14.6.2006 | 09:23
Sláttuorf og sumarblóm
Í gær var tími sumarblómanna, í fyrradag var vetur, í dag er haust............ svona er að búa á Íslandi, það er hending ef tveir góðir dagar liggja saman, altso veðurslega séð því auðvitað eigum við ekki að láta veðrið stjórna dagsformi okkar.
Ég náði að slá garðinn á mánudaginn, heilmikið gras sem ég fór með á þar til gerðan grasstað, mínútu seinna fór að rigna og þá var gott að vera búinn með fyrsta slátt. Ég setti upp girðingu milli húsa og sáði grasfræjum en vinsæl umferðaræð krakka hefur orðið til þess að bakki milli húsanna er moldarflag sem kemur líka til af því að sólpallurinn tekur birtu frá jarðveginum. Vonandi grær þetta svo allt verði yndislegra.
Í gær þrifum við sólpallinn því í dag var ætlunin að bera á hann pallaolíu og gera fínt en veðrið er ekki alveg að gera sig svo það verður að bíða. Í gær fórum við Kristbjörg líka í leiðangur til að finna tunnu undir flöskur og dósir sem hægt er að geyma úti en ekki í Bónuspoka undir vaskinum í eldhúsinu! Semsagt er hægt að kaupa fínar tunnur í til dæmis Húsasmiðjunni á 6000kr, við fórum bara niður á bryggju þar sem allt er fullt af drasli sem enginn veit hver á, fundum stóra bláa tunnu undan klórefni til skipanota, kipptum henni í skottið og heim með lögguna á hælunum! Nágranninn var viss um að sullið í tunnunni væri stórhættulegt og myndi springa um leið og hún opnaðist. Tunnan innihélt smá leka af klór sem stofnaði engum í hættu nema járnsmíðagengi sem mátti alveg missa sín. Næsta skref er að skera ofanaf tunnunni í sjálfstæðislitunum og setja í hana ruslapoka.
Í gær kl. 10°° fór ég til Ólafar 90 ára gamallar ömmu Kristbjargar sem býr ein og er eldhress þrátt fyrir öll árin. Við fórum í leiðangur til að kaupa rafmagnssláttuorf en það gamla var ónýtt og ekki borgaði sig að panta varahluti. Ólöf hefur sterkar skoðanir og í þremur búðum sagði hún fjölda afgreiðslumanna hvernig gamla orfið var, hvernig notkunin á því var og hvernig best væri að hafa nýja orfið. Við skoðuðum nokkur orf og á endanum keyptum við fínasta orf í Húsasmiðjunni með tveimur þráðum en það gamla var með einum. Það er bara gaman að fara í búð með konu sem tekur hlutunum ekki sem sjálfsögðum, hún vill þjónustu og þolir ekki afgreiðslufólk með hangandi haus enda þurftum við í öllum búðunum að víkja frá fyrsta afgreiðslumanni sem var sumarafleysingabarn sem ekkert vissi og það þurfti að sækja ,,manninn sem veit allt". Manneskja sem er orðin 90 ára vill nefnilega hafa hlutina góða, einfalda og meðfærilega því hún gerir þessa hluti sjálf að mörgu leiti eins og að slá með orfinu, setja niður blóm og fleira. 16 ára sumarafleysingastelpa með tyggjó er óþolandi kostur fyrir afgreiðslu í slíkri ferð, sennilega er það bara eðlilegt en ég fer oft í Byko og þessar búðir og er farinn að sneiða framhjá þessu ágæta fólki því nánast alltaf þurfa þau að snúa sér til annarra. Við Ólöf fórum svo heim, settum orfið í stand og ég renndi meðfram lóðinni sem nýbúið var að slá, á meðan var hún með hjólbörur og skóflu og garfaði í lóðinni sem hún er að rækta upp að hluta.
Ólöf nýtti að sjálfsögðu ferðina og við fórum í blómabúð, hún vissi flest betur um blómin en maðurinn sem afgreiddi en hann hafði bara gaman að kerlingunni og vissi alveg hvað hann var að gera enda keypti hún stjúpur og matjurtir sem hún borðar allt sumarið. Þetta var reyndar bara fyrsta ferðin í blómin því hún dundar við þetta allt sumarið og þurrkar svo hluta af þeim um haustið og föndrar á jólakortin. Í fyrra aðstoðaði hún og leiðbeindi okkur með garðinn og blómin, það er bara gott að eiga svona kerlingu að og tíminn sem ég eyði með þessari konu er alltaf lærdómsríkur.
Milli verka horfi ég á HM sem er skemmtilegt mót þó mitt lið frá Ghana hafi tapað fyrsta leiknum gegn Ítalíu.
Framundan er 17. júní og við ætlum að vera búin að setja blómin niður og mála pallinn fyrir þann dag. Á mánudaginn skreppum við til Reykjavíkur í verslunarferð fyrir giftinguna, kaupa skó og skraut.
Magri
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.