6.11.2007 | 10:48
Drottningarafmæli
Í dag er 6. nóvember sem þýðir að drottningin af Helgamagrastræti er 28 ára í dag, fyrsta afmælið hennar Kristbjargar sem móðir. Eins og drottningu sæmir verður farin skrúðganga í opnum vagni svo þegnarnir geti kastað kveðjum til hennar hátignar,seinni part dags verður lokuð móttaka í höllinni!
Það er gaman að eiga afmæli og við samgleðjumst því eiginkonu og móður, til hamingju með daginn elskan, Gunnþór og Ása Eyfjörð. Kristbjörg er góð kona og hefur tvímælalaust dregið fram góða hluti í mér og vonandi hefur mér á móti tekist hið sama, allavega höfum við saman búið til barn sem gerir okkur betri daga og dregur fram áður óvirkjaða hæfileika. Jafnvægi milli aðila hirðarinnar er lykilatriði í samlífi, að allir fái að njóta sín sem einstaklingar og sem hluti af heild.
Kristbjörg fékk Cintamani gönguskó í afmælisgjöf enda nauðsynlegt að vera vel skóaður við vetraraðstæður með barnavagn.
Hún á afmæli í dag, hún á afmæli í dag
---------------
Ég hljóp 10 km í gær, hafði áður sett mér það markmið að hlaupa þá vegalengd næsta sumar á undir 60 mínútum. Í gær fór ég vegalengdina í fyrsta skipti án þess að stoppa og tíminn: 56 mínútur og 34 sekúndur! Afar sáttur við þessa frammistöðu en líkaminn er ansi slappur í dag en eflaust ánægður að fá loksins að hreyfa sig reglulega. Kílóastaðan er 82-83 kíló og því eru um 4 kg farin síðan ég byrjaði í byrjun ágúst, snemma á þessu ári sá ég 89 kg og það kemur ekki fyrir aftur, ég ætla í 75kg. Þolið hefur aukist gríðarlega og er allur að styrkjast þó ég sé aumur inn á milli.
Lífið er langhlaup og það er betra að springa ekki í upphafi! Ég tók ansi harðan sprett í ólifnaði áður en ég kynntist afmælisbarninu en það þurfti bara góðan tíma til þess að hlaupa af sér hornin. Ég kláraði sprettinn og nú finnst mér ég sannarlega vera á beinu brautinni því það sem drepur mig ekki styrkir mig og ég hef aldrei verið hræddur við svolítinn öldugang í lífinu, nú hinsvegar stjórna ég sjálfur för. Til þess að lífið verði áfram farsælt reyni ég að feta hinn gullna meðalveg og vinna lífsverkefnin af heilum hug.
Í dag ætla ég að læra, búa til kennsluáætlun með greinargerð þar sem efnisvali og kennsluaðferð er gerð grein. Ég ætla að sinna afmælisbarninu og litla barninu sem dafnar vel og gefur frá sér undarleg hljóð. Afmælisbarnið dafnar líka vel.
Allir hressir
Magri
Athugasemdir
Innilega til hamingju með daginn :) Hafið það gott og Gunnþór svakalega ertu duglegur !!!
Rósa María (IP-tala skráð) 6.11.2007 kl. 11:31
Innilega til hamingju með konuna, sendum henni bestu heillaóskir úr Austurbyggðinni :) hún lengi lifi, húrra, húrra, húrra!!!!!!!
Hugrún Ósk og Jón Ingi (IP-tala skráð) 6.11.2007 kl. 18:13
Takk fyrir síðast.
Til hamingju með daginn Kristbjörg. Já & til hamingju með konuna Gunnþór.
Bestu kveðjur úr Skútagilinu.
Helga, afsprengi og viðhengi;)
Skafti, Helga & Þorsteinn (IP-tala skráð) 8.11.2007 kl. 18:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.