarabaráttu, auðveldaði vissulega stjórnvöldum að viðhalda láglaunastefnunni. Ríkisvaldið getur ekki firrt sig ábyrgð því þessi vandi var óleystur, þegar sveitarfélögin tóku við skólunum. Fjármagnið sem þeim fylgdi dugði engan veginn til að standa undir öllum þeim breytingum á skólahaldi sem ákveðin voru með lögum frá Alþingi. Þegar starfsmannamálin lenda í ógöngum eins og nú er mun lítið fara fyrir framsæknu og metnaðarfullu starfi í stofnununum. Stjórnendur reyna það eitt að halda sjó frá degi til dags. Starfsmenn koma og fara á miðju skólaári og börnin njóta ekki þess stöðugleika og festu sem þeim er nauðsynleg. Litlu börnin á leikskólunum bera þess glöggt vitni, með óróa og vansæld, þegar svona örar mannabreytingar eiga sér stað. Í grunnskólunum fer allt metnaðarfullt skipulag úr skorðum og þeir sem eftir sitja og bera uppi starfið fyllast vonleysi og uppgjöf. Afleiðingin verður óhjákvæmilega sú, ef ekkert verður að gert, að enn fleiri munu hverfa frá skólunum. Kennarar tala um síauknar kröfur, þeir njóti minni virðingar og lægri launa, og taka við auknum fjölda erfiðra nemenda. Íslenskt samfélag breytist afar hratt og um leið uppeldisskilyrði barna og unglinga. Umsjónarkennarar segja að starfið þeirra sé svo breytt að ekki sé hægt að tala um sama starf og fyrir örfáum áratugum. Lengra kennaranám = finnskur árangur! Undanfarið hefur mikið verið rætt um lengingu kennaranáms í fimm háskólaár. Vísað hefur verið til góðs árangurs finnskra barna í Pisa-könnunum, en finnskir kennarar hafa meistaragráðu. Þetta hljóti að vera leiðin til að ná betri árangri í íslensku skólastarfi. Meiri menntun kennara er alltaf af því góða en að draga þessa ályktun er ofureinföldun á mun flóknara máli. Finnskt samfélag er á margan hátt mjög ólíkt samfélögum hinna norrænu þjóðanna. Ég hef átt þess kost að heimsækja finnska skóla, ræða við finnskt skólafólk og ekki síst við finnska foreldra, sem einnig hafa búið með börn sín í einhverju hinna Norðurlandanna. Finnskir kennarar njóta mikillar virðingar í samfélaginu. Finnskir foreldrar hafa mikinn metnað fyrir hönd barna sinna. Búa þau vel undir skólagönguna, fylgjast grannt með og axla ábyrgð á hegðun og námsframgangi barnanna. Með öðrum orðum, þeir hafa ekki eins og hinar þjóðirnar afhent stofnunum börnin sín til uppeldis og menntunar. Hver vill mennta sig í fimm ár á háskólastigi til starfs þar sem launin duga vart til framfærslu? Hvernig verður staðan bætt? Til þess að snúa þessari óheillaþróun við verða allir að taka höndum saman, ríki og sveitarfélög, samtök kennara og foreldrar. Engu foreldri hef ég kynnst sem vill ekki barni sínu það besta. En foreldrar verða að skynja og skilja ábyrgðarhlutverk sitt og forgangsraða í samræmi við það. Kennarasamtökin verða að vera mun sveigjanlegri í allri samningagerð og tilbúnari til nauðsynlegra breytinga, sem miða ekki síst að hækkun grunnlauna, en á þeim byggist nýliðun í stéttinni. Það vekur athygli að menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, bæði skynjar og skilur vanda kennarastéttarinnar í launamálum og afleiðingar þess fyrir samkeppnishæfi þjóðarinnar, og tjáir sig um það opinberlega. Aðrir ráðherrar og alþingismenn verða líka að horfast í augu við vandann og leita lausna til framtíðar. Hér þarf sameiginlegt átaka allra að koma til, stjórnmálamanna í ríkisstjórn og sveitarstjórnum, atvinnulífsins og hins almenna borgara, því að nú má engan tíma missa, ef ekki á illa að fara. Við vitum öll að framtíð samfélagins byggist á uppvaxandi kynslóð. Mistök á þeim vettvangi verða ekki bætt eftir á. Birt í Morgunblaðinu 22. febrúar 2008 |
Af mbl.is
Íþróttir
- Guardiola: Gat ekki farið núna
- Ég þoli það ekki!
- Fer alltaf í klippingu hjá Stjörnumanni
- Ég hef engar áhyggjur af þessu
- Fram nálgast toppbaráttuna
- Guardiola samdi til 2027
- Þörf á innisundlaugum á Akranesi og Akureyri
- Viggó óstöðvandi í naumum sigri
- Gerðu landsliðsmarkverðinum skráveifu
- Jafnt í Íslendingaslag City áfram
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.