Sæbjörg og Jóhannes

Í dag og í gær var ég á endurmenntunarnámskeiði um borð í skólaskipinu Sæbjörgu sem er skóli Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Mjög gott að fara yfir eldvarnir, skyndihjálp og aðra þætti sem varða öryggi sjómanna því enginn getur útskrifast úr öryggisfræðslu. Því miður er það svo á þeim skipum sem ég hef verið á að menn gefa sér ekki tíma til að halda æfingar, þjálfa mannskapinn svo ekki þurfi að byrja á því að lesa og rifja upp þegar eitthvað kemur fyrir, til sjós gerast hlutir oft mjög hratt og því þarf að bregðast fljótt við. Æfingar og samvinna er lykill að öryggi sjómanna og annarra manna.

Ég skrapp í golf í dag, skaut 60 golfboltum á æfingasvæði og voru þær fyrstu kúlur sumarsins en vonandi verða þær fleiri. Í fyrra fór ég einu sinni og það var þegar ég var "steggjaður" (finnst þetta ljótt og hallærislegt orð yfir góðan dag með vinum mínum) en það var mjög skemmtilegt. Annað er ekki að frétta nema að Kristbjörg er hætt að vinna samkvæmt læknisráði enda eru nú bara 2 vikur í erfingjann og því er hún heima í rólegheitum að hlusta á ástkæran eiginmann sinn segja brandara. Reyndar sló hann blettinn í gær og skúraði Magrastræti í dag eftir golf, fínn maður sá!

Kristbjörg gaf mér sjónauka í útskriftargjöf og nú get ég horft á húsið hans Jóhannesar Bónusgríss sem er hér yfir í Vaðlaheiði, gluggarnir kostuðu 50 milljónir og eru með dimmer, það rennur líka lækur í gegnum húsið en Jónínu Ben sé ég hvergi??!! Skrítið. Jóhannes má byggja eins mikið og flott fyrir mér, hann byggði veldi sitt upp með dugnaði og nýtur nú ávaxtanna (ég fæ líka stundum ávexti í Bónus). Ætli Jóhannes sé með stærri sjónauka og fylgist með mér þegar ég grilla?

Húsið okkar er orðið barnalegt, áður óþarfir hlutir eru nú tilbúnir til notkunar til að fæða, klæða, þrífa og kúra. Við eigum nokkra daga eftir sem gift og barnlaus. Í fyrra vorum við ógift og með kött, Herra Moli dó 30. júní, við giftum okkur 8. júlí og nú kemur júlí og barn sem við bæði þráðum. 

Lífið er gott en ekki sjálfsagt, munum eftir því. Áðan komu ungar stúlkur úr skautafélagi að safna dósum og flöskum fyrir skautaferð til Slóvakíu, þær fengu að tæma tunnuna. Mér finnst mjög gaman ef krakkar og félagasamtök koma í hús að safna umbúðum (frábært ef þau gætu fengið eitthvað fyrir allan pappírinn!!). Njótum lífsins.

Ég ætla að fara enn varlegar í umferðinni, gæta að mér og náunganum. Ert þú til í það?

Magri 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég fer ekki ofan af því hvað það er nice að lesa bloggin þín á meðan maður ruslar í sig seriosdisknum á morgnanna:) Bara yndislegt! Og jújú ætli maður verði ekki að minnast á það að á morgun er ár liðið síðan þið félagar komuð hressir á Abaco í pottinn og smelltu á þig sundkútum og tilheyrandi:) Sem þýðir að ár er liðið frá því að við Skafti hittumst:) Langar að þakka ykkur Kristbjörgu enn og aftur fyrir það allt saman:) Yndislegt!:) Nú er já farið að styttast í litlu ungana en þetta er bara spennandi:) Góða helgi bæði tvö, já eða þrjú;)

Helga Hrönn (IP-tala skráð) 30.6.2007 kl. 12:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson
Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson

Dalvíkingur, giftur Kristbjörgu, faðir Ásu Eyfjörð, Ægis Eyfjörð og Kára Eyfjörð.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband