15.9.2006 | 10:33
Nöbbóttur humar!
Af hverju finnst fólki humar svona góður? Er það vegna þess að hann er ekki hversdagsmatur á heimilum, er það vegna þess að hann er frekar dýr og þá er hann munaðarvara? Allavega er ekki humar á hverjum degi í Magrastræti en fiskur er hér að jafnaði þrisvar í viku. Fiskar sem til eru í forðabúrinu frystikistunni eru ýsa, þorskur, lúða, koli. silungur, skötuselur, humar og ég man ekki meir.
Allavega finnst okkur hér humar góður og við ætlum að gera okkur humar í kvöldmatinn sem verður baðaður í smjöri og ítalskri hvítlauksblöndu, bakaður í ofni við 190°C í ca. 6-8 mínútur, borinn fram með hrísgrjónum, salati, hvítlauksbrauði og ísköldu búlgörsku Tamarini hvítvíni. Humarinn veiddum við í sumar á Björgvin og því þarf ekki að greiða fyrir hann:)
Ég man þá tíð þegar kjúklingur var bara á sunnudögum annað slagið enda var hann þá dýr matur og allavega var þetta munaðarvara á þeim tíma er ég var ungur maður. Í þá daga þótti mér kjúklingur góður matur og í dag borðum við kjúkling tvisvar í viku og mér þykir kjúklingur alltaf jafn góður matur þó hann sé ekki svo rosalega dýr.
Annars allir að ná heilsu á þessu heimili, búið að leka hor úr nös og sýklar úr kverkum síðustu tvo daga, mikið hnerrað og hóstað sem er vissulega mjög huggulegt og aðlaðandi.
Við höfum fengið okkur nýtt rúm frá Betra bak, tempur heilsudýnurúm sem er að byrja að aðlagast að okkur, lofar góðu.
Framundan er helgi, póker annað kvöld og Chelsea-Liverpool á sunnudaginn en í bland við þetta er lærdómur og almenn tiltekt á heimilinu.
Munið að borða fiskinn, það er ekki nóg að eiga hann í kistunni!
Orð dagsins er nöbbóttur. Mikið agalega er drengurinn nöbbóttur. Mikið er drengurinn smáþýfður í framan. Flestir kannast þó við merkingu orðsins á þennan veg: Mikið er drengurinn bólugrafinn.
Magri
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.