Maður eins og ég eða þú

Ég fór í jarðarför í gær, eldri maður var jarðsettur, maður sem ég umgekkst á hátíðisdögum, fermingum, jarðarförum og fleiri tilfallandi ættarmótum ef svo má segja. Maður sem vann til sjós og svo í landi það sem kallast í dag slor eða erfiðisvinna, maður sem skilur eftir sig mikinn og góðan hóp barna og afkomenda þeirra. Þetta var góður maður. Presturinn ræddi um lífið og tilveruna, tilurð og návist guðs og fleira sem er þægilegt og gott að hlusta á við slíkar aðstæður. Það er á slíkum stundum er ég finn fyrir trúarhjali innra með mér, að einhver góður guð sé til sem verndar og gefur. Því miður er þetta svo fljótt að breytast þegar athöfnum lýkur, fréttir af hörmungum milli hópa í trúarstríði, viðurkenna ekki þetta ríki því þar er önnur trú, börn deyja sem aldrei fyrr þrátt fyrir að góður guð sé alls staðar, er það mjög góður guð sem fórnar saklausum börnum á hverri sekúndu? Eða eru það bara vondir menn? Maður spyr sig.

Presturinn benti okkur líka á að við þyrftum ekki alltaf að líta langt í burtu til að finna það góða, að vakna með makanum, með börnunum og njóta þess að horfa út um gluggann vitandi það að þar er hreint loft sem þú getur andað að þér án allra skoðana og hættu á að vera drepinn. Það eru litlar líkur á að ég verði drepinn á Akureyri fyrir að halda með Þór í knattspyrnu en búa í KA-hverfi! Mögulegt þó því heiftin í manninum fer stöðugt versnandi. Fólk flokkar enn frekar manneskjur eftir stjórnmálaskoðunum, litarhætti og nú í dag helst eftir trúarskoðunum því ákveðnir hópar eru hættulegri en aðrir! Hryðjuverkamenn eru ekki kristnir, þeir eru brúnir og tilbiðja Allah, segja þeir blindustu!

Blindasta þjóð í heimi er besta þjóð í heimi sem á fallegustu konurnar, sterkustu mennina sem nota mest af sterum, feitustu börnin, leiðinlegasta og frekasta gamla fólkið, auk þess að öryrkjar eru uppáþrengjandi, vextir eru hæstir fyrir utan Zimbabwe, við eigum mest af fiski en borðum lítið því hann er svo dýr miðað við nýjan flatskjá, kennarar eru plága sem vilja sambærileg laun og annað háskólamenntað fólk, kennarar á Íslandi nenna ekki að vinna og taka því starfsdaga tvisvar á ári þar sem stundað er fjárhættuspil úr samningasjóði, sjómenn hafa aldrei fengið hærra verð fyrir fiskinn en skulda mest í yfirdráttarlán,  kaupsýslumenn stunda fjárglæfrastarfsemi sem kallast útrás en er í raun í boði öxulvelda hins illa því allir vita að peningarnir eru illa fengnir, ný námskrá grunnskóla tók gildi 1. janúar og er samin af Björgólfi Thor og Pútín Rússlandsforseta.

Ég held að Íslendingar séu hryðjuverkamenn, gildi samfélagsins eru hraði og frami á þeim grunni að skammtímagróði sé mun betri en fjárfesting í uppeldi og alhliða þroska barna, við höfum gleymt okkur í samtímatryllingi sem gefur af sér vindgang og viðbjóð í formi slitinna mannlegra tengsla og samlyndis. Fólk giftist frammi fyrir guði en skilur jafnharðan því guð fyrirgefur allt, guð fyrirgefur barnaníðingum og jafnvel dómurum sem sleppa þeim á göturnar án aðstoðar. Guð fyrirgefur Ólafi Ragnari fyrir að taka sæti í þróunarráði Indlands, Halldór Blöndal gerir það ekki því þeir eru gamlir óvinir úr pólitík! Vondir menn eða valdalaus guð?

Rugl og vitleysa, ég hef aldrei verið nær því að segja mig flokknum, ekki að ég hafi fundið betri flokk en mér verður alltaf ljósara að fólk vinnur ekki að sannfæringu, fólk vinnur ekki samkvæmt því ferli sem þarf til að sem flestir njóti góðs. Fólk þorir ekki almennt að standa upp og segja hvað því raunverulega finnst því það er hrætt við að missa stöðu sína, þannig gerist ekkert sem orðið getur til góðs.

Ég ákvað að læra til kennara því mig langar að koma mínum hugmyndum um betri heim beint til barnanna, til foreldra og til allra sem enn hafa í sér huggulegt eðli um heim sem er í jafnvægi. Ég ætla ekki að standa fyrir framan börnin og reyna að halda því fram að guð sé ekki til, kannski er guð til. Ég vil benda krökkum á hver raunveruleikinn er, staðreyndir lífsins og benda þeim á að þau hafa raunverulegt val um hvernig þau andlega og efnislega lifa lífinu og ég skal aðstoða hvern þann sem um hjálp biður.

Ég veit að jöfnuður verður seint algjör og ég leita ekki eftir því í dag, ég trúi á að fólk megi og geti skarað framúr af eigin verðleikum, ég vil að fólk fái sín tækifæri til að lifa fullnægðu lífi, ef eitthvað klikkar þá eigum við að fá hjálp, við eigum að hafa það í okkur að aðstoða og veita hjálp, ég sá það í gær að eitt faðmlag frá mér gerði mikið gagn á erfiðum tíma einstaklinga sem misstu föður, afa og eiginmann. Vandamál og erfiðleikar eru og verða til staðar en við getum og eigum að tala saman, finna sameiginlega lausn sem hentar sem flestum vel.

Aristóteles lifði 384-322 fyrir fæðingu Jesú. Hann sagði að menn myndu vaxa af viðfangsefnunum og til þess að manneskja verði hamingjusöm, geti þroskast í sátt við sig og aðra þá þarf hver og einn að skapa sjálfan sig. Dygð okkar manna í dag mætti vera að mínu mati meira í takt við Aristóteles, að rata rétt meðalhóf milli tveggja öfga, að hver og einn fái tækifæri til að klífa fjallið á eigin forsendum og ná sínum hátindi þó ekki tróni hann efst á fjallinu, þessar hugmyndir mun ég hafa í öndvegi er ég byrja að leiðbeina krökkum á vandrötuðum vegi.

Þetta hljómar klisjukennt og mörgum finnst vonlaust að snúa til baka frá taumlausri efnishyggju, mér finnst það ekki og mér líður vel með þá skoðun, vonandi koma fleiri með mér.

Annars gengur allt vel, kostir og gallar en almennt erum við sátt.

Magri 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

halló elsku karlinn minn æðisleg bloggsíða ég er að skoða hana í fyrsta sinn og kemur skemtilega á óvart, þú ert rosalegurég held áfram að fylgjast með þér mér sýnist ekki veita að því en gangi þér vel kæri skólabróðir.               

kærar kveðjur frá mér til þín selma sibba akureyri.  þessi sæta manstu

selma sigurbjörnsdóttir (IP-tala skráð) 15.2.2007 kl. 22:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson
Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson

Dalvíkingur, giftur Kristbjörgu, faðir Ásu Eyfjörð, Ægis Eyfjörð og Kára Eyfjörð.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband