20.3.2007 | 14:50
Rólegt á miðunum, góð stefna þó.
Ég er á góðri siglingu með verkefni þau sem skila þarf í lok apríl, mjög jákvætt skref í mínu lífi og námi að vinna verkefnin jafnóðum. Með kennaranáminu hef ég dundað við fyrri syndir sem í þessu tilviki er BA-ritgerð í mannfræði. Á tímabili mannfræðinámsins var ég ekki tilbúinn í að taka lífinu alvarlega, kannski var ekki of mikil ástæða til. Í dag hef ég fundið tilganginn við að skrifa þessa ritgerð og það er ljóst að ég skila þeirri vinnu 11. maí. Stór górilla hefur setið á bakinu á mér og oft hef ég haldið að hún myndi hafa mig niður, fólkið mitt barði mig áfram og ég sé fram á að losna við górilluna og held að ég verði betri maður á eftir.
Það er svo mikilvægt að maður hafi gaman af því sem maður er að læra, mér gengur mjög vel í skólanum og það er vegna þess að ég hef gaman að þessu, veit ég er á réttri braut. Það skemmtilega við þetta líka er að BA ritgerðin varð skemmtileg í kjölfarið og ég fann nýjar víddir sem nýtast á báðum pólum. Ég mun sigra górilluna, geri mitt besta.
Við fórum til Dalvíkur á laugardaginn, maraþonheimsóknir, fyrst kaffi hjá ömmu og afa, dásamlegur kvöldmatur hjá mömmu og pabba þar sem við snæddum lambahrygg, við kíktum til Freys og Silju og enduðum í Garðshorni þar sem við hittum Bjarna sem var þar hjá systur sinni. Við kíktum á Bakaríið sem er barinn á Dalvík, gríðarleg stemming þar eða hitt þó heldur svo við kíktum á bari Akureyrar. Fínn dagur með fínu fólki.
Það er stutt í kosningar. Ég hef velt fyrir mér stöðu mála, mörgu leyti sammála Steingrími J. en forsjárhyggja og þvingandi jafnaðarhugmyndir hans eru mér ekki að skapi, ég vil sjá græna umhverfisskán á Sjálfstæðisflokkinn og ég vil að atvinnulífið fái að jafna sig í einhvern tíma, hætta stórframkvæmdum og eindregið hætta álvitleysunni. Ekki sé ég nokkra glóru í að kjósa Samfylkinguna og er það aðallega vegna lélegrar stjórnunar Ingibjargar. Frjálslyndir eru með Kidda sleggju og fleiri snillinga sem ég vil ekki sjá á þingi. Ef Guð er til eins og skoðanakönnun Magra bendir til þá er hann sá eini sem getur bjargað Framsóknarflokknum, Jón Sigurðsson er ein sorglegasta sending sem Alþingi og Stjórnarráðið hafa fengið og það alveg án þess að hafa fólkið í landinu á bakvið sig. Burt með Framsókn og ég vil sjá Vinstri græna í stjórn ásamt Sjálfstæðisflokknum, það væri landinu til góðs, ég trúi að það sé hægt.
Lifið heil
Magri
Athugasemdir
Endilega verðið í sambandi í borginni:) Gætum snætt saman kaffi og kleinur í bakaríi eða eitthvað slíkt:) Langt síðan síðast:) Glæsilegt hvað gengur vel með námið og að lífið sé bara tóóóm hamingja og gleði gleði, getur maður beðið um eitthvað meira??!! Það held ég ekki:) Skilaðu kveðju til Kristbjargar...:)
Helga, Skafti og krílið
Helga Hrönn (IP-tala skráð) 22.3.2007 kl. 11:13
Veistu það, ég tek undir með þér með þetta stjórnarmynstur, ansi spennandi og er að fá virkilegan hljómgrunn.
Addi E (IP-tala skráð) 26.3.2007 kl. 21:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.