Færsluflokkur: Bloggar
14.6.2006 | 09:23
Sláttuorf og sumarblóm
Í gær var tími sumarblómanna, í fyrradag var vetur, í dag er haust............ svona er að búa á Íslandi, það er hending ef tveir góðir dagar liggja saman, altso veðurslega séð því auðvitað eigum við ekki að láta veðrið stjórna dagsformi okkar.
Ég náði að slá garðinn á mánudaginn, heilmikið gras sem ég fór með á þar til gerðan grasstað, mínútu seinna fór að rigna og þá var gott að vera búinn með fyrsta slátt. Ég setti upp girðingu milli húsa og sáði grasfræjum en vinsæl umferðaræð krakka hefur orðið til þess að bakki milli húsanna er moldarflag sem kemur líka til af því að sólpallurinn tekur birtu frá jarðveginum. Vonandi grær þetta svo allt verði yndislegra.
Í gær þrifum við sólpallinn því í dag var ætlunin að bera á hann pallaolíu og gera fínt en veðrið er ekki alveg að gera sig svo það verður að bíða. Í gær fórum við Kristbjörg líka í leiðangur til að finna tunnu undir flöskur og dósir sem hægt er að geyma úti en ekki í Bónuspoka undir vaskinum í eldhúsinu! Semsagt er hægt að kaupa fínar tunnur í til dæmis Húsasmiðjunni á 6000kr, við fórum bara niður á bryggju þar sem allt er fullt af drasli sem enginn veit hver á, fundum stóra bláa tunnu undan klórefni til skipanota, kipptum henni í skottið og heim með lögguna á hælunum! Nágranninn var viss um að sullið í tunnunni væri stórhættulegt og myndi springa um leið og hún opnaðist. Tunnan innihélt smá leka af klór sem stofnaði engum í hættu nema járnsmíðagengi sem mátti alveg missa sín. Næsta skref er að skera ofanaf tunnunni í sjálfstæðislitunum og setja í hana ruslapoka.
Í gær kl. 10°° fór ég til Ólafar 90 ára gamallar ömmu Kristbjargar sem býr ein og er eldhress þrátt fyrir öll árin. Við fórum í leiðangur til að kaupa rafmagnssláttuorf en það gamla var ónýtt og ekki borgaði sig að panta varahluti. Ólöf hefur sterkar skoðanir og í þremur búðum sagði hún fjölda afgreiðslumanna hvernig gamla orfið var, hvernig notkunin á því var og hvernig best væri að hafa nýja orfið. Við skoðuðum nokkur orf og á endanum keyptum við fínasta orf í Húsasmiðjunni með tveimur þráðum en það gamla var með einum. Það er bara gaman að fara í búð með konu sem tekur hlutunum ekki sem sjálfsögðum, hún vill þjónustu og þolir ekki afgreiðslufólk með hangandi haus enda þurftum við í öllum búðunum að víkja frá fyrsta afgreiðslumanni sem var sumarafleysingabarn sem ekkert vissi og það þurfti að sækja ,,manninn sem veit allt". Manneskja sem er orðin 90 ára vill nefnilega hafa hlutina góða, einfalda og meðfærilega því hún gerir þessa hluti sjálf að mörgu leiti eins og að slá með orfinu, setja niður blóm og fleira. 16 ára sumarafleysingastelpa með tyggjó er óþolandi kostur fyrir afgreiðslu í slíkri ferð, sennilega er það bara eðlilegt en ég fer oft í Byko og þessar búðir og er farinn að sneiða framhjá þessu ágæta fólki því nánast alltaf þurfa þau að snúa sér til annarra. Við Ólöf fórum svo heim, settum orfið í stand og ég renndi meðfram lóðinni sem nýbúið var að slá, á meðan var hún með hjólbörur og skóflu og garfaði í lóðinni sem hún er að rækta upp að hluta.
Ólöf nýtti að sjálfsögðu ferðina og við fórum í blómabúð, hún vissi flest betur um blómin en maðurinn sem afgreiddi en hann hafði bara gaman að kerlingunni og vissi alveg hvað hann var að gera enda keypti hún stjúpur og matjurtir sem hún borðar allt sumarið. Þetta var reyndar bara fyrsta ferðin í blómin því hún dundar við þetta allt sumarið og þurrkar svo hluta af þeim um haustið og föndrar á jólakortin. Í fyrra aðstoðaði hún og leiðbeindi okkur með garðinn og blómin, það er bara gott að eiga svona kerlingu að og tíminn sem ég eyði með þessari konu er alltaf lærdómsríkur.
Milli verka horfi ég á HM sem er skemmtilegt mót þó mitt lið frá Ghana hafi tapað fyrsta leiknum gegn Ítalíu.
Framundan er 17. júní og við ætlum að vera búin að setja blómin niður og mála pallinn fyrir þann dag. Á mánudaginn skreppum við til Reykjavíkur í verslunarferð fyrir giftinguna, kaupa skó og skraut.
Magri
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.6.2006 | 22:15
Sjómannadagur
Í dag er Sjómannadagurinn. Í gamla daga var ekki óalgengt að sjá fulla sjómenn ráfandi um göturnar á Dalvík, rakir í kappróðri, reiptogi og öðru sem var fólki til skemmtunar. Sjómenn og makar hittu svo aðra sjómenn í mat, skemmtun og balli þar sem oft var mikil stemming.
Á Dalvík mætti einn úr áhöfn Björgvins í kappróður og reipitog, hann vann ekki! Ekkert var ballið og engin skemmtun. Á Akureyri var lítið um að vera og er aðalástæða þess að tveir menn létust um borð í Akureyrinni fyrir nokkrum dögum.
Við áhöfnin á Björgvin fórum á Strikið í mat, vorum í sal niðri og borðuðum humar&hörpudisk, nautasteik, ís&köku...... ljómandi fínn matur og allir hressir og kátir.
Í dag höfum við Kristbjörg og Konungur heimilisins hann Moli haft það náðugt hér heima, heimsmeistaramótið í knattspyrnu er byrjað svo við gláptum aðeins á það og almenn leti var viðhöfð.
Kosningar fórum þokkalega, ég er sáttur við að stærsti flokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn, stjórnar nú Akureyri, Reykjavík og Íslandi. Mér finnst gott að Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin skuli mynda stjórn hér á Akureyri og ekki er verra að oddvitar flokkanna þeir Kristján bæjarstjóri og Hermann eru báðir Dalvíkingar, hvað annað. Akureyri verður áfram blár bær með góðri stjórn og öllum lífsins gæðum:) Það er gott að búa á Akureyri
Framundan hjá mér er garðsláttur, girðing, þrif og málun sólpallar.... ég er sem sagt kominn í frí út júlí en þá ætla ég einn frystitúr og svo í kennaranám ef ég fæ innritun en það ætti að koma í ljós næstu daga.
Arnar mágur minn í Þýskalandi varð 40 ára 060606, Árný dóttir hans varð 14 ára í gær og þau hafa þegar fengið kveðjur. Ég talaði við Árnýju í gær en þau búa í Hamborg þar sem leikið er í einum riðli HM, þar er fullt af fólki, allir í búningum með hárkollur, verslanir eru opnar alla daga til 22°° og það má segja að þetta sé einn allsherjar sirkus sem stendur yfir í 30 daga eða þar til daginn eftir að ég verð búinn að gifta mig!! Það styttist.
Lifðu í lukku en ekki í klukku
Af hverju er algengt að sjá ljóskur uppi í tré hjá Háskóla Íslands? Þær eru að velja sér grein hehehehehehehehehehehehe
og annar ljóskubrandari
Skrýtið, læknir, kvartaði ljóskan: Alltaf þegar ég sé myndarlegan karlmann fer mig að klæja milli tánna. Furðulegt, svaraði læknirinn. Hvaða táa? Stóru tánna.
Magri
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.5.2006 | 10:17
Millilöndun í Þorlákshöfn
Já kæru vinir Hrappurinn lætur ekki deigan síga, eða deigið falla heldur hnoðar hann áfram capital til handa neysluþjóðinni Íslandi sem siglir inní sveitastjórnarkosningar á morgun.
Ég er staddur í Þorlákshöfn en hingað komum við í morgunn klukkan 07°° til þess að landa 5505 kössum af frystum afurðum að verðmæti 54, 4 milljónir eftir 15 daga úthald sem er ljómandi gott. Við skiptum nokkrum körlum út og fáum ferska inn og höldum veiðum áfram til Sjómannadags eða um hálfan mánuð, auðvitað held ég áfram og fer svo í giftingarfrí:)
Þorlákshöfn er um 1500 manna bær, svipað og Dalvík og er í mikilli uppbyggingu segja sundlaugarverðirnir en í sundið fórum við í morgunn, ljómandi fín laug hérna.
Ég sit núna hérna á Ráðhúskaffi sem er kaffihús í ráðhúsinu, dásamlegt þráðlaust net og kaldur öl. Kannski kíkjum við á Selfoss á eftir en hér er annars fínt að vera. Mikið er ég sáttur að hafa fartölvuna alltaf meðferðis og geta sest niður með netið í fanginu. Jæja Gummi Magg var að hringja og við erum á leið á Selfoss í pizzu og bjór................ munið að kjósa rétt!
Togarakveðja
Magri
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.5.2006 | 13:35
X-D
Jæja kæru vinir þá er gölturinn kominn í land, kom reyndar í land á Akureyri á sunnudagskvöld. Búinn að vera 3 vikur sem kokkur og gekk bara ljómandi vel að veiða margar tegundir af fiskum. Framundan er 30 daga túr og svo frí eftir Sjómannadag þar til í ágúst.
Annars er allt í góðum gír, giftingarplönin ganga vel, ég fór á fund sýslumanns í gær og hann eða fulltrúi hans ætlar að gefa okkur saman hér heima og svo verður mikil veisla og mikil gleði í Frímúrarahúsinu hér á Akureyri.
Fyrir fundinn hjá sýslumanni greiddi ég atkvæði utan kjörfundar til sveitastjórnarkosninga og að sjálfsögðu kaus ég Sjálfstæðisflokkinn og einna helst frábæran bæjarstjóra Kristján Þór Júlíusson. Ég kýs áframhaldandi kraft og vöxt þessa ágæta samfélags. x-d xdxdxdxdxdxdxdxdxdxdxdxdxdxdxdxd
Sumarið er að mæta hér norðan heiða, Helgi við hliðina kominn úr að ofan og konan austan við okkur mætt með skófluna, Kristbjörg gefur þeim ekkert eftir í garðræktinni og reytir og dyttar að þó ekki fari hún úr að ofan. Fyrsta grill sumarsins fór fram í gærkvöldi í þoku og stillu er grillmeistari Helgamagrastrætis snaraði kjöti á grillið sem kom reyndar lélegt undan vetri, stóð sig þó vel.
Moli lenti í óhappi fyrir 3 vikum er hann kom bleikur heim! Ekki er vitað hvaða efni þetta var en afleiðingarnar eru þær að hann var svæfður og síðan rakaður eins og gert er við rollurnar. Búkurinn var semsagt krúnurakaður og nú er hann eins og ljón með loðinn haus, loðnar lappir og skott! Svakalega skrýtinn þessi köttur. En nú er hann allur að hressast, kominn á nýtt fóður sem á að gera feldinn og Mola allan heilbrigðari og öllum líður betur. Ekkert grín að vera köttur.
Munið að kjósa
Magri
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
18.4.2006 | 14:56
Fríið búið
Já kæru vinir þá er þessum páskum lokið og við tekur dásamlegt hversdagslíf þar sem debetfærslur koma inn í netbankann eftir nokkrar mínútur eða klukkutíma en ekki eftir 5 daga... mér finnst gott að allt sé eðlilegt á ný.
Annars fínir páskar, mikil skíði miðað við síðustu 3 ár sem ég fór ekkert! Skíðaklíkumótið fór vel fram á Dalvík og á eftir var Bláskelsveisla hjá Daða sem var dásamlegt. Klíkan er flokkur karla og kvenna sem á það sameiginlegt að vera frá Dalvík eða hafa flust þangað og hafa æft og keppt á skíðum eða bara vera vinur einhvers í hópnum. Semsagt komum við saman hverja páska og keppum í samhliðasvigi með bjórstöð í miðri braut enda menn misgóðir í hvoru fyrir sig. Geysilega gaman saman.
Í dag þvoði ég bílinn og lét smella sumardekkjunum undir enda sumarið á næsta leyti. Í morgunn fór ég í sund með gamla fólkinu sem hittist í pottunum og segir sögur af sér og sínum, mér líður mjög vel innan um eldri borgara í lauginni því það er alltaf eitthvað sem ég get brosað af sem ekki fer framhjá mér Svo er bara gaman að hlakka til að verða gamall og vera ekkert að pæla í því hvernig sundfötum maður er í, hvað þá að láta sér líða vel með girta sundskýlu uppað nafla og ofar. Það er gott að vera gamall og hress, vona að ég fái þess notið, bara seinna samt.
Á morgun fer ég til Hafnarfjarðar og á sjóinn sem matsveinn um miðjan dag.
Best að prófa að hafa commentakerfið opið og sjá hvort það verði í lagi.
Gleðilegt sumar
Magri
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.4.2006 | 17:55
Gleðilega páska
Þá er þessi Jesú-hátíð byrjuð með pompi og prakt. Í gær fór ég í kirkjuna á Dalvík þar se frænka mín var fermd, það var svaka stemming í kirkjunni og enn meiri í veislunni á eftir. Um kvöldið fórum við ásamt mömmu og pabba, systrum mínum og fjölskyldum í leikhúsið hér á Akureyri að sjá Litlu-Hryllingsbúðina.... svakalega fín og skemmtileg sýning, geggjuð sviðsmynd!
Í dag fórum við í norðlensku alpanna hér á Akureyri, mikið af fólki og snjórinn fínn, bæði natural og snjóbyssusnjór. Það er alveg ljóst að ég hef engu gleymt á skíðunum og bar af í brekkunum.
Annars allir hressir á leið í mat og drykk
Magri
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.4.2006 | 11:40
Nýtt blogg
Kæru vinir þá er Hrappur Vestmann kominn með nýtt blogg í boði Málgagnsins eða mbl.is Endilega bendið mér á ef eitthvað er bilað, virkar ekki.
Annars er allt í góðum gír svona almennt, alltaf eitthvað í lífi hvers manns sem þarf að laga og gera tiltekt og annað sem blómstrar. Fórum í fermingarveislu um helgina sem var sérdeilis ljómandi. Dagur vinur okkar kom norður í páskafrí og við kíktum á Idol hjá Kötu og Stjána og svo aðeins í krús.
Tiltekt í tölvuherbergi gekk yfir með nýjum áherslum og það er mun betra núna.
Ég móaðist uppá þaki við að moka snjónum niður, hreinsa tröppur og stéttir.... nokkrum klukkutímum seinna kom sunnanáttin og bræddi afganginn.
Jakob danski vinur minn og Helle Nielsen ætla að koma hingað í sumar í brúðkaupið og í tilefni af því set ég vísu á dönsku svona í tilefni páskanna, eftir Jónas Hallgrímsson held ég.
Smil ned, du nattens lue!
Smil ned til dunkle jord
fra himlens höje bue
hvor herren oppe bor-
hvor snehvide englebörn danse
på månens gyldne rand
og række stjernekranse
til jordens frelste mand.
Magri
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)