Varðturninn, súrmatur og Svartur köttur

Í liðinni viku komu tveir Danir og hringdu dyrabjöllunni, uppáklæddir með skjalatösku og Varðturinn í hendinni. Ég var á kafi í verkefni en drattaðist til dyra enda vill maður ekki missa af stóra vinningnum, gæti hafa verið dyrabjölluhappdrætti þar sem aðalvinningurinn væri ferð til Íraks eða á einhvern annan fallegan stað!

Nei, þetta voru trúboðar að reyna að troða (nánast tróðu blaðinu framan í mig)  uppá mig Varðturninum sem er rit Votta Jehóva. Ég nennti ekki að hlusta á ræðuna og var samkvæmur sjálfum mér, ekkert xxx trúarraus núna, takk og veriði blessaðir! Ekki veit ég hvort Danirnir skyldu mig en þeir fóru er ég lokaði hurðinni góðfúslega á þá og án þess að taka við blaðinu. Mér finnst að þetta fólk ætti að beita kröftum sínum og velvilja í eitthvað annað en að ganga í hús á Akureyri, mér sýnist trúarárekstrar vera það algengir í Danmörku og þeir gætu reynt að koma vitinu eða vitleysunni að í sínum heimagarði. Trúboð er ekki inn í dag, allavega ekki höfðar það til mín.

Það gengur vel í skólanum, áhugavert efni um skóla og samfélag, tengsl foreldra og kennara og fleira sem stöðugt er í gangi. Við erum að læra hvernig kenna megi bókmenntir og ljóð, til dæmis hvernig vinna megi með smásögur í grunnskóla. Við erum að læra um tónlist, hreyfi- og myndlist og hvernig þessir þættir geta nýst í skólastarfi, við lærum um þroskaferil barns í móðurkviði og fram undir 20 ára aldur og sitthvað fleira vinnum við með. Kennaranám er skemmtilegt, krefjandi og gefandi nám sem tekst á við efni og anda, manneksju og samfélag svona svipað og var í mannfræðinni.

Í gær fórum við hjónin á þorrablót til ömmu Kristbjargar þar sem fjöldi ættingja mættu og snæddu saman þorramat eins og; hákarl, hval, sviðasultu, svínasultu, magál, hangikjöt, hrútspunga og margt fleira gott. Ég borðaði mjög mikið og fannst súr hvalur með rengi mjög góður auk alls annars sem boðið var uppá enda finnst mér þessi matur mjög góður einu sinni á ári. Kristbjörg sat hjá en fékk sér kjúkling heima:)

Í gærkvöldi bauð Flugfélag Íslands okkur og mörgu öðru góðu fólki uppá afmælissýningu Leikfélags Akureyrar, Svartur köttur. Mjög skemmtilegt leikrit sem hélt manni vakandi allan tímann, frekar blóðugt en slapp til, ekki fyrir hjartveika eða viðkvæma. Í hléi var boðið uppá freyðivín og jarðaber auk alls kyns varnings. Ljómandi gott.

Sumarið er komið á Akureyri, 10°C í plús í morgunn. Framundan er lærdómur og viðtal hjá fjármálaráðgjafa sem Glitnir býður uppá, þar er farið yfir fjármálin og bent á vannýttar leiðir og ávinninga. Það verður gaman að sjá hvar hægt er að gera betur til að hámarka kaupmáttinn. 

Magri 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Júlíus  Garðar Júlíusson

Frekar blóðugt

Júlíus Garðar Júlíusson, 30.1.2007 kl. 14:19

2 identicon

Glæsilegt hvað allt gengur vel:)

Helga, Skafti og bumbubúinn (IP-tala skráð) 31.1.2007 kl. 11:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson
Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson

Dalvíkingur, giftur Kristbjörgu, faðir Ásu Eyfjörð, Ægis Eyfjörð og Kára Eyfjörð.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband